Fara í efni

Demantshringurinn er stórkostlegur hringvegur á Norðausturlandi, þar sem finna má magnaðar náttúruperlur og landslag sem virðist oft ekki vera af þessum heimi.

Á Demantshringnum eru 5 lykiláfangastaðir, en þeir eru hinn sögufrægi og myndræni Goðafoss, náttúruperlan Mývatn þar sem grænu og bláu litirnir ljá staðnum yfirbragð annars heims, hin ógurlega hvíta orka Dettifoss sem er vatnsmesti foss í Evrópu, náttúruundrið Ásbyrgi sem er í laginu eins og hófafar og Húsavík, sem er hvalaskoðunarhöfuðborg landsins hvaðan stutt er út á blátt og opið hafið.

Demantshringurinn býður upp á meira. Upplifðu hinn magnþrungna Vesturdal, þar sem finna má hina sérkennilegu Hljóðakletta; hraunbreiðurnar í kringum Kröflu sem virðast ekki vera af þessum heimi, vatnshitasvæðið Hveri og hraunborgirnar í Dimmuborgum.

Á Demantshringnum getur þú líka fundið hulda fjársjóði og afvikna staði sem kom jafn mikið á óvart og þeir frægustu; náttúrufegurð Tjörness þar sem finna má mikið fuglalíf og steingervinga, hinar gróðursælu Hólmatungur og minna þekktar perlur í nágrenni Mývatns eins og sprengígurinn Hverfjall og grænbláa vatnið í hlýrri Grjótagjánni.


Demantshringurinn er sannarlega ekki bara 250 kílómetra langur hringvegur. Hann er tækifæri til þess að upplifa stórkostlegt og ógleymanlegt ævintýri.

Goðafoss
Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðadal. Hann er 12 metra hár og 30 metra breiður. Goðafoss er meðal stærstu fossa landsins og er jafnframt talinn einn sá fallegasti. Goðafoss skartar sínu fegursta allan ársins hring. Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. Goðafoss á líka merkilegan sess í Íslandssögunni en Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði hinum heiðnu goðum í fossinn eftir að hafa ákveðið að Íslendingar skyldu taka upp kristindóm og hafna heiðnum siðum, svona opinberlega að minnsta kosti. Goðafoss er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is 
Ásbyrgi
Ásbyrgi er eitt helsta náttúruundur Íslands og er staðsett í Vatnajökulsþjóðgarði. Fjöldi göngustíga eru í og við Ásbyrgi, fjölbreyttir að lengd og gerð. . Ásbyrgi er skógi vaxið og þar er fjölbreytt gróður- og fuglalíf. Það er upplifun fyrir alla fjölskylduna að virða fyrir sér tignarlega hamraveggi sem eru allt að 100 metra hair og njóta kyrrðarinnar. Það er ekki síður skemmtilegt að fara í Ásbyrgi á haustin, þar sem fallegir haustlitirnir setja skemmtilegan svip á þetta einstaka náttúruundur. Ásbyrgi er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is 
Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn á Íslandi, 37 km2 á stærð, mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Rykmý setur mjög svip sinn á umhverfi Mývatns og af því dregur vatnið nafn sitt. Mývatn er mjög grunnt og sólarljós nær alls staðar til botns. Það sem einkennir lífið í Mývatni öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga og lífríkið er ákaflega fjölbreytilegt og merkilegt. Á botninum er mikið af kísilþörungaskeljum, ofar syndir hin alþekkta Mývatnsbleikja innan um vatnagróður og á bökkum vatnsins og í hólmum vex safaríkur gróður.Á og við Mývatn er mikið og fjölskrúðugt fuglalíf. Einkum lifa þar vatna- og votlendisfuglar af ýmsum tegundum en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri við vatnið en á nokkrum öðrum stað á jörðinni.Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur. Mývatn er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is  
Húsavík
Húsavík er elsti bær á Íslandi ásamt því að vera stærsti bærinn í Þingeyjarsýslu. Bærinn er kallaður „höfuðborg hvalanna“ vegna þess að hann er þekktur fyrir hvalaskoðun á Skjálfandaflóa. Hægt er að finna 23 tegundir hvala, þar á meðal steypireyð, í flóanum og einnig er hægt að sjá stórar varpstöðvar lunda. Á Hvalasafninu má sjá raunstærð hvala, þar sem meðal annars er 22 metra löng beinagrind af steypireyð til sýnis. Það eru nokkur hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík sem sigla seglum þöndum í leit að þessum stórkostlegu dýrum á flóanum, en slíkt er upplifun sem engin ætti að missa af og gleymist aldrei. Heimsókn í Safnahúsið svíkur heldur engan, en þar er sjóminjasýning, sýning um mannlíf og náttúru í 100 ár, skjalasafn, myndasafn og sýningarsalur fyrir list þar sem eru rúllandi sýningar. Menningarlíf í þorpinu og nærsveitum er blómlegt og áhugamannaleikfélagið á staðnum er meðal þeirra bestu á landinu. Þá er einnig blómlegt tónlistarlíf í bænum. Á Húsavík má finna allskonar gistiaðstöðu og veitingastaði. Einnig er þar bakarí, bruggverksmiðja og bar, tjaldsvæði, sundlaug, golfvöllur, skíðasvæði og góðar gönguleiðir. Nýlega opnuðu sjóböð á svæðinu sem bjóða upp á bað í heitu sjóvatni með ótrúlega fallegu útsýni yfir Skjálfanda. Flugvöllur er rétt fyrir utan bæinn og því auðvelt að komast á staðinn. Húsavík er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is  
Dettifoss
Dettifoss er talinn aflmesti foss í Evrópu. Hann er 44 metra hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum. Áin rennur um Jökulsárgljúfur sem eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þeir eru ófáir, staðirnir eins og þessi, þar sem maður upplifir smæð mannsins eins skýrt og við þennan mikilfenglega foss. Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí eða í júní. Vestanmegin er malbikaður vegur frá þjóðvegi 1 og alla leið að Ásbyrgi. Athuga þarf að þessi vegur er ekki í þjónustu frá 1.janúar til 30. mars.Dettifoss er hluti af Demantshringnum. 
Hringsbjarg
Hringsbjarg er staðsett á austanverðu Tjörnesi. Þaðan er stórbrotið útsýni yfir fjallgarð Öxafjarðar og heillandi svarta strönd sem er í nágrenninu og auðvelt að komast að. Við Hringsbjarg er stór útsýnipallur, gott bílastæði og upplýsingaskilti. Þetta er hinn fullkomni staður til að stoppa og teygja úr sér, anda að sér fersku sjávarloftinu og njóta útsýnisins og kyrrðarinnar. Í bjarginu er mikið fuglalíf sem gaman er að skoða.
Hljóðaklettar
Hljóðaklettar í Vatnajökulsþjóðgarði eru sérkennileg þyrping stuðlabergskletta í mynni Vesturdals -i við Jökulsá á Fjöllum. Klettarnir í Hljóðaklettum taka á sig ýmsar myndir eins og örnefnin Tröllkarl, Kirkjan, Karl og Kerling gefa til kynna. Stuðlarnir hafa alls konar legu og er gaman að nota ímyndunaraflið þegar þeir eru skoðaðir. Fjölbreyttar gönguleiðir liggja frá bílastæði í Vestudal um Hljóðakletta, Rauðhóla og nágrenni. Frá bílastæði á Langavatnshöfða er stutt ganga að útsýnispalli þaðan sem njóta má útsýnis yfir Hljóðakletta og gljúfrin. Vegurinn að Hljóðaklettum (862) er fær öllum bílum frá þjóðvegi 85 en er lokaður á veturna.060506
Hólmatungur
Hólmatungur er mjög gróskumikið svæði í Vatnajökulsþjóðgarði og þar eru margar fagrar stuðlabergsmyndanir. Göngusvæðið á milli Hljóðakletta og Hólmatungna meðfram Jökulsá á Fjöllum er með því allra fegursta á landinu. Óteljandi lindir spretta upp í Hólmatungum og vatnið fellur af stalli niður í Jöklu. Þar er einnig að finna Gloppuhelli í Gloppu, sem er sérstök náttúrusmíð. Frá bílastæði er stutt ganga á útsýnispall þaðan sem Hólmatungur og gljúfrin blasa við. Um Hólmatungur liggja merktar gönguleiðir, sem sumar tengjast leiðum frá Dettifossi og niður í Ásbyrgi.
Námafjall
Námafjall og umhverfi þess er háhitasvæði. Þétt sprungubelti liggur yfir allt Námafjallssvæðið, en meginuppstreymið er austan við fjallið og hefur það gengið síðustu ár undir nafninu Hverir. Á því svæði eru margir gufu- og leirhverir, en engir vatnshverir. Leirhverirnir eru stórir og áberandi, en gufuhverirnir eru margir borholur sem búið er að hlaða grjóti yfir. Jarðvegur er ófrjór og gróðurlaus á háhitasvæðinu og mjög súr vegna áhrifa hveraloftsins og brennisteins.
Grjótagjá
Grjótagjá er lítill hellir í Mývatnssveit og var eftirsóttur baðstaður á árum áður. Við jarðhræringarnar á þessum slóðum á árunum 1975-1984 hækkaði hitastig vatnsins svo mjög að ekki hefur verið hægt að baða sig þar síðan. Virkilega skemmtilegt að kíkja ofaní hellinn og láta sig dreyma um að baða sig í þessum flotta helli.
Hverfjall
Í Hverfjalli er stór, hringlaga sprengigígur, um 140 m djúpur og um 1000 m í þvermál. Hverfjall er í röð fegurstu og reglubundnustu sprengigígamyndana sem getur að líta á Íslandi og talið í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Telja má víst að gígurinn hafi myndast við sprengigos og er aldur þess áætlaður 2800-2900 ár.
Dimmuborgir
Dimmuborgir eru dramatískar og sundurtættar hraunborgir með gróðri og kjarri. Í Dimmuborgum gefur að líta hvers konar furðumyndir, gatkletta og smáhella, en sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing sem er opin í báða enda. Það er ekki síður mikil upplifun að fara í Dimmuborgir yfir vetrartímann og í desember er hægt að heimsækja jólasveinana sem búa þar.
Höfði í Mývatnssveit
Höfði er klettatangi sem gengur út í Mývatn. Útsýni er allgott af Höfðanum yfir Mývatn, voga þess og víkur og er kjörinn staður til fuglaskoðunar. Kálfastrandarvogur liggur meðfram Höfðanum og er sérstæður fyrir hraundrangamyndanir í voginum og við hann. Þessir drangar heita Klasar og Kálfastrandarstrípar en Kálfastrandarvogur og umhverfi Höfða þykir með fegurstu stöðum við Mývatn.
Skútustaðagígar
Skútustaðagígar eru gervigígar sem mynduðust við gufusprengingu þegar hraun rann yfir votlendi. Gígarnir eru vinsæll staður til fuglaskoðunar og eru þeir friðlýstir sem náttúruvætti.
Stóra Víti
Stóra - Víti er gríðarstór sprengigígur um 300 m í þvermál. Gígurinn myndaðist við mikla gossprengingu við upphaf Mývatnselda árið 1724. Gosið stóð meira og minna samfellt í 5 ár en leirgrauturinn í Víti sauð í meira en heila öld á eftir. Víti er við Kröflu og er malbikaður vegur þar upp að frá þjóðvegi númer 1.