Framtíðarsýn
Í áfangastaðaáætlun árið 2018 var mótuð framtíðarsýn fyrir áfangastaðinn Norðurland og er sú framtíðarsýn enn höfð að leiðarljósi:
„Norðurland stendur fyrir einstaka og fjölbreytta náttúru, vetrarupplifun, dýralíf, sögu, menningu og listir og einstaka viðburði. Framtíðarsýn Norðurlands er að aukning verði á vægi ferðaþjónustu allt árið sem tryggi uppbyggingu innviða, greiðar samgöngur, fleiri heilsársstörf og meiri framlegð í greininni. Ein grundvallarforsenda þess að ná markmiðum í nánustu framtíð er að beint áætlunarflug hefjist til Norðurlands.“
Til að þessi framtíðarsýn raungerist hafa verið valdar ákveðnar stefnuáherslur sem birtast í útfærslu lykilþróunarverkefna og ferðaleiða. Einnig voru valdar ákveðnar markaðsáherslur, sem afmarka þau svið ferðaþjónustu sem stefnt er að því að byggja upp í gegnum sérstök verkefni og aðgerðir.