Markaðsáherslur
Í áfangastaðaáætlun 2018 var ákveðið hverjar markaðsáherslur MN yrðu næstu árin. Þessum áherslum var skipt í þrennt, sem afmarkar um leið þau svið ferðaþjónustu sem lögð verður áhersla á að byggja upp á Norðurlandi:
- Náttúru, ævintýra og umhverfisvæn ferðaþjónusta
- Vetrarferðaþjónusta
- Saga, menning og listir
Markaðsáherslurnar eru leiðarljós við hönnun þróunarverkefna og markaðsaðgerða.
Náttúru og ævintýraferðaþjónusta á Norðurlandi
Ævintýraferðaþjónusta er ein af markaðsáherslum MN, en MN vinnur samkvæmt því að Norðurland geti orðið leiðandi áfangastaður í þessum flokki. Á Norðurlandi eru mikil tækifæri í þjónustu sem tengist til dæmis fjallahjólum, ísklifri, fjallahlaupum, svifvængjaflugi, skíðamennsku og fleiru. MN mun leggja áherslu á eftirfarandi til að meta þessa möguleika:
- Greining á sérstöðu svæðis og samkeppnishæfni þess í ævintýraferðaþjónustu.
- Markhópagreining.
- Greining á mögulegum markaðs- og þróunarverkefnum.
- Efnisvinnsla
Verkefni verða leidd af MN í samvinnu við fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu.
Vetrarferðaþjónusta
Einn helsti styrkleiki áfangastaðarins Norðurlands er sú vetrarferðaþjónusta sem í boði er. MN leggur áherslu á áframhaldandi þróun og á að leita leiða til ná betri árangri. Lögð er áhersla á að greina eftirfarandi atriði:
- Greining á sérstöðu Norðurlands sem áfangastaðar fyrir vetrarferðaþjónustu.
- Hvernig geta fyrirtæki á Norðurlandi nýtt tækifæri í vetrarferðaþjónustu.
- Greining á mögulegum þróunarverkefnum til að styðja við vetrarferðaþjónustu.
- Þróun á markaðsaðgerðum.
- Greining á markhóp vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi.
- Benchmarking vetrarferðaþjónustu.
- Efla erlent samstarf norðlægra áfangastaða.
Verkefni verða leidd af MN í samvinnu við fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu.
Sögu- og menningartengd ferðaþjónusta
Mikil tækifæri felast í sögutengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi, sem ekki hafa verið nýtt nema að litlu leyti. Í tveimur rannsóknum sem voru fjármagnaðar með styrk frá Ferðamálastofu, var þetta undirstrikað. Í fyrri rannsókninni, sem gerð var af Rannsóknamiðstöð Ferðamála 2019, voru gestir safna, setra og sýninga á Norðurlandi spurðir um upplifun sína. Þar kom fram að 97% svarenda sögðust annaðhvort vera ánægðir eða mjög ánægðir með heimsóknir á söfnin og 90% sögðust ætla að mæla með því við fjölskyldu og vini að þeir gerðu slíkt hið sama. Í seinni rannsókninni sem unnin var af Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar, og er byggð á könnuninni Dear Visitor, kom fram að ferðamenn á Norðurlandi eru talsvert líklegri til að skoða söfn eða sýningar en hinn almenni ferðamaður á Íslandi og því megi gera ráð fyrir því að slík afþreying dragi ferðamenn inn í landshlutann að einhverju marki. Auk þess voru ferðamenn á Norðurlandi sömuleiðis líklegri til þess að skoða kirkjur og fræga sögustaði, en ferðamenn almennt sem sækja Ísland heim.
Mikil tækifæri eru í sögu- og menningartengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra, þar sem eru margir sögulegir staðir og miklir möguleikar á að tengja þá betur saman. Í greiningu sem Hjörtur Smárason vann fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 2023, kom fram að svæðið eigi mikið inni í þessum efnum. Þörf sé á að kortleggja svæðið og draga fram það sem það hefur uppá að bjóða með áherslu á sögu og menningu. Búa til einhverskonar leið (söguslóð) sem hægt er að kynna og markaðssetja fyrir innlendum og erlendum ferðaskrifstofum.
Haldnir hafa verið kynningarfundir með aðilum ferðaþjónustunnar í Húnavatnssýslum og Skagafirði þar sem skoðaðar voru hugmyndir varðandi uppsetningu á svona leið. Saga og menning tengist líka íslenska hestinum, kirkjum, gönguleiðum, íslensku ullinni, matarupplifun, handverki og fleiru. Greina þarf betur hvaða sögur á að draga fram og með hvaða hætti þær eru sagðar. Í framhaldi af því er hægt að búa til heildstæða vöru með áherslu og sögu og menningu sem hægt yrði að markaðssetja á einfaldan hátt. Mestu máli skiptir að fyrirtækin sjái hag sinn í því að vinna saman og nýta sameiginlegan slagkraft til að koma nýrri vöru á markað.
Uppbygging Þrístapa er frábært dæmi þar sem búið er að byggja upp áfangastað á sviði sögu og menningartengdrar ferðaþjónustu. Einnig mætti nefna Kakalaskála, Hóla í Hjaltadal, 1238 Battle of Iceland á Sauðárkróki, fjölda áhugaverðra safna og svo mætti lengi telja.