Fara í efni

Demantshringur

Ferðamannaleiðin Demantshringurinn er leið sem tengir saman nokkrar þekktustu náttúruperlurnar á Norðurlandi. Upphaf verkefnisins má rekja aftur til ársins 1994 þegar heimamenn byrjuðu að nota nafnið Demantshringur eða Diamond Circle og markaðssetja leiðina sem slíka. Þessi 250 km leið hefur skilgreinda fimm lykiláfangastaði sem eru Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Ásbyrgi og Húsavík. Ferðir með nafninu Demantshringur hafa verið seldar í mörg ár en lengi vel var erfitt að markaðssetja leiðina af fullum krafti þar sem vegurinn frá Ásbyrgi upp að Dettifossi var einungis opinn að sumri til. Þegar Dettifossvegur komst síðan á samgönguáætlun og malbikun var lokið var ákveðið að hefja formlegt markaðsstarf. Heitið Diamond Circle var skrásett af Húsavíkurstofu og var í framhaldinu hafist handa við vörumerkjaþróun. Fyrsta skrefið var tekið árið 2019, þegar formlegur samstarfssamningur Markaðsstofu Norðurlands við Húsavíkurstofu var undirritaður. Myndmerki leiðarinnar var í kjölfarið hannað auk þess sem unnin var vörumerkjahandbók um notkun á merkinu. Það var síðan 6. september 2020 sem hringurinn var formlega opnaður á nýjum malbikuðum vegi milli Dettifoss og Ásbyrgis. Búið er að gefa út söluhandbók sem mun hjálpa til við að vekja enn meiri athygli á leiðinni og er hún uppfærð árlega og send á ferðaskrifstofur innanlands og erlendis. Auk þess er reglulega tekið á móti blaðamönnum og ferðaskrifstofum sem hafa áhuga á að fjalla um leiðina eða taka hana í sölu.

Vörumerki Demantshringsins er orðið vel þekkt og þær ferðaskrifstofur sem taka vöruna í sölu, eru meðvitaðar um að allir fimm lykiláfangastaðirnir þurfa að vera innan ferðarinnar svo hún standi undir nafni. Góð samvinna hefur verið á milli MN, Húsavíkurstofu og Mývatnsstofu og skiptir það miklu máli uppá áframhaldandi þróun.

Fyrirtækin á svæðinu hafa verið dugleg að nýta sér nafn og kennimerki leiðarinnar. Það er mikið af afþreyingarmöguleikum á Demantshringnum og er lögð áhersla á að ferðamenn gefi sér tíma til að fara um svæðið og gisti í 3-4 nætur.

Það skiptir máli að jafna árstíðarsveiflur á svæðinu og að ferðamenn geti ferðast um Demantshringinn að vetri jafnt sem sumri. Áframhaldandi samtal við Vegagerðina og stjórnvöld, varðandi vetrarþjónustu á Dettifossvegi, er því nauðsynlegt til að tryggja að leiðin verði aðgengileg allt árið.