Gagnagrunnur gönguleiða
Í framhaldi af gerð fyrstu útgáfu áfangastaðaáætlun Norðurlands árið 2018 veitti Ferðamálastofa styrk til að búa til gagnagrunn um gönguleiðir á Norðurlandi. Stýrihópur setti fram grunnforsendur um hvaða upplýsingar væru nauðsynlegar svo hægt væri að deila viðkomandi leið í miðlægum grunni. Sumarið 2019 voru síðan sveitarfélög beðin um að senda inn leiðir á sínu svæði og bárust inn um 20 leiðir í fyrsta áfanga. Í framhaldi af því var sett upp vefsíða þar sem hægt er að sækja upplýsingar um viðkomandi leiðir og sækja GPX skrár sem sýna þær á korti. Sumarið 2020 var aftur kallað eftir leiðum og bárust þá um 45 leiðir í verkefnið. Á grunni þessarar vinnu var svo árið 2023 ráðist í vinnu við að gera uppfærðan gönguleiðagrunn í samstarfi við Ferðamálastofu. Þeirri vinnu er nú lokið og innleiðing og markaðssetning efnis því framundan.
Ferðamálafulltrúar á Norðurlandi geta sótt um aðgang að þessum nýja gagnagrunni og sett inn leiðir. Einnig er hægt að fá lánað tæki hjá Ferðamálastofu sem nýtist við að hnitsetja leiðina og koma henni á kortið.
Samtökin ATTA (Adventure Travel Trade Association) framkvæma rannsóknir á ferðahegðun fólks og hvaða afþreyingarmöguleikar eru vinsælastir hverju sinni. Meðlimir samtakanna fá þessar niðurstöður og geta nýtt sér þær þegar kemur að vöruþróun og markaðssetningu. Nýjustu niðurstöður þessara rannsókna sýna að gönguferðamennska er mjög vaxandi og því miklir möguleikar fyrir Norðurland að verða leiðandi í þeim efnum með skilvirkri uppsetningu á gönguleiðum um svæðið.