Fara í efni

Norðurstrandarleið

Norðurstrandarleið er skilgreind ferðamannaleið, sem beinir ferðamanninum inn á fáfarnar og afskekktar slóðir á strandlengju Norðurlands. Leiðin liggur frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri.

Norðurstrandarleið var opnuð með formlegum hætti þann 8. júní 2019 og vakti um leið mikla athygli, bæði innanlands og erlendis.

Mikil vinna hefur verið lögð í útgáfu efnis, sem er til þess ætlað að aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki við að tengja sig betur við ímynd leiðarinnar og þá hugmyndafræði sem hún byggir á. Markmiðið er að ná þeim sameiginlega slagkrafti sem til þarf. Hér má nefna sérstaklega eftirfarandi:

  • Vörumerkjahandbók (Brand Guidelines) þar sem fjallað er um vörumerkið sjálft. Hvernig talað er um leiðina, hvernig nota á kennimerki leiðarinnar, hvernig myndir tengjast leiðinni, markhópa og fleira.
  • Verkfærakistan (Tool Kit) er einungis fyrir meðlimi Norðurstrandarleiðar og þar er farið í gegnum hvernig þróa á upplifanir í anda leiðarinnar. Í verkfærakistunni er einnig að finna hagnýt, gagnvirk og útprentanleg vinnuskjöl sem nota má til að þróa nýjar upplifanir, allt frá hugmynd til markaðssetningar.
  • Söluhandbók (Trade Manual) er uppfærð árlega og er send á fjölda ferðaskrifstofa innanlands og utan. Hún er hugsuð sem hjálpartæki fyrir fyrirtæki sem vilja setja upp ferðir undir nafni Norðurstrandarleiðar. Farið er yfir hvað þarf að hafa í huga þegar þróa á nýja ferð svo hún passi við vörumerkið svo það haldi sem best sérkennum sínum og verið sem sannast.

Áhersla er lögð á að fá fyrirtæki í samstarf og kenna þeim að nýta sér kennimerki leiðarinnar á sínum miðlum og að þau þrói vörur með ímynd leiðarinnar í huga. Allir meðlimir leiðarinnar fá senda vörumerkjahandbókina og verkfærakistuna og lögð er áhersla á að þau kynni sér vörumerkið sem best og nýti á sínum miðlum. Árlega er haldinn haustfundur með meðlimum leiðarinnar þar sem farið er yfir stöðuna hverju sinni. Það skiptir máli að meðlimir leiðarinnar þekki hvern annan því með því móti geta þau bent ferðamönnum á aðra afþreyingu, gistingu, áhugaverða staði o.s.frv. Þannig fáum við ferðamenn til að stoppa lengur á svæðinu og vonandi kaupa meira af þjónustu.

Síðustu ár hefur átt sér stað mikil vitundavakning um Norðurstrandarleið meðal erlendra og innlendra ferðaþjónustufyrirtækja. Það hjálpar mikið til við að vekja athygli á svæðinu að hafa tilbúna vöru sem ferðaskrifstofur geta auðveldlega unnið með. Tekið hefur verið reglulega á móti blaðamönnum og fulltrúum ferðaskrifstofa frá því að leiðin opnaði og mun það halda áfram sem nauðsynlegur hluti af markaðssetningu leiðarinnar.

Norðurstrandarleið er með sérstaka heimasíðu þar sem allir meðlimir leiðarinnar fá sitt pláss. Þar er einnig lögð áhersla á vörumerkið og um hvað það snýst. Áhersla er lögð á að leiðin er ekki fyrir alla, en hún hentar vel þeim sem vilja fara útaf hringveginum, hægja á sér og upplifa sögur frá heimamönnum sem búa svo nálægt heimskautsbaug.

Gefin hafa verið út kort á íslensku og ensku til að sýna leiðina bæði að sumri og vetri. Áherslur eru ólíkar eftir árstíðum og vakin er athygli á því að hluti leiðarinnar er lokaður yfir hávetur.

Mikil áhersla hefur verið lögð á þróun og skipulag innviða. Leiðin er merkt með sérstökum ferðamannaskiltum, brúnum að lit, sem sýna hvar leiðin liggur. Uppsetning þeirra fór fram árið 2019 og annaðist Vegagerðin þá uppsetningu. Gagnagrunnur fyrir GIS-kort hefur verið fullkláraður, með meira en 200 stöðum sem mögulegt er að kynna sem áhugaverða. Verið er að vinna í uppfærslu á þeim gagnagrunni og fara yfir hver staðan er á stöðunum. Sérstök handbók hefur verið þróuð til að útskýra áætlun um þróun innviða, notkun gagnagrunnsins og til að styðja vinnu sveitarfélaga við að byggja upp innviði á áhugaverðum stöðum. Gott samtal og samvinna á sér stað á milli starfsfólks MN og ferðamálafulltrúa og annarra starfsmanna sveitarfélaga á svæðinu.

Meginhlutverk innviðauppbyggingar er að auka á náttúruupplifun með þarfir ferðamanna að leiðarljósi. Þetta eru t.d. örugg bílastæði, merktar gönguleiðir að náttúruundrum, salerni og sorpílát, upplýsingagjöf og spennandi hönnun innviða. Markmiðið er að hægt sé að njóta hvers staðar til fullnustu en takmarka umhverfisáhrif. Fleiri en eitt verkefni eru í gangi tengdar innviðauppbyggingu á Norðurstrandarleið og má þar nefna átak í uppsetningu skilta og verkefni sem snýr að uppsetningu listaverka á leiðinni, sem tengjast þema hvers svæðis og sögu þess.

Á næstu misserum verður lögð meiri áhersla á vetur og vetrartengda afþreyingu, svo sem böð, söfn, sýningar og mat. Einnig verður unnið frekar að þrískiptingu leiðarinnar í samvinnu við sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki sem eru þátttakendur í verkefninu.