Fara í efni

Birding North Iceland

Í mörg ár hefur MN unnið að uppbyggingu og markaðssetningu á fuglaskoðun á Norðurlandi. Unnið hefur verið í samstarfi við Fuglastíginn á Norðurlandi eystra, Ferðamálasamtök Norðurlands vestra og verkefnahóp í Eyjafirði. Undanfarin ár hafa starfsmenn MN farið á Bird fair sem er fuglaskoðunarsýning í Bretlandi ásamt fulltrúum ferðaþjónustufyrirtækja og svæða. Verkefnið heldur áfram því það er mat MN að Norðurland sé einstakt fuglaskoðunarsvæði því hér er að finna tegundir sem draga gesti alls staðar að úr heiminum. Fólk sem heimsækir áfangastaði vegna fuglaskoðunar er almennt að skoða náttúru og dýralíf. Hvalaskoðun er stórt aðdráttarafl og þessi markhópur dvelur jafnan lengi og fer víða. (sjá nánari upplýsingar á www.birdingiceland.is)

Með Birding verkefninu er Norðurlandið styrkt sem áfangastaður fuglaskoðara, en sá hópur stækkar sífellt sem ferðast vegna þessa áhugamáls. Næstu verkefni í kynningu snúa að uppfærslu á efni svæðisins tengt fuglum. Þegar hafa verið sóttir styrkir til að hanna og byggja fuglaskoðunarskýli og er ætlunin að fjölga þeim á næstu árum. Markaðsstofan fór fyrir vinnu á svæðinu þar sem mögulegir staðir fyrir fuglaskoðunarskýli voru kortlagðir og greindir og hefur verið unnið eftir þeirri kortlagningu síðan 2016. Greiningarvinnan var unnin af arkitektastofunni Biotope sem sérhæfir sig í hönnun tengdri náttúru- og fuglaskoðun. Markaðsstofan hefur haft milligöngu varðandi umsóknir í Uppbyggingarsjóði vegna verkefnisins og eins veitt aðstoð við gerð umsókna í Framkvæmasjóð ferðamannstaða. Umsóknir og stuðningur vegna uppbyggingu fuglaskoðunarskýla frá Framkvæmdasjóð ferðamannastaða má sjá hér að neðan.

  • 2017: Styrkur vegna hönnunar á sex fuglaskoðunarskýlum á Norðurlandi eystra.
  • 2018: Uppbygging á áningarstað við Hrísatjörn, stuðningur við gerð á þremur fuglaskoðunarskýlum, fyrsti áfangi: Kaldbakstjarnir, Skoruvíkurbjarg og Bakkahlaup.
  • 2020: Annar áfangi í byggingu skýla við Skoruvíkurbjarg og Bakkahlaup. Nýpslón og Skipshólmi við Vopnafjörð naut einnig góðs af verkefninu.
  • 2021: Styrkur vegna hönnunar: Fuglaskýli Höskuldarnes og fuglaskýlið við Kópasker, bygging á skýli við Kaldbakstjarnir.
  • 2024: Styrkur til byggingar fuglaskoðunarhúss við Leirutanga.

Fleiri dæmi eru um uppbyggingu fuglaskoðunaraðstöðu þar sem sveitarfélög hafa sýnt frumkvæði og aflað fjármagns til uppbyggingar, án beinnar aðkomu MN. Í því samhengi má t.d. nefna uppbyggingu fuglaskoðunaraðstöðu á Spákonufellshöfða á Skagaströnd.