Fara í efni

Taste North Iceland

Markmiðið með Taste North Iceland verkefninu er að þróa Norðurland sem þekktan mataráfangastað. Ferðaþjónusta sem snýst um mat er einn öflugasti þátturinn í ferðaþjónustu á heimsvísu um þessar mundir. Markmið MN er að efla þennan þátt í norðlenskri ferðaþjónustu til að tengja hana betur við þá hópa ferðamanna sem hafa áhuga á matartengdum upplifunum.

Á nokkrum svæðum á Norðurlandi er verið að vinna að verkefnum og þróun matarstíga, sem tengjast mat úr héraði. Taste North Iceland skapar nýtt tækifæri til að styðja við þessi verkefni svo þau nái betri athygli á erlendum mörkuðum og styður sem fyrr segir við þróun Norðurlands sem áfangastaðar með sterka tengingu við mat og upplifanir sem tengjast mat. Þessar upplifanir þurfa að vera sem fjölbreyttastar til þess að það takist. Þær geta snúist um allt frá matarmörkuðum til fínni veitingastaða, dagsferðir með áherslu á mat, matarstíga og matarhátíðir. Þó er vert að taka fram að á undanförnum árum hefur þróun matartengdra verkefna og matarstíga verið hæg, sem hefur reynst ákveðin hindrun í framþróun Taste North Iceland verkefnisins og markaðssetningu gagnvart erlendum ferðaskrifstofum.

Í verkefninu er lögð áhersla á norðlenskt hráefni og hefðbundna matarframleiðslu, þar sem ferðamenn vilja upplifa áfangastaðinn í gegnum mat. Þeir vilja smakka, fræðast og eiga í samskiptum með því að njóta alvöru norðlenskrar matarupplifunar. Á þeim forsendum hefur verið búin til „verkfærakista“ (e. Tool kit) um mat úr héraði, til þess að hjálpa samstarfsfyrirtækjum MN að skapa þessar upplifanir og nýta þeirra eigin leiðir í markaðssetningu.

Tekið hefur verið saman umtalsvert efni á vefsíðu MN, sem dregur fram sérstöðu svæðisins í matargerð, auk lista yfir veitingastaði á Norðurlandi. Á síðunni má sjá upplýsingar um alls kyns hráefni sem kemur frá Norðurlandi, margvíslega matarframleiðslu og ljósmyndir sem sýna hana. MN lét framleiða myndir og myndband fyrir verkefnið, sem bæði má sjá á vefsvæðinu en einnig í myndabanka MN í Brandcenter.