Flugklasinn Air 66N
Flugklasinn Air 66N var stofnaður í október 2011 af ferðaþjónustufyrirtækjum og sveitarfélögum á Norðurlandi. Verkefnið hefur frá upphafi verið í umsjá MN. Meginmarkmið Flugklasans er að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring til framtíðar. Önnur langtímamarkmið eða undirmarkmið Flugklasans eru m.a.:
- Að reglulegt millilandaflug sé til Norðurlands um Akureyrarflugvöll allt árið og frá nokkrum mismunandi áfangastöðum.
- Að þróa nýjan áfangastað á Íslandi fyrir erlenda ferðamenn allt árið.
- Að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi allt árið.
- Að bæta dreifingu á eftirspurn eftir ferðaþjónustu m.t.t. fjölda og landsvæða.
- Að skapa ný tækifæri til þróunar og nýsköpunar í ferðaþjónustu.
- Að efla þjónustu við ferðamenn m.t.t. opnunartíma og framboðs.
- Að fjölga heilsársstörfum í ferðaþjónustu.
Annar ávinningur:
- Betri möguleikar íbúa á svæðinu til beinna erlendra flugsamgangna.
- Betri möguleikar fyrirtækja á svæðinu til samstarfs og/eða landvinninga á erlendum vettvangi
Starf Flugklasans skiptist í grófum dráttum í tvennt. Annars vegar markaðsstarf – að kynna áfangastaðinn Norðurland með Akureyri sem gátt með sameiginlegri og öflugri markaðssetningu á Norðurlandi. Hins vegar þrýstingur á stjórnvöld og stofnanir til þess að vinna verkefninu framgang.
Margt hefur áunnist frá stofnun Flugklasans. Áfangastaðurinn Norðurland hefur fengið viðurkenningar erlendis og fleiri ferðaskrifstofur og flugfélög vita af áfangastaðnum en áður. Leiguflug hófst frá Bretlandi og Hollandi og gekk vel, auk áætlunarflugs sem kom til síðar. Flugþróunarsjóður var stofnaður til þess að búa til hvata fyrir flugrekstraraðila til að fljúga til Akureyrar og/eða Egilsstaða. Settur var upp nýr ILS aðflugsbúnaður á Akureyrarflugvelli fyrir aðflug úr norðri.
Ný viðbygging við flugstöðina á Akureyri er risin, sem gjörbreytir allri aðstöðu til móttöku gesta og gerir mögulegt að taka á móti innanlandsflugi og millilandaflugi á sama tíma. Jafnframt hefur verið lokið við stækkun flughlaðsins, sem stóreykur möguleika á móttöku flugvéla en er jafnframt gríðarlega mikilvægt fyrir flugöryggi á landinu. Ný og bætt aðstaða er frábær grunnur fyrir áframhaldandi sókn á erlenda markaði.
Framboð á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll hefur aukist jafnt og þétt. Mikill árangur hefur náðst, en nauðsynlegt er að halda starfi Flugklasans áfram til að festa í sessi það flug sem komið er og byggja ofan á þann árangur. Flugklasinn vinnur mikið með þeim aðilum sem standa fyrir fluginu, ásamt því að vinna sífellt að því að fjölga áfangastöðum og lengja þau tímabil sem flogið er.