Fara í efni

Verkefni 1: Edda risakusa

Edda, listaverk eftir Beate Stormo, hefur verið sett upp í námunda við Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Mikilvægt er að halda áfram með uppbyggingu í kringum Eddu með tilliti til bætts aðgengis, aukins öryggis gangandi vegfarenda og með það fyrir sjónum að tengja saman með gönguleið þá ferðaþjónustu sem á svæðinu er (Smámunasafnið, Búvélasafn Búsögu og Saurbæjarkirkju). Þá er nauðsynlegt að koma upp upplýsingarskiltum sem tengir staðsetninguna, listaverkið og mikilvægi svæðisins fyrir landbúnað til þess að efla upplifun ferðamanna.

Helstu verkliðir: Stígagerð, upplýsingaöflun og skiltagerð.

Verkefni 2: Hjóla- og gönguleiðir

Kortleggja, merkja, útbúa lýsingar og hnitsetja hjóla- og gönguleiðir í Eyjafjarðarsveit bæði innan sveitar og í tengslum við leiðir yfir í nágrannasveitafélög. Markmiðið er að nýta þann gríðarlega auð sem landið hefur að bjóða er kemur að útivist og bjóða þannig bæði ferðamönnum og íbúum svæðisins uppá heilsusamlega og góða afþreyingu um leið. Þá er eitt megin markmiðanna að auki að ná umferð óvarinna vegfarenda sem best út af akvegum með tilliti til bætts umferðaröryggis. Þá er með verkefninu stefnt að því að Eyjafjörður eflist sem áfangastaður ferðamanna sem vilja dvelja á svæðinu til lengri tíma. Sveitarfélagið hefur í samstarfi við Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar merkt upp allt að 100 km af leiðum sem hægt er að ráðast í að stika án mikils fyrirvara.

Helstu verkliðir: Samningar við landeigendur, stikun og hnitsetning hjóla- og gönguleiða. Leiðarlýsing og myndefni og koma leiðum á framfæri.

Verkefni 3: Áningarstaðir

Efla umferðaröryggi og auka aðsókn ferðamanna að svæðinu. Skortur er á áningarstöðum við vegkerfi í sveitarfélaginu og mikilvægt að efla það til að beina umferð vegfarenda á örugga staði og þangað sem þeir hafa heimild til að vera. Áningarstaðir verða byggðir upp í tengslum við áhugaverða staði, upphaf gönguleiða og aðra staði sem vert er að stoppa á.

Helstu verkliðir: Kortlagning áningarstaða, jarðvegsframkvæmdir, gatnagerð, bekkir og merkingar.

Verkefni 4: Garðsárreitur

Garðsárreitur er falin perla í norðanverðri Eyjafjarðarsveit. Markmið verkefnisins er að auka aðgengi almennings og ferðalanga að skógræktinni og gljúfrinu sem þar er útbúa góð bílastæði við reitinn og bæta gönguleiðir að útsýnispallinum. Þá er ætlunin að byggja upp útsýnispall á gljúfurbrúninni með það fyrir augum að auka öryggi ferðamanna á staðnum og draga úr hættu þess að aðilar falli þar niður.

Helstu verkliðir: Bílastæði (jarðvegsframkvæmd.) Endurbætur og fjölgun stíga. Bygging útsýnispalls.

Verkefni 5: Útivistarstígur í Eyjafjarðarsveit

Útivistastígurinn milli Hrafnagils og Akureyrar hefur sýnt sig og sannað fyrir íbúa svæðisins, eflt öryggi á svæðinu og opnað fjölmarga möguleika til útiveru og bætt stöðu ferðaþjónustuaðila sem við nálægð hans búa. Mikilvægt er að halda áfram með uppbyggingu stígsins og fara þar austur fyrir Eyjafarðará um miðbraut og norður með Eyjafjarðarbraut, vestur í átt til Akureyrar aftur og búa þannig til öruggan og öflugan útivistahring sem í leið mun leiða umferð óvarinna fram hjá fjölda þjónustuaðila. Markmiðið er að efla öryggi óvarinna vegfarenda, vekja áhuga á svæðinu, stórauka tekjumöguleika þjónustuaðila og tengja svæðið við nýjan hjóla- og göngustíg sem nú hefur verið lagður út að Svalbarðsströnd og að Akureyri.

Helstu verkliðir: Samningar við landeigendur, hönnun á stíg, jarðvegsframkvæmdir og gatnagerð.