Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Jólakveðja og Fréttaskot 21.12.2015

Markaðsstofa Norðurlands óskar þér gleðilegar jóla og farsældar á komandi ári. Skrifstofa MN mun loka á milli jóla og nýárs. Síðasti starfsdagur jól er 22. desember og við opnum svo aftur 4. janúar. Árið 2015 hefur verið viðburðaríkt fyrir ferðaþjónustuna.
Gleðileg jól
Gleðileg jól

Markaðsstofa Norðurlands óskar þér gleðilegar jóla og farsældar á komandi ári.

Skrifstofa MN mun loka á milli jóla og nýárs. Síðasti starfsdagur jól er 22. desember og við opnum svo aftur 4. janúar.

Árið 2015 hefur verið viðburðaríkt fyrir ferðaþjónustuna.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og SAF kynntu vegvísi í ferðaþjónustu sem er grunnur að heildarstefnumótun til framtíðar fyrir greinina. Stjórnstöð ferðamála var stofnuð til að fylgja þessu verkefni eftir næstu 5 árin. Við bindum vonir við að þessi vinna muni skila heildstæðari stefnu og aðkomu hins opinbera að þessari stóru og mikilvægu atvinnugrein, sem hefur svolítið setið á hakanum undanfarin ár.

Forsætisráðuneytið skipaði starfshóp til þess að koma með tillögur að hvernig mætti efla millilandaflug um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Nefndin skilaði af sér tillögum sem fela í sér að fjárfesta í að opna nýjar fluggáttir til landsins og ríkisstjórnin er búin að samþykkja að vinna eftir. Málið er nú í höndum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og væntum við þess að fljótlega verði hægt að sækja formlega um stuðning við ný flug á viðkomandi flugvelli. Það myndi gjörbreyta samningsstöðu okkar gagnvart flugrekstraraðilum og auka mjög líkur á árangri í þessu afar stóra  verkefni sem er hagsmunamál okkar allra.

Lonely Planet valdi Akureyri sem besta áfangastaðinn í Evrópu árið 2015. Grundvöllurinn fyrir slíku vali er allt það góða sem við höfum að bjóða hér á Norðurlandi – fallega náttúru, góða þjónustu, fjölbreytta afþreyingu, vinalegt viðmót o.s.frv. Þetta er klapp á bakið fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og við getum öll verið stolt af þessum árangri.

Ferðaþjónusta á Norðurlandi er í stöðugum vexti og þróun – fyrirtækjum fjölgar, sum stækka við sig og nýjungar spretta upp. Á Siglufirði var opnað nýtt hótel, Sigló hótel, Sel - hótel Mývatn stækkaði við sig og unnið er að stækkun á Fosshótel Húsavík. Lýtingsstaðir byggðu torfhús uppá gamla mátann, hesthús og skemmu, sem eru afar skemmtileg viðbót í flóruna. Hvalaskoðun verður sífellt vinsælli og margt í gangi þar. Húsavík Adventures hóf hvalaskoðun á Húsavík í sumar og Norðursigling hefur sópað til sín viðurkenningum fyrir rafknúinn drifbúnað í skonnortunni Opal. Ambassador á Akureyri kynnti á dögunum nýjan bát sem þeir bæta við á næsta ári.  Nýlega bættust í hóp samstarfsfyrirtækja MN fyrirtækin Elding og Whale Safari sem munu bjóða upp á hvalaskoðun frá Akureyri á næsta ári.

Þess ber að geta að hér er stiklað á stóru um nýjungar á árinu, en þessi listi er hvergi nærri tæmandi.

Við minnum svo alla samstarfsaðila okkar á að senda okkur upplýsingar um breytingar eða nýjungar fyrir útgáfu næstu bókar North Iceland Tourist Guide, hana má sjá hér www.nordurland.is/is/ferdalagid/baeklingar. Vinsamlegast sendið allar slíkar upplýsingar á netfangið info@nordurland.is , því fyrr því betra.