Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þegar ferðast er um Norðurland, má ekki sleppa því að fara í hvalaskoðun. Það er til mikið af afþreyingu sem tengist vatni og um að gera að prófa sem flest, leika sér og skemmta sér í vatninu.  

Hvalaskoðun á Norðurlandi

Hvalaskoðun er ein helsta afþreying ferðamanna á Norðurlandi. Húsvíkingar og Eyfirðingar voru meðal þeirra fyrstu til að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir hér við land. Fjöldi hvalategunda, hagstætt veður og sjólag gera Norðurland að einu besta hvalaskoðunarsvæði landsins. Skjálfandaflói og Eyjafjörður eru skjólgóðir og einstaklega vel til þess fallnir að sigla um á fallegum sumardegi. Fuglalífið og náttúran skartar sínu fegursta meðan horft er á hrefnur, höfrunga, hnúfubaka og jafnvel steypireyðar leika sér.


Hvalaskoðun á Norðurlandi lætur engan ósnortinn.

Flúðasiglingar

Fyrir þá sem vilja mikla spennu er tilvalið að fara í flúðarsiglingu niður Jökulsá vestari eða Jökulsá austari. Þessar ferðir njóta mikilla vinsælda og æ fleiri hafa reynt þessar ævintýralegu ferðir enda gljúfrin sem siglt er um einstök náttúruundur. 
Flúðasigling er vinsæl og fjörmikil afþreying fyrir alla fjölskylduna. Fyrir yngstu og elstu meðlimina hentar að fara á Blöndu en það er tilvalin skemmtun fyrir fjölskyldur með ung börn. Landslagið meðfram ánni er fallegt, vatnshraðinn lítill svo nýtt sjónarhorn á náttúruna nýtur sín vel. Þeir sem eru 12 ára og eldri geta farið á Vestrari Jökulsá og sú Austari er fyrir þá sem eru 18 ára og eldri, búa yfir svolítilli reynslu og langar að reyna meira á sig. 
Þegar siglt er niður árnar blasir hvarvetna á leiðinni við stórbrotin náttúra og merkir staðir. Frábær blanda af spennu og skagfirskri náttúrufegurð. 
Reyndir íslenskir og erlendir leiðsögumenn eru í flúðasilgingunum og fyllsta öryggis er gætt.

Sæþotur

Að líða um í sjónum er mikil skemmtun. Margar og fjölbreyttar ferðir eru í boði þar sem miðnættið heillar á sumrin. 

Kajakferðir og róðrabretti

Það er skemmtileg upplifun fyrir alla fjölskylduna að sigla um á kajak eða sjóbretti, en margir aðilar um allt land bjóða upp á slíkar siglingar, bæði á sjó og vötnum.

Köfun og yfirborðsköfun

Fyrir þá ævintýragjörnu og aðra áhugasama er köfun spennandi kostur. Ýmsir möguleikar eru í boði fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna, bæði í ferskvatni og sjó. Helst ber að nefna Strýturnar sem eru einstakar á heimsmælikvarða.

Stangveiði

Á Íslandi er ógrynni áa og vatna. Tækifæri til stangveiði eru því óþrjótandi.

Sjóstangaveiði

Sjóstangveiði er frábær skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Víða um land er hægt að komast í slíkar ferðir. 

Selaskoðun

Selaskoðun er mikil upplifun og er hvergi betra að skoða þessi fallegu dýr en þar sem þau njóta sín í sínu náttúrulega umhverfi. Selir eru forvitnir að eðlisfari þannig að með góðri myndavél er vel hægt að ná af þeim góðum myndum, í þeirra rétta umhverfi. Selaskoðun er upplifun sem mun lifa lengi í minnum og skapar svo sannarlega nýja sýn á líf og náttúru.
Selasetur Íslands er á Hvammstanga og þar er hægt að fræðast enn frekar um þessi flottu dýr.

Sellátur er svæði nærri sjó þar sem selir kæpa. Sellátur er að finna víðast hvar þar sem selir halda sig og er Vatnsnesið eitt helsta selaskoðunarsvæði Norðurlands. Einnig er hægt að skoða seli á Melrakkasléttu. Látur eru yfirleitt nærri flæðarmálinu og selirnir liggja þar á fjöru en svamla í sjónum á flóði. Í einu látri geta verið allt frá fáeinum dýrum upp í mörg hundruð.

Selskoðun er frábært afþreying fyrir alla fjölskylduna en við minnum á að fara varlega í kringum selina og passa að trufla þá sem minnst.
Það er gott að hafa eftirfarandi í huga: Verum varkár, því þetta er griðastaður selanna og við erum gestir. Hreyfið ykkur varlega, ekki hafa hátt og aldrei kasta hlutum í kringum selina. Vinsamlegast ekki nota dróna þar sem selirnir hræðast þá.   

Bátaferðir

Það er enginn skortur á hverskonar bátsferðum á Íslandi, hvort sem ætlunin er að slaka á eða fá adrenalínið til að flæða.