Þegar þú ferðast um Norðurland ertu aldrei fjarri uppruna þess sem þú borðar og sögunnar á bakvið hvert hráefni. Svæðið einkennist af landslagi sem er mótað af eldshræringum og sjávarströnd sem ískalt hafið skellur á, þar sem smá samfélög lifa í sátt við oft á tíðum ofsafengið veður og stutt sumur. Nokkra mánuði ársins vex ekkert og menn, dýr og plöntur þurfa að vera harðgerð til að komast af. Þessar krefjandi aðstæður eiga sinn þátt í því að stuðla að fersku og tæru bragði náttúrunnar – eldfjallajarðvegur, tært vatnið, löngu sumardagarnir – öllu er pakkað í stutt en ákaft líf.
Hér mætast jörð sem hefur orðið til í jarðhræringum og ískalt Norður-Atlantshafið í 1100 km langri strandlengju, sem tryggir okkur ferskan fisk á diskinn okkar. Kindur og hross ganga laus í náttúrunni og tryggja okkur ferskt kjöt. Þótt það sé erfitt að rækta grænmeti utandyra erum við svo heppin að hafa aðgang að heitu hveravatni sem hitar upp gróðurhús og tryggir okkur til dæmis tómata sem eru ef til vill þeir tómatar sem eru ræktaðir nyrst í heiminum. Víðir dalir veita svo gott beitarlendi fyrir kýr, sem gefur af sér alls kyns mjólkurafurðir, eins og hið víðfræga skyr.
Tínsla er enn stunduð af mörgum og auk hins sívinsæla berjamós á haustin hefur sveppatínsla notið vaxandi vinsælda, auk þess sem fólk tínir t.d. mosa, jurtir og hvönn. Svartfuglsegg eru hirt af sjávarklöppum og villigæs er vinsæl á haustin, þegar nóg er af henni.