Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Norðurland er fyrir alla fjölskylduna. Það getur verið krefjandi að ferðast um með börn á mismunandi aldri en á Norðurlandi ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og prófað nýja afþreyingu.

Dýragarðar og sveitabæir

Fyrir fjölskyldufólk eru húsdýragarðar skemmtilegur valkostur. Annar valkostur er að heimsækja bóndbæ sem býður gestum að fylgjast með dýrunum á bænum og jafnvel gefa þeim og klappa. Slíkar heimsóknir eru ekki síst vinsælar hjá yngstu kynslóðinni.  

Sundlaugar

Fjölmargar sundlaugar eru á Norðurlandi.  Flestar eru útilaugar sem eru hitaðar með jarðhitavatni.  Einstaka sundlaugar eru hitaðar upp með öðrum hætti og eru það oftast innilaugar.  Sundlaugarnar voru í fyrstu byggðar sem kennslulaugar, en með árunum hafa verið bætt við þjónustuna með heitum pottum, eimböðum, gufuböðum, ljósabekkum, vatnsrennibrautum, barna og busllaugum ásamt leiktækjum fyrir börn.

Hvalaskoðun

Hvalaskoðun er ein helsta afþreying ferðamanna á Norðurlandi. Húsvíkingar og Eyfirðingar voru meðal þeirra fyrstu til að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir hér við land. Fjöldi hvalategunda, hagstætt veður og sjólag gera Norðurland að einu besta hvalaskoðunarsvæði landsins. Skjálfandaflói og Eyjafjörður eru skjólgóðir og einstaklega vel til þess fallnir að sigla um á fallegum sumardegi. Fuglalífið og náttúran skartar sínu fegursta meðan horft er á hrefnur, höfrunga, hnúfubaka og jafnvel steypireyðar leika sér.


Hvalaskoðun á Norðurlandi lætur engan ósnortinn.

Hestaferðir

Á Norðurlandi er gríðarlega sterk hefð fyrir hrossarækt og hestamennsku. Skagafjörður hefur oft verið nefndur Mekka hestamennskunnar á Íslandi en í Húnavatnssýslum er einnig mikil hrossarækt enda eru þar víðáttumikil og grösug beitarlönd. Því er engin tilviljun að hvergi er betra úrval af hestaferðum um heillandi reiðleiðir en á Norðurlandi. 

 

Við Mývatn eru í boði hestaferðir í óviðjafnanlegri náttúru sem hafa verið mjög vinsælar hjá erlendum gestum. Að fara á hestbak er frábær afþreying og þú upplifir náttúruna og menninguna mjög sterkt. Ótal ferðir, bæði styttri og lengri, eru í boði fyrir vana og óvana. Enginn ætti að ferðast um Ísland án þess að njóta gæða íslenska hestsins í hans náttúrulega umhverfi.

Kayak og róðrabretti

Það er skemmtileg upplifun fyrir alla fjölskylduna að sigla um á kajak eða sjóbretti, en margir aðilar um allt land bjóða upp á slíkar siglingar, bæði á sjó og vötnum.

Selaskoðun

Selaskoðun er mikil upplifun og er hvergi betra að skoða þessi fallegu dýr en þar sem þau njóta sín í sínu náttúrulega umhverfi. Selir eru forvitnir að eðlisfari þannig að með góðri myndavél er vel hægt að ná af þeim góðum myndum, í þeirra rétta umhverfi. Selaskoðun er upplifun sem mun lifa lengi í minnum og skapar svo sannarlega nýja sýn á líf og náttúru.
Selasetur Íslands er á Hvammstanga og þar er hægt að fræðast enn frekar um þessi flottu dýr.

Sellátur er svæði nærri sjó þar sem selir kæpa. Sellátur er að finna víðast hvar þar sem selir halda sig og er Vatnsnesið eitt helsta selaskoðunarsvæði Norðurlands. Einnig er hægt að skoða seli á Melrakkasléttu. Látur eru yfirleitt nærri flæðarmálinu og selirnir liggja þar á fjöru en svamla í sjónum á flóði. Í einu látri geta verið allt frá fáeinum dýrum upp í mörg hundruð.

Selskoðun er frábært afþreying fyrir alla fjölskylduna en við minnum á að fara varlega í kringum selina og passa að trufla þá sem minnst.
Það er gott að hafa eftirfarandi í huga: Verum varkár, því þetta er griðastaður selanna og við erum gestir. Hreyfið ykkur varlega, ekki hafa hátt og aldrei kasta hlutum í kringum selina. Vinsamlegast ekki nota dróna þar sem selirnir hræðast þá.   

Léttar gönguleiðir

Stóraukin þjónusta við göngufólk hefur verið áberandi í ferðaþjónustu á Norðurlandi á síðustu árum. Mikill fjölbreytileiki er í gönguleiðum á Norðurlandi. Þannig má bæði finna þægilegar gönguleiðir fyrir alla fjölskylduna, t.d. í nágrenni Sauðárkróks, og krefjandi gönguleiðir, t.d. í nágrenni Hóla í Hjaltadal og víðar á Tröllaskaga. Í Fjörðum og víðar má skynja sögu horfinna byggða og víða í Húnavatnssýslum má rekja sig um slóðir fornsagna, t.d. Grettissögu. Við gönguferð má síðan auðveldlega tengja stangaveiði, safnaskoðun, siglingu, hvalaskoðun, selaskoðun, flúðasiglingar, hestaferð eða eitthvað annað. Reimaðu á þig gönguskóna, ævintýrin bíða þín fyrir norðan!