Arctic Trip
Arctic Trip er ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjandi á Norðurlandi með sérhæfingu í ferðum um heimskautaeynna Grímsey.
Grímsey er einstakur staður, sérstaklega þegar kemur að fuglalífi. Eyjan er vin í þeirri eyðimörk sem Norður-Atlantshafið er og björgin veita skjól þeim sjófuglum sem þangað sækja, meðal þeirra má nefna fýl (Fulmarus glacialis), teistu (Cepphus grylle), ritu (Rissa tridactyla), lunda (Fratercula arctica), álku (Alca torda), langvíu (Uria Aalge) og stuttnefju (Uria Lomvia). Grímsey er einstakur staður til fuglaskoðunar þar sem flesta þá vað- , mó- og sjófugla sem eiga sumardvöl á Íslandi má finna í eynni á litlu landsvæði.
Sögur og sagnir skipa æ sterkari sess í ferðaþjónustu og af þeim er nóg að taka í Grímsey. Með samstarfi við heimamenn viljum við segja þessar sögur og bjóða ferðamenn velkomna á þessa afskekktu eyju, nyrsta odda Íslands, undir heimskautsbaugi, þar sem þú ert svo sannarlega „on top of the world!”
Helstu ferðir þetta ferðaár eru skoðunarferðir á landi og á sjó ásamt fugla-áskorun í anda Hitchcock. Einnig bjóðum við köfunar- og snorklferðir, sjóstöng, eggjatínslu og hjólreiðaleigu en um eynna liggja ýmsir stígar sem mótaðir hafa verið í aldanna rás og eru spennandi yfirferðar.
Einnig bjóðum við upp á gistingu allt árið fyrir þá sem vilja dvelja lengur og njóta Grímseyjar.
Virðing fyrir umhverfinu, hinu villta dýralífi og viðkvæmri náttúru Íslands er hornsteinninn í okkar hugsjón. Arctic Trip var stofnað með þá hugsjón að ferðamenn eigi skilið að slaka á á ferðum sínum, næra hugan og endurnæra líkama og sál. Mikilvægur þáttur er einnig að skapa minningar sem lifa um ókomna tíð.