Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Mirjam Blekkenhorst og Sverrir Möller hafa rekið ferðaþjónustu að Ytra Lóni á Langanesi síðan 1998. Þau stunda einnig sauðfjár- og hrossarækt, skógrækt og margvíslegan hlunnindabúskap á jörðinni, en allt styður þetta vel hvað við annað.

    Í dag bjóða Mirjam og Sverrir upp á íbúðagistingu, aðstöðu fyrir fundi og námskeið, auk veitingaþjónustu. Einnig bjóða þau upp á bæði göngu- og bílferðir um Langanes og víðar. Viðskiptavinir þeirra eru bæði erlendir ferðamenn og Íslendingar.

    „Okkar sérstaða er fólgin í okkar rólega umhverfi. Við getum boðið ferðamönnum upp á frið og ró, en einnig afar sterka tengingu við náttúruna og dýrin a bænum“

     

    Samspil margvíslegrar starfsemi

    Ferðaþjónustan og landbúnaðurinn sem stundaður er á Ytra Lóni spilar mjög vel saman. Mirjam og Sverrir framleiða stóran hluta þeirra matvæla sem þau bjóða gestum, auk þess sem þau nýta það sem náttúran gefur, svo sem silung, rekavið og önnur hlunnindi. Þannig hafa þau sjálfbærni að leiðarljósi í sinni starfsemi.

    Á Ytra Lóni býðst gestum ótal einstakar náttúrutengdar upplifanir. Gestum er boðið með að vitja um æðarvarpið, að taka þátt í að planta skógi og í boði er leiðsögn um Langanes þar sem sagt er frá náttúrufari og menningu svæðisins. Mirjam og Sverrir nefna sérstaklega að gestir þeirra séu mjög forvitnir um starfið á bænum og hvernig þau geri hlutina.

    Hvernig birtast gildi sjálfbærar þróunar í lífi og starfi á Ytra Lóni?

    „Við erum mjög meðvituð um að vilja lifa einföldu lífi og nýta vel það sem til fellur á okkar jörð og í umhverfinu. Við viljum deila okkar lífsháttum og upplifunum með fólki sem heimsækir okkar þannig að gestir okkar geti notið þess sem náttúran og kyrrðin gefur okkur.“

    Mirjam og Sverrir hafa alla tíð lagt áherslu á samstarf við aðra í sinni heimabyggð, fyrirtæki, skóla og félagasamtök, t.d. hvað varðar þróun áfangastaða á svæðinu og skipulagningu ferða. Þannig bera þau hag sinnar heimabyggðar fyrir brjósti.

    Eru einhverjar nýjungar í bígerð?

    Aðspurð um hvað sé helst á döfinni í frekari þróun ferðaþjónustu á Ytra Lóni greina Mirjam og Sverrir frá því að þau hafi áhuga á að halda áfram að þróa dvöl fyrir hópa þar sem gestir dvelji í viku eða jafnvel lengur. Þannig gefist gestum tækifæri til að slaka á og kúpla sig frá erli hversdagsins og nái að tengja við náttúruna og sjálfan sig á nýjum stað. Mirjam greinir einnig frá því að ástand heimsmálana í dag hafi vakið hana til umhugsunar um hvað þau geti lagt að mörkum: „Ég tel að því fleiri sem finni frið og ró í sjálfum sér, því fleiri geti deilt friði út í heim.“