Það er auðvelt að ferðast til eyjanna fyrir utan norðurströnd Íslands. Taka sér tíma og upplifa menninguna, skoða dýralífið og slaka á í rólegu umhverfi.
Drangey
Drangey rís sæbrött fyrir miðjum Skagafirði. Frá henni er víðsýni mikið um byggðir fjarðarins. Hún er að mestu úr móbergi, hrikalegt hamravígi. Er hennar fyrst getið í Grettis sögu en þar hafðist útlaginn við seinustu ár sín ásamt bróður sínum Illuga og þrælnum Glaumi og þar var hann veginn, helsjúkur, í skála sínum af Þorbirni öngli og mönnum hans. Það mun hafa verið nær veturnóttum árið 1031.Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þótt mest beri þar á svartfuglategundum: stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því. Lundinn grefur sér aftur á móti holur á brúnunum. Auk þess verpa rita og fýll í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar einnig griðland.
Daglegar ferðir eru í Drangey frá Sauðárkróki, frá 20. maí til 20. ágúst, en þess utan eftir samkomulagi við Drangey Tours.
View
Grímsey
Grímsey er græn, grösug og einstaklega gjöful eyja. Frægust er Grímsey trúlega í hugum ferðamanna fyrir heimskautsbauginn og kemur fólk gjarnan langa leið, til þess eins að stíga norður fyrir baug. Eyjan er 5,3 km2 að stærð. Hæst er hún 105 metrar og fjarlægð frá "Íslandi" er 41 km.
Mannlífið er kröftugt og bjart og eru Grímseyingar miklir gleðimenn sem vinna og skemmta sér af alhug. Ferjan Sæfari siglir frá Dalvík til Grímseyjar 3 daga í viku allt árið. Reglubundið flug með Flugfélagi Íslands er þangað, 3 sinnum í viku yfir veturinn en sjö daga á sumrum.
View
Hrísey
Hrísey er sú næststærsta við Ísland á eftir Heimaey. Hún er láglend, rís hæst 110 metra yfir sjávarmál, og er vel gróin. Berggrunnur eyjarinnar er blágrýti, um 10 milljón ára gamall. Syðst á eynni er lítið þorp þar sem langflestir íbúarnir búa. Í Hrísey er nýleg sundlaug, skemmtileg fjara og mikil upplifun að keyra um eyjuna á traktor.
Ferjan Sævar gengur á milli Hríseyjar og Árskógssands nokkrum sinnum á dag og tekur ferðin um 15 mínútur hvora leið.
View
Flatey
Flatey á Skjálfanda er stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við Norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikiðfuglalíf og góð fiskimið allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942, bjuggu 120 manns á Flatey en síðan 1967 hefur engin verið fasta búsetu á eynni.Yfir sumartímann koma ferðamenn til eyjunnar og einnig fólk sem á ættir að rekja til Flateyjar. Ekki er boðið upp á gistingu í Flatey en hægt er að fara þangað sjóleiðina frá Húsavík.
View