Landnám Íslands hófst um 874 og á næstu áratugum og öldum flutti fjöldi fólks til Íslands. Landbúnaður hefur verið stór hluti af lifibrauði Íslendinga allt frá landnámi og byggðist landið að mestu leyti upp þar sem góð ræktunar- og búskaparskilyrði voru til staðar. Íslendingar voru meðal fátækustu þjóða heims á seinni hluta 19. aldar. Landbúnaður er, eins og gefur að skilja, viðkvæmur fyrir sveiflum í náttúrunni og hart árferði af völdum kulda eða náttúruhamfara hafði því oft hungursneyðir í för með sér. Allur þorri fólks bjó í sveitum og bóndabærinn var hornsteinn samfélagsins.