- Vissir þú að íslenski hesturinn býr yfir fimm gangtegundum?
- Vissir þú að það eru í kringum 70.000 vetrarfóðruð hross í landinu og erlendis um 130.000?
- Vissir þú að 10% þjóðarinnar stundar hestamennsku?
Talið er að landnámsmenn hafi stundað markvissari ræktun á hrossum en öðru búfé. Þetta forna kyn, sem hefur þróast í einangrun án nokkurrar íblöndunar, er tiltölulega lítið skylt öðrum evrópskum hrossastofnum. Samt virðist mestur skyldleiki við norsku Fjarða- og Norland-hestakynin, svo og við Hjaltlandssmáhestinn. Íslenski hesturinn er fullvaxinn 360–370 kg að meðaltali og 140 cm hár á herðakamb.
Sérstæðustu eiginleikar íslenska hestsins eru mikil fjölbreytni í litum og fimm gangtegundir; fet, brokk, stökk, tölt og skeið. Íslenski hesturinn er þó þekktastur fyrir töltið sem er mjúk og ásetugóð gangtegund og er einn af þeim eiginleikum sem gerir íslenska hestinn að einstökum reiðhesti og stuðlað að vinsældum hans um allan heim. Töltið er einkennisgangur íslenska hestsins þar sem taktur hestsins er hreinn fjórtaktur sem flæðir í gegnum hestinn í jöfnum hrynjanda. Aðrir kostir íslenska hestsins eru meðal annarra kosta styrkleiki og ending, vilji, þægð og góð frjósemi.
Hesturinn er notaður til útreiða, ferðalaga, í ýmsar keppnisgreinar, auk þess sem hann gegnir enn mikilvægu vinnuhlutverki við göngur og leitir á haustin. Hrossarækt á auknum vinsældum að fagna og á Íslandi er að finna mörg stór hrossabú þar sem fram fer metnaðarfullt starf, auk þess sem fjöldi einstaklinga ræktar hross sér til ánægju. Á Norðurlandi (Húnavatnssýslur að og með Þingeyjarsýslum) koma um 30% sýndra kynbótahrossa. Þar sem íslenski hesturinn hefur verið einangraður um þúsund ára skeið er hann laus við alla helstu smitandi hrossasjúkdóma sem herja á hesta á meginlandi Evrópu og í Ameríku.
Á síðunni www.worldfengur.is er hægt að finna upprunaættbók íslenska hestsins. Þar er safnað saman upplýsingum um íslenska hesta innan landa FEIF (alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins). Í WorldFeng er að finna viðamiklar upplýsingar um á fjórða hundrað þúsund íslenskra hesta og eykst fjöldi þeirra á hverjum degi. Þar má t.d. finna upplýsingar um ættartölu, afkvæmi, kynbótadóma, eigendur, ræktendur, kynbótamat, liti, örmerki og fleira.