Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

  • Vissir þú að íslenski sauðfjárstofninn er einn elsti fjárstofn sem um getur?
  • Vissir þú að á Íslandi eru um 476 þúsund vetrarfóðraraðar kindur?
  • Vissir þú að lambakjöt í öllum sínum fjölbreytileika er þjóðarréttur Íslendinga? Meðalneysla á mann er rúmlega 20 kg á hverju ári.

Íslenska sauðfjárkynið er talið hafa komið með norrrænum landnámsmönnum um 874 og er oft haldið fram í sögulegu samhengi að án hinnar harðgeru sauðkindar, sem gaf af sér kjöt, ull, gærur og mjólk, hefði íslenska þjóðin ekki lifað aldir harðinda og fátæktar.

Íslenska féð er af kyni norður-evrópsks stuttrófufjár en um 2/3 af öllu slíku fé í heiminum eru hér á landi. Þótt fé af öðrum kynjum hafi verið flutt inn frá Danmörku, Skotlandi og Þýskalandi á 18., 19. og 20. öld urðu áhrif innflutningsins á eiginleika íslenska fjárins hverfandi lítil, ef nokkur.

Forystufé er þekkt hér á landi allt frá landsnámstíð og hefur verið órjúfanlegur hluti af sauðfjárhaldi Íslendinga allt frá upphafi byggðar. Forystufé hefur það í eðli sínu að fara á undan fjárhópi í rekstri og aðrar kindur fylgja forystufénu. Stundum er forystuféð stærra vexti en annað fé og er jafnvel talið fegurra. Góður forystusauður fór á undan í slæmri færð og fann bestu leiðina, hann rataði vel í hríðarbyljum og skilaði fé í hús heilu og höldnu. Sömuleiðis var forystufé talið veðurglöggt og var það oft tregt til að fara úr húsi ef von var á slæmum veðrum á vetrum.

Ullarfar á íslensku fé er sérstætt. Tvær tegundir hára eru mest áberandi í ullinni; tog og þel. Þessi sérstaða ullarinnar er sennilega að einhverju leyti aðlögun að umhleypingasömu og köldu veðurfari á norðurslóðum. Togið hrindir frá sér vatni en þétt og loftríkt þelið einangrar vel.

Vilt þú koma í heimsókn?

Skoða fleiri húsdýr