- Vissir þú að það eru 27.000 mjólkurkýr á Íslandi?
- Vissir þú að meðalkýr vegur um 470 kg?
- Vissir þú að kýrin hefur fjóra maga og fjóra spena?
Uppruni íslenska nautgripakynsins hefur verið rakinn aftur til landnáms um 874 en það er skyldast norska kyninu „Sidet Trønder og Nordlandsfe“. Íslenska mjólkurkýrin er smávaxin, meðalkýrin vegur aðeins um 470 kg. Íslenski stofninn samanstendur af sex viðurkenndum grunnlitum; rauðum, svörtum, bröndóttum, kolóttum, gráum og sægráum, og hafa þeir allir sín blæbrigði. Auk þess getur hvítur litur komið fram í formi fjölmargra litamynstra víðs vegar um skrokkinn, t.d. sem skjöldótt.
Rauður grunnlitur er algengastur innan íslenska kúastofnsins en 42,8% íslenskra kúa eru rauðar.
Kýrin er stórt og þunglamalegt dýr, hún er lágfætt og kviðmikil. Flestar kýr eru kollóttar, þ.e. þær eru ekki með horn en þær kýr sem eru með horn eru kallaðar hyrndar.
Mjólkin verður til í júgrinu og mjólkast út um spenana. Örsmáar frumur fjarlægja vatn og næringarefni úr blóðinu og umbreytir í mjólk sem geymist í ákveðnu hólfi þar til kýrin er mjólkuð. Júgrið hefur fjögur hólf, hvert fyrir sinn spena. Próteineiginleikar íslensku mjólkurinnar eru sérstæðir og jákvæðir fyrir hollustu og gæði. Hin sérstaka próteinsamsetning gerir það að verkum að íslenska mjólkin hentar einstaklega vel til ostagerðar og tilgátur eru uppi um að hún gefi vörn gegn sykursýki í börnum.
Kýrin er jórturdýr og hefur fjóra magasekki sem kallast vömb, keppur, laki og vinstur. Kýrin jórtrar með því að elgja upp lítið meltri tuggu (selja henni upp í munnholið), tyggja hana þá aftur og kyngja henni síðan enn á ný og þá taka bakteríur vambarinnar við og brjóta niður trénið í átunni.