Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Bæir og þorp á Norðurlandi

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar tilútivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi.

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

Akureyri
Akureyri iðar af mannlífi allan ársins hring. Í bænum búa um 20.000 manns og er hann sá langfjölmennasti utan höfuðborgarsvæðisins, miðstöð athafnalífs og þjónustu fyrir allt Norðurland. Akureyri er menningar- og skólabær sem byggir á traustum grunni. Þar starfa tvö af stærri sjávarútvegsfyrirtæki landsins og ferðaþjónusta skipar sífellt hærri sess. Frá Akureyri er stutt í margar helstu náttúruperlur landsins og bærinn sjálfur er vinsæll áningastaður um lengri eða skemmri tíma. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir fjölmarga hluti sem mælt er með að gestir skoði þegar þeir dvelja á Akureyri: Lystigarðurinn- u.þ.b. 400 íslenskar plöntur auk rúmlega 7500 erlendra tegunda Listasafnið og Listagilið Sundlaug Akureyrar Húni II - eikarbátur frá 1963 sem er staðsettur við Torfunesbryggju Veitingahús sem bjóða upp á mat úr héraði Kjarnaskógur Innbærinn - söfn, kirkja og byggingar Jaðarsvöllur - nyrsti 18 holu golfvöllur í heimi Glerárgil Hrísey - perla Eyjafjarðar Akureyrarvaka - uppskeruhátíð Listasumars sem haldin er í lok ágúst ár hvert Bjór frá Víking og Kalda - brugghús í héraði Brynjuís - í uppáhaldi heimamanna Akureyrarkirkja Hlíðarfjall
Árskógssandur
Árskógssandur í Dalvíkurbyggð er þéttbýliskjarni sem stendur niður við sjó og tengir saman land og eyju en skipið Sævar siglir milli Árskógssandar og Hríseyjar. Á Árskógssandi má finna Bruggsmiðjuna sem framleiðir bjórinn Kalda en þar er hægt að panta kynningu þar sem farið er yfir framleiðsluna og sögu fyrirtækisins. Bjórböðin er einnig að finna á Árskógssandi en þau eru einstök sinnar tegundar á Íslandi. Í Bjórböðunum er ýmist hægt að baða sig í bjór eða í útipottunum sem bjóða uppá stórfenglegt útsýni. Þar er einnig dýrindis veitingastaður þar sem hægt er að gæða sér á réttum af fjölbreyttum matseðli, en þar er sérstaklega vinsæll svokallaður Kaldaborgari. Nálægð við náttúruna er mikil og mikið er um gönguleiðir við allra hæfi í nágrenninu. Láttu sjá þig á Árskógssandi og njóttu alls þess dásamlega sem þorpið hefur upp á að bjóða. Upplifðu kyrrðina, öryggið og dásamlegt útsýnið. Á Árskógssandi er nefnilega ánægjulegt allan ársins hring.
Bakkafjörður
Á Bakkafirði snýst lífið að mestu um fiskinn í sjónum og réttinn til að hafa lífsviðurværi sitt af veiðum á honum. Bakkafjörður býður upp á ótalmarga útivistarmöguleika, gönguferðir, fuglaskoðun, fjöruferðir og fleira. Gaman er að skoða gömlu höfnina og lífið í kringum þá nýju sem er skammt innan við þorpið.Skemmtileg gönguleið liggur út að Steintúni og áfram út að vitanum á Digranesi. Gönguslóð er einnig með Viðvíkurbjörgunum í Viðvík og þaðan yfir að Álftavatni og til Bakkafjarðar. Kyrrð og friður, fuglalíf og náttúrufegurð einkenna svæðið. Spriklandi fiskur er í ám og vötnum sem hægt er að fá að veiða.Sundlaug er í Selárdal í 30 km fjarlægð frá Bakkafirði, laugin er í eigu Vopnfirðinga og er magnað útsýni til fjalla þaðan og á laxveiðitímanum er hægt að fylgjast með laxveiðimönnum glíma við laxinn í Selá sem rennur rétt neðan við laugina í Selárdal.
Blönduós
Blönduós er fjölmennasti þéttbýlisstaðurinn við Húnaflóa og liggur við þjóðveg 1 og því mikill fjöldi bíla sem þar fer í gegn ár hvert svo fjölbreytta þjónustu má finna við þjóðveginn. Í gegnum bæinn rennur ein helsta jökulá landsins, Blanda og í henni miðri er eyjan Hrútey, ein af náttúruperlum svæðisins. Eyjan er friðlýst og lokuð allri umferð vegna fuglavarps frá 20.apríl til 20.júní en á öðrum tímum er hægt að ganga um brú yfir í eyjuna og eru þar gönguleiðir. Gangan meðfram Blöndu niður að ósnum er sérlega rómantísk með útsýni yfir hafið að Strandafjöllum. Auk náttúruskoðunar er ýmsa aðra afþreyingu að finna á svæðinu, stórkostlega vel útbúin sundlaug er á Blönduósi þar sem allt er til staðar og himneskt er að njóta kaffibolla í heita pottinum á meðan börnin leika sér í vaðlauginni eða renna sér í brautunum. Í nágrenni við sundlaugina er stór ærslabelgur, staðsettur á lóð Blönduskóla en auk hans er að finna þar kastala, sparkvöll og hjólabrettapalla. Mikið er um veiði í ám og vötnum í nágrenni Blönduóss auk þess er þar golfvöllur. Heimilisiðnaðarsafnið er einn af helstu seglum svæðisins en þar er að finna hluta af atvinnusögu þjóðarinnar og þar má sjá hvernig sjálfsþurftabúskapur og heimilisiðja mæta nútíma viðskiptabúskap á seinni hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Í gamla Kvennaskólanum á Blönduósi er Textílmiðstöð Íslands en Blönduósbær er mikill textílbær. Gamli bærinn á Blönduósi stendur við opið haf en þar standa ennþá mörg af þeim upprunalegu húsum sem byggð voru þegar sá hluti bæjarins var í blóma á árum áður. Upplýsingamiðstöð ferðamála í Austur Húnavatnssýslu er staðsett í gamla bænum. Einnig má þar finna Hillebrandshús, eitt elsta timburhús á Íslandi, reist 1877 á Blönduósi en áður hafði það staðið á Skagaströnd í 130 ár. Fjölbreyttir gistimöguleikar eru á svæðinu, hótel, gistiheimili, sumarhús með heitum pottum og sauna auk vel búnu tjaldsvæði sem liggur við Blöndu. Veitingar fást á grillstöðum, kaffi- og veitingahúsum. Á Blönduósi fara fram fjölbreyttir viðburðir eins og Prjónagleði, Smábæjarleikarnir, þar sem ungir krakkar keppa í fótbolta og bæjarhátíðin Húnavaka.
Borðeyri
Borðeyri stendur við Hrútafjörð. Hún tilheyrði áður Bæjarhreppi en nú nýverið samþykktu íbúar hreppsins að sameinast sveitarfélaginu Húnaþingi vestra.Borðeyri var forðum mikil verslunarhöfn og var gerð að löggiltum verslunarstað árið 1845. Meðal þekktra stórkaupmanna á Borðeyri má nefna Richard P. Riis en hann stofnaði útibú frá Borðeyrarversluninni bæði á Hólmavík og Hvammstanga og má segja að með því hafi hann lagt grundvöllinn að byggð á þeim stöðum. Undanfarin ár hefur verið unnið að endurbótum á Riis húsi á Borðeyri en það er eitt elsta hús við Húnaflóa.Á 19. öldinni var Borðeyri ein stærsta útskipunarhöfn við norðanvert landið. Hún var miðstöð stórfellds útflutnings á lifandi sauðfé á seinni hluta aldarinnar en þaðan sigldu líka stórir hópar fólks sem leitaði betra lífs í Vesturheimi. Hvergi á landinu stigu eins margir Vesturfarar á skipsfjöl eins og á Borðeyri.Borðeyri er í dag eitt allra fámennasta þorp landsins. Þaðan hafa þó eigi að síður komið landsþekktir menn svo sem Sigurður Eggerz, forsætisráðherra, sem og listmálararnir Karl Kvaran og Þorvaldur Skúlason.
Dalvík
Fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar frá fyrstu hendi er Dalvík í Dalvíkurbyggð tilvalinn áfangastaður en sveitarfélagið liggur við náttúruparadísina Tröllaskaga auk þess að hafa frábært aðgengi að sjó. Í Dalvíkurbyggð er fjölmargar gönguleiðir að finna, styttri og lengri. Af lengri gönguleiðum má nefna gömlu þjóðleiðina yfir Heljardalsheiði milli Svarfaðardals og Hóla í Hjaltadal og einnig liggja þrjár gamlar þjóðleiðir yfir til Ólafsfjarðar, Reykjaheiði, Grímubrekkur og Drangar, sem gaman er að ganga. Frá Dalvíkurhöfn siglir ferjan Sæfari milli Dalvíkur og Grímseyjar og á Dalvík má einnig finna glæsilega sundlaug, byggðasafnið Hvol, einstakt skíðasvæði, 9 holu golfvöll, sjóstangveiði og hvalaskoðun, hestaferðir og margt, margt fleira. Það er tilvalið að skella sér á Dalvík og upplifa kyrrðina, öryggið og dásamlegt útsýnið. Láttu sjá þig í Dalvíkurbyggð og þú munt ekki sjá eftir því!
Grenivík
Kauptúnið Grenivík stendur undir fjallinu Kaldbak sem er 1173 m hátt. Skemmtilegar gönguleiðir eru upp á Kaldbak, en fyrir þá sem kjósa léttari leiðir er Þengilhöfði ákjósanlegri en það er 260 m hátt fjall suður af Grenivík. Fleiri fjöll í byggðarlaginu er ögrandi að klífa svo sem Blámannshatt og Laufáshnjúk. Þegar minnst er á Grenivík koma Fjörðurnar og Látraströnd fljótt upp í hugann. Á Látraströnd og í Fjörðum var byggð áður fyrr og eru þessar gömlu byggðir paradís göngumannsins og sífellt fleiri leggja leið sína á þetta svæði til að kynnast fjölbreyttri og fallegri náttúru og sögu forfeðra okkar sem bíður við hvert fótmál. Byggðarlagið vekur sífellt meiri áhuga ferðamanna og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hestaleiga er hjá Pólarhestum á Grýtubakka, húsdýragarður í Hléskógum, Fjörðungar sérhæfa sig í gönguferðum um Fjörður og Látraströnd og Kaldbaksferðir bjóða upp á snjótroðaraferðir upp á Kaldbak. Að auki er veiði í Fnjóská og Fjarðará í Hvalvatnsfirði. Matvöruverslunin Jónsabúð er á Grenivík. Í Gamla prestshúsinu í Laufási er einnig veitingasala. Við grunnskólann er góð sundlaug og tjaldstæði. Í Hléskógum er bændagisting og tjaldstæði. Það er vel þess virði að taka sér tíma til að staldra við utan hringvegarins og heimsækja byggðarlagið og njóta náttúrufegurðar og persónulegrar gestrisni heimamanna.
Grímsey
Það er einstök tilfinning að ganga um grasi gróna eyjuna í norðri, horfa út yfir óravíddir Íslandshafsins í norðri og sjá bjarma fyrir hæstu tindum nyrstu stranda Íslands í suðri. Á fáum stöðum er eins auðvelt að finnast eins og maður sé einn í heiminum jafnvel þótt hér eigi um 70 manns lögheimili sitt. Fuglabjargið ómar, lundar stinga höfði upp úr holum sínum og ærnar eru á beit. Grímsey er engu lík. Ferðalagið út í eyju er í sjálfu sér dálítið ævintýri. Annaðhvort er flogið í um 20 mínútur með Norlandair frá Akureyri eða siglt í um 3 klst. með ferjunni Sævari frá Dalvík. Sumir stansa hér aðeins dagpart en aðrir kjósa að láta líða almennilega úr sér, komast í tengsl við almættið og vinda ofan af allri streitu með lengri dvöl. Í Grímsey er að finna tvö gistiheimili sem eru opin allan ársins hring en vissara er að panta pláss með nokkrum fyrirvara, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Í þorpinu er einnig að finna litla verslun með allar helstu nauðsynjavörur. Eitt helsta aðdráttarafl Grímseyjar er lundinn en hann sest upp í björgin um miðjan apríl og hverfur að jafnaði aftur til hafs í byrjun ágúst. Norðurheimskautsbaugurinn er ekki síður magnað aðdráttarafl og leggja margir leið sína til Grímseyjar með það fyrir augum að stíga norður fyrir hann. Árið 2017 var vígt nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey og vakti athygli víða um heim. Um er að ræða steinsteypta kúlu, Orbis et Globus, sem er um 3 metrar í þvermál, vegur nærri 7 tonn, og er færð úr stað á hverju ári svo hún fylgi hreyfingu heimskautsbaugsins fram og aftur um nyrsta hluta Grímseyjar. Það er gaman að heimsækja Grímsey þegar sumarið er í blóma og lundinn fyllir björgin, en það er ekki síður einstakt að koma þangað yfir vetrartímann þegar myrkrið er algjört, einangrunin nánast áþreifanleg og norðurljósin dansa um dimman himininn.
Hauganes
Hauganes er hluti af Árskógsströnd og syðsti þéttbýliskjarni Dalvíkurbyggðar. Á Hauganesi búa um 140 manns og þar er hægt að njóta bæði sveitasælunnar og nálægð við aðra þéttbýliskjarna. Á Hauganesi er elsta hvalaskoðun landsins, Whale Watching Hauganes, en þeir hafa 27 ára reynslu í bransanum! Þar er einnig afar vinsæll og einstakur veitingastaður, Baccalá Bar, þar sem hægt er að gæða sér á allskonar gómsætum réttum þó sérstaklega þurfi að mæla með djúpsteiktum saltfiski og frönskum eða saltfiskpizzunni. Vel útbúið tjaldstæði er staðsett í hjarta þorpsins og heitu sjópottarnir niðri við Sandvíkurfjöru njóta sívaxandi vinsælda meðal þeirra gesta sem heimsækja Hauganes. Gönguferð upp í Þorvaldsdal svíkur síðan engan göngugarpinn sem vill upplifa kyrrðina, umhverfið og dásamlegt útsýnið. Á Hauganesi er nefnilega ánægjulegt allan ársins hring.
Hjalteyri
Hjalteyri er smáþorp á vesturströnd Eyjafjarðar. Þar var ein af aðalstöðvum síldveiða snemma á 20. öldinni. Í gömlu síldarverksmiðjunni fer nú fram mikil uppbygging þar eru haldnar listsýningar, þar er köfunarþjónusta, sútun, hákarlaverkun auk þess sem hópur áhugamanna um gamla bíla hefur haslað sér völl á Hjalteyri.
Hofsós
Hofsós er lítið kauptún við austanverðan Skagafjörð. Saga Hofsóss, sem lengi var aðal verslunarstaður Skagfirðinga, spannar allt að 400 ár. Gæsileg sundlaug er staðsett á Hofsósi en frá sundlauginni blasir við útsýni yfir Drangey og út fjörðinn. Í nágrenni sundlaugarinnar, í fjörunni neðan við bæinn er Staðarbjargarvík; gríðarfallegt stuðlaberg sem ekki má láta framhjá sér fara. Grafarósinn er einnig í göngufæri, en þar eru rústir af fornum verslunarstað og afar fallegt umhverfi. Notaleg stemning er við Hofsána, þar sem gömlu húsin standa fallega uppgerð í brekkunni ofan við bryggjuna. Þar er Pakkhúsið (1772), eitt elsta bjálkahús landsins, sem og forvitnilegar og fróðlegar sýningar í húsum Vesturfarasetursins sem eru byggð í gamla stílnum. Gaman er að rölta niður í gamla bæjarhlutann og yfir göngubrúna á Hofsá. Samgönguminjasafn Skagafjarðar er staðsett í Stóragerði, 12 km frá Hofsósi. Þar er ótrúlegt safn gamalla bíla og tækja sem vert er að skoða. Yfir 100 tæki eru til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, motorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 250-300 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða. Ýmis afþreying og þjónusta er í boði fyrir ferðamenn á Hofsósi; verslun, veitingahús, gisting, tjaldstæði, verkstæði, sundlaug, sparkvöllur og ærslabelgur.
Hólar
Hólar eru einn sögufrægasti staður Íslands og biskupssetur um aldir. Kirkja hefur staðið á Hólum frá 11. öld, en núverandi kirkja var reist 1763. Hún er byggð úr rauðum sandsteini úr fjallinu Hólabyrðu og er elsta steinkirkja á Íslandi. Háskólinn á Hólum hefur stækkað ört á síðustu árum og hefur fjöldi nemendagarða verið byggður. Íbúar Hóla eru yfir tvö hundruð talsins að vetri til. Skólinn sérhæfir sig í ferðamálafræðum, hrossarækt og reiðmennsku, auk fiskeldis og fiskalíffræði. Fornleifauppgröftur hefur farið fram á Hólum síðustu ár og hafa yfir 40 þúsund munir fundist. Úrval forngripa er til sýnis í gamla skólahúsinu. Um skóginn hlykkjast spennandi göngustígar sem leiða mann inn í undraheima lifandi náttúru þessa forna sögustaðar. Á Hólahátíð, sem er jafnan um miðjan ágúst eru margskonar viðburðir á vegum kirkjunnar s.s. Pílagrímagöngur, helgihald og aðrir menningarviðburðir. Laufskálarétt í Hjaltadal er ein vinsælasta stóðrétt landsins en þangað mæta árlega allt að þrjú þúsund gestir og er af mörgum talin drottning stóðréttanna.
Hrafnagil
Eyjafjarðarsveit er ein blómlegasta sveit Íslands og í næsta nágrenni við Akureyri. Um sveitina liðast hin stórbrotna Eyjafjarðará sem setur fallegan svip á umhverfið og ber mér sér næringu til jarðarinnar sem gerir sveitina svo öfluga til búskapar. Til sveita má sjá kýr, hesta og kindur ásamt fjölda annarra spendýra og við óshólma Eyjafjarðarár má bera augum fjölbreytta flóru fugla sem verpa þar og dafna á sumrin. Fjölmargar gönguleiðir má finna í Eyjafjarðarsveit og má þar nefna útivistarstíginn milli Hrafnagils og Akureyrar þar sem áhugasamir geta hjólað, gengið eða hlaupið í stórbrotnu og rómantísku umhverfinu við Eyjafjarðará. Við Akureyrarflugvöll er einnig hægt að ganga um óshólma Eyjafjarðarár allan ársins hring. Framar í dalnum er hægt að ganga á fjöllin sem rísa tignarlega kringum dalinn og má þar helst nefna Kerlingu sem gnæfir yfir þeim öllum og er hæsta fjall Íslands beint úr byggð. Í Eyjafjarðarsveit er þéttbýliskjarninn Hrafnagil með fjölskylduvænni sundlaug og leiktækjum sem umvefja umhverfi hennar ásamt glæsilegu og fullbúnu tjaldsvæði. Fjölbreytt úrval gistimöguleika, veitinga og afþreyingar er í Eyjafjarðarsveit og geta gestir svæðisins notið matar úr héraði, dægrastyttingar og gistingar í kyrrð og nálægt við náttúru og persónuleika sveitarinnar sem upplifa má á Handverkshátíð Eyjafjarðarsveitar, stærstu handverkshátíðar Íslands.
Hrísey
Náttúruperlan Hrísey liggur um miðbik Eyjafjarðar. Þar er lítið sjávarþorp sem býður upp á ýmislegt sem ferðafólki kemur til góða, t.d.sundlaug, lítið gistiheimili, veitingahús, tjaldsvæði, kaffihús og verslun. Gönguleiðir liggja frá þorpinu víðs vegar um eyjuna sem þekkt er fyrir fjölbreytt fuglalíf. Skemmtileg dagskrá fyrir ferðafólk gæti t.d. verið fólgin í að fara í skemmtilegar gönguferðir, skoða hús Hákarla Jörundar, fara í sund, kíkja í Hríseyjarbúðina, spila frisbígolf eða bara njóta friðsældarinnar og fuglalífsins á þessum einstaka stað. Til að komast til Hríseyjar, er stefnan tekin á Dalvík og beygt við vegamótin að Árskógssandi, áður en til Dalvíkur er komið. Hríseyjarferjan heldur uppi áætlunarferðum frá Árskógssandi og tekur siglingin út í eyju um 15 mínútur.
Húsavík
Húsavík er elsti bær á Íslandi ásamt því að vera stærsti bærinn í Þingeyjarsýslu. Bærinn er kallaður „höfuðborg hvalanna“ vegna þess að hann er þekktur fyrir hvalaskoðun á Skjálfandaflóa. Hægt er að finna 23 tegundir hvala, þar á meðal steypireyð, í flóanum og einnig er hægt að sjá stórar varpstöðvar lunda. Á Hvalasafninu má sjá raunstærð hvala, þar sem meðal annars er 22 metra löng beinagrind af steypireyð til sýnis. Það eru nokkur hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík sem sigla seglum þöndum í leit að þessum stórkostlegu dýrum á flóanum, en slíkt er upplifun sem engin ætti að missa af og gleymist aldrei. Heimsókn í Safnahúsið svíkur heldur engan, en þar er sjóminjasýning, sýning um mannlíf og náttúru í 100 ár, skjalasafn, myndasafn og sýningarsalur fyrir list þar sem eru rúllandi sýningar. Menningarlíf í þorpinu og nærsveitum er blómlegt og áhugamannaleikfélagið á staðnum er meðal þeirra bestu á landinu. Þá er einnig blómlegt tónlistarlíf í bænum. Á Húsavík má finna allskonar gistiaðstöðu og veitingastaði. Einnig er þar bakarí, bruggverksmiðja og bar, tjaldsvæði, sundlaug, golfvöllur, skíðasvæði og góðar gönguleiðir. Nýlega opnuðu sjóböð á svæðinu sem bjóða upp á bað í heitu sjóvatni með ótrúlega fallegu útsýni yfir Skjálfanda. Flugvöllur er rétt fyrir utan bæinn og því auðvelt að komast á staðinn. Húsavík er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is
Hvammstangi
Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarni Húnaþings vestra. Verslunarsaga staðarins nær yfir rúm 100 ár og er Verslunarminjasafnið gott dæmi um hvernig verslað var í krambúðum hér áðurfyrr. Góð höfn er á Hvammstanga og þaðan er gerður út sjóstanga- og selaskoðunarbátur. Hvammstangi er tilvalinn áfangastaður ferðamanna og er þar mjög góð sundlaug, gott tjaldsvæði í skjólgóðum hvammi með þægilegu þjónustuhúsi og tengingum fyrir tjald- og húsvagna. Jafnframt er á Hvammstanga gistihús, verslun, veitingastaður, bankaþjónusta, heilsugæsla, bensínstöð, bílaverkstæði og önnur nauðsynleg þjónusta. Selasetur Íslands veitir upplýsingar um seli og Vatnsnes, auk þess er þar almenn upplýsingamiðstöð ferðamanna.
Kópasker
Kópasker er vinalegt sjávarþorp í Núpasveit við austanverðan Öxarfjörð sem rekur sögu sína aftur til ársins 1879 er það varð löggildur verslunarstaður. Þorp myndaðist síðar í kringum starfsemi Kaupfélags Norður Þingeyinga sem stofnað var 1894. Fyrst risu vöruskemma og bryggja en verslunarhús var reist 1908 og fyrsta íbúðarhúsið 1912. Þorpið sækir nafn sitt til skers er fyrrum gekk út í sjóinn og en á því stendur nú hafnargarður. Meginatvinnuvegur þorpsins er þjónusta við íbúa, nærsveitir og ferðaþjónustaStærsti atvinnuveitandi er sláturhúsið og kjötvinnslan Fjallalamb hf. Aðeins er um útgerð á Kópaskeri en hún er bundin við nokkra smábáta. Á Kópaskeri er ýmis grunnþjónusta í boði, svo sem matvöruverslun, vínbúð, verkstæði, heilsugæslustöð, apótek, banki, póstur, heilsurækt, sjálfsali fyrir bensín, veitingasala og nokkrir gististaðir ásamt tjaldsvæði. Ýmislegt er vert að gera og sjá á Kópaskeri. Á Snartarstöðum við Kópasker er einstök sýning á munum úr byggðarsafni N-Þingeyinga. Þar er m.a. að finna mikið úrval hannyrða af ýmsum toga og merkilegt bókasafn. Í skólahúsinu er Skjálftasetrið, sem greinir í máli og myndum frá skjálftanum við Kópasker 1976, orskökum hans og áhrifum á mannvirki, landslag og mannlíf. Við Kópasker eru jafnframt áhugaverðar gönguleiðir og afar fjölbreytt fuglalíf. Á hverju ári eru haldin Sólstöðuhátíð á Kópaskeri, í júní. Mikið er um að vera í þorpinu þessa helgi og gaman er að koma og upplifa menningu íbúa á þennan hátt.
Laugar
Laugar í Reykjadal er þéttbýliskjarni sem hefur byggst upp á jarðhitasvæði. Á Laugum er löng og rík menntahefð. Þar er Framhaldsskólinn á Laugum og skólahald hefur verið samfleytt þar frá árinu 1925 þegar Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína. Á Laugum er miðstöð stjórnsýslu í Þingeyjarsveit og ýmis önnur þjónusta í boði, svo sem banki, verslun og veitingastaður. Á sumrin er starfrækt hótel og þar er fjöldi gistiheimila sem eru opin allt árið. Á Laugum er einnig tjaldsvæði, sundlaug og frábær aðstaða til íþróttaiðkunar.
Laugarbakki
Laugarbakki stendur við þjóðveginn ofan við Miðfjarðará. Þar er jarðhiti sem nýttur er fyrir þorpið og þéttbýlið á Hvammstanga. Handverkshúsið Langafit stendur á Laugarbakka og þar er einnig svefnpokagisting og tjaldsvæði við félagsheimilið Ásbyrgi sem er leigt út fyrir ættarmót. Þar er einnig að finna Hótel Laugarbakka. Yfir sumarið liggur tiltölulega greiðfær vegur upp úr Miðfjarðardölum fram að Arnarvatni.
Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn á Íslandi, 37 km2 á stærð, mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Rykmý setur mjög svip sinn á umhverfi Mývatns og af því dregur vatnið nafn sitt. Mývatn er mjög grunnt og sólarljós nær alls staðar til botns. Það sem einkennir lífið í Mývatni öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga og lífríkið er ákaflega fjölbreytilegt og merkilegt. Á botninum er mikið af kísilþörungaskeljum, ofar syndir hin alþekkta Mývatnsbleikja innan um vatnagróður og á bökkum vatnsins og í hólmum vex safaríkur gróður.Á og við Mývatn er mikið og fjölskrúðugt fuglalíf. Einkum lifa þar vatna- og votlendisfuglar af ýmsum tegundum en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri við vatnið en á nokkrum öðrum stað á jörðinni.Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur. Mývatn er hluti af Demantshringnum sjáðu hann hér www.demantshringurinn.is
Ólafsfjörður
Mikil náttúrufegurð er í Ólafsfirði og margar góðar gönguleiðir eru á svæðinu. Ólafsfjörður hefur síðustu ár orðið sífellt vinsælli áningarstaður ferðalanga, enda er hann rómaður fyrir fegurð, kyrrð og ró. Á veturna er Ólafsfjörður sannkölluð vetrar- og skíðaparadís og draumur útivistarmannsins og á sumrin eru það fjöllin, sjórinn, Ólafsfjarðarvatn og svört sandfjaran sem heilla.Í stórbrotnu landslagi fjarðarins má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró. Yfir sumartímann er hægt að horfa á miðnætursólina dansa á sjóndeildarhringnum áður en hún rís að nýju og á vetrum eru norðurljósin stórfengleg. Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi. Í Ólafsfirði er 9 holu golfvöllur, sundlaug, glæsilegt náttúrgripasafn, fjöldi gallería, tvo veitingahús, hótel, gistiheimili og verslun.
Raufarhöfn
Á austurströnd Melrakkasléttu er Raufarhöfn, nyrsta alla þorpa á Íslandi. Hvergi á Íslandi verður vornóttin bjartari né vetrardagurinn myrkari. Heimskautsbaugur er rétt við ströndina og á ásnum fyrir ofan þorpið er Heimskautsgerðið, stærsta útilistaverk á Íslandi sem tvinnar saman íslenska menningu, bókmenntasögu og sígild vísindi við sérstæðar náttúruaðstæður. Útgerð hefur ávallt verið undirstöðuatvinnuvegur á Raufarhöfn og á síldarárunum var hér ein mesta uppskipunarhöfn landsins og iðandi mannlíf. Nú ríkir meiri kyrrð yfir þorpinu og þar er gott að dvelja um hríð, fara í gönguferðir, veiði, siglingar og njóta miðnætursólarinnar. Umgjörð kaupstaðarins er einstaklega falleg. Höfnin liggur í skjóli Raufarhafnarhöfða og yfir henni vakir falleg kirkja, byggð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar árið 1927 Melrakkaslétta er kunn fyrir hlunnindi, fiskveiðar, fjörubeit, æðarvarp, eggjatöku, og gjöful veiðivötn. Þarna er einstök náttúrufegurð á vorin og sumarkvöldum og fjölskrúðugt fuglalíf. Af Rauðanúp er stórkostlegt útsýni og návígi við fuglalífið í dröngunum Karli og Kerlingu.Nyrst á sléttunni er Hraunhafnartangi, nyrsti hluti Íslands. Þar er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu Á Raufarhöfn er öll grunnþjónusta heilsugæsla, apótek, matvöruverslun, banki, pósthús, sundlaug, heilsurækt, tjaldstæði, bifreiðaverkstæði, sjálfsali fyrir eldsneyti, hótel, gistiheimili, og kaffihús. Á hverju ári eru haldnir menningardagar sem enda á Hrútadögum, fyrsta laugardag í október. Mikið er um að vera í þorpinu þessa daga og gaman að koma og upplifa menningu íbúa á þennan hátt.
Sauðárkrókur
Sauðárkrókur stendur við botn Skagafjarðar að suðvestan. Á Sauðárkróki er fjölbreytt þjónusta; sýningar, söfn, verslanir, veitingar, gisting, sjúkrahús, verkstæði, golfvöllur, skíðasvæði, íþróttavöllur, ærslabelgur, strandblakvöllur, sundlaug o.fl. Í Aðalgötunni er verslun Haraldar Júlíussonar sem starfað hefur óslitið frá árinu 1919. Þar er einnig að finna ýmsar sérverslanir, veitingastaði og fyrsta flokks handverksbakarí. Tvær framúrskarandi sýningar eru í Aðalgötunni; Puffin & Friends og 1238 – Baráttan um Ísland. Þar er einnig að finna upplýsingamiðstöð. Stuttan spöl frá Sauðárkróki eru vinsælir ferðamannastaðir eins og Grettislaug og gamli bærinn í Glaumbæ. Daglegar ferðir eru farnar í Drangey frá smábátahöfninni á Sauðárkróki yfir sumartímann og eftir samkomulagi yfir vetrarmánuðina. Brekkurnar fyrir ofan bæinn kallast Nafir og eru fornir sjávarkambar. Á Nöfunum er útsýnisskífa þar sem hægt er að njóta þess að horfa yfir fjörðinn. Einnig er golfvöllur upp á Nöfum. Ótal gönguleiðir er að finna á Sauðárkróki og nágrenni. Sauðárkrókur er einn öflugasti byggðarkjarni landsbyggðarinnar þar sem saman fer öflug útgerð, úrvinnsla afurða af stóru landbúnaðarsvæði og þjónusta sem jafnast á við það besta sem býðst á landsbyggðinni. Austan við Sauðárkrók er Borgarsandur, tæplega fjögurra kílómetra löng svört sandfjara. Þar er upplagt að labba um og njóta útsýnisins út fjörðinn þar sem eyjarnar Drangey og Málmey ásamt Þórðarhöfða blasa við. Við Áshildarholtsvatn er fjölskrúðugt fuglalíf en þar má finna upplýsingaskilti um fugla. Mikið fuglalíf er einnig við ósa Héraðsvatna og á Miklavatni.
Siglufjörður
Siglufjörður býr að stórbrotinni náttúrufegurð, þar sem möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru hreint óþrjótandi. Náttúran er ávallt innan seilingar, hvort heldur haldið er í gönguferðir, skellt sér á skíði eða veitt í vötnum, ám eða sjó, ásamt fjölþættum gönguleiðum um fjöll og dali. Við slíkar aðstæður hefur nær ósnortið og friðsælt náttúrufar Héðinsfjarðarins notið mikillar hylli hjá ferðafólki. Á Siglufirði er nægur snjór í fjöllunum og allsstaðar hægt að finna tækifæri og aðstöðu til útiveru. Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, fjallaskíði og gönguskíði eða þeytast um á snjósleða. Skíðasvæðið í Skarðsdal má tvímælalaust telja með bestu skíðasvæðum landsins. Þar er oftast svo mikill snjór að hægt er að skíða langt fram á vor. Á svæðinu eru nú þrjár lyftur, tvær samfelldar: diskalyfta og T-lyfta, samtals um það bil 1.500 metrar að lengd. Þriðja og efsta lyftan er 530 metra löng með um 180 metra fallhæð. Efri endi lyftunnar er í rúmlega 650 metra hæð yfir sjó. Á Siglufirði er blómlegt menningarlíf. Fjöldi veitingahúsa, með fjölbreytta matseðla er að finna og gistimöguleikar miklir. Einnig eru fjölmörg gallerí og vinnustofur, söfn og setur. En þar er helst að nefna Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar og Ljóðasetur Íslands. Á Siglufirði er 25 metra innisundlaug og heitur pottur (úti). Á Siglufirði er 9 holu golfvöllur og nægt framboð af afþreyingu. Fastar árlegar bæjarhátíðir eru Páskafjör á skíðasvæðinu, Þjóðlagahátíð, Trilludagar, Ljóðahátíð og Síldarævintýrið.
Skagaströnd
Á Skagaströnd er að finna fagra náttúru í fjölbreyttu landslagi og gróðri hvert sem litið er. Glæsileiki Spákonufells trónir yfir bænum en þar eru stikaðar gönguleiðir upp fjallið. Á toppnum upplifa göngugarpar tignarlegan kraft þessa einstaka fjalls. Í Nesi listamiðstöð dvelja listamenn frá mörgum heimshornum, þar er jafnvel hægt að kíkja við og sjá hverju verið er að vinna að. Spákonufellshöfði, yfirleitt þekktur sem Höfðinn, er vinsælt útivistarsvæði og hentar vel þeim sem ekki leggja í að takast á við fjallið. Þar er val um merktar gönguleiðir meðfram strandlengjunni og upplýsingaskilti um gróður og fjölbreytt fuglalífið á svæðinu. Þeir sem heillast af þjóðsögum og ævintýrum geta fundið minnisvarða um Jón Árnason, einn mesta þjóðsögusafnara í Evrópu, sem staðsettur er við Spákonufellshöfða. Úti á Skagaheiði er að finna mörg vötn full af silungi auk gönguleiða. Skagaströnd státar af frábærum golfvelli þaðan sem stórkostlegt útsýni er yfir Húnaflóa og yfir á Strandir. Í bænum er gott tjaldstæði með framúrskarandi aðstöðu. Á Skagaströnd er líka sundlaug og heitur pottur með útsýni yfir víðáttumikið haf. Oft er höfnin á Skagaströnd iðandi af lífi þar sem sjómenn landa afla sínum upp úr öllum sínum litríku bátum, heimafólk og listamenn í göngutúrum í leit að innblæstri. Skagaströnd - þar sem allir eru ávallt velkomnir.
Svalbarðseyri
Svalbarðseyri er þorp á Svalbarðsströnd við austanverðan Eyjafjörð. Svalbarðsströnd er blómlegt landbúnaðarhérað og á Svalbarseyri er löng hefð fyrir öflugri þjónustu og starfsemi tengdri landbúnaði. Þar er einnig höfn fyrir smábáta. Ferðaþjónusta hefur verið í örum vexti á svæðinu og er iðnaður og þjónustustarfsemi nú höfuðatvinnuvegurinn.
Varmahlíð
Varmahlíð er skemmtilegur áningarstaður ferðamanna við þjóðveg nr. 1; byggðakjarni með fjölbreytt framboð þjónustu. Þar eru m.a. söluskáli, bensínstöð, matvöruverslun og veitingaþjónusta. Upplýsingamiðstöð ferðamanna er staðsett við hliðina á Olís versluninni og veitingaskálanum. Þar kynnir handverksfélagið Alþýðulist skagfirskt handverk. Í Varmahlíð er barnvæn sundlaug með rennibrautum, heitum potti og gufubaði, sparkvöllur, körfuboltavöllur og ærslabelgur er staðsettur á tjaldstæðinu. Gistimöguleikar í Varmahlíð og nágrenni eru fjölbreyttir en hægt að fá gistingu í orlofshúsum, bændagistingu, framúrskarandi tjaldsvæði og á hóteli. Menningarhúsið Miðgarður er staðsett í Varmahlíð, þar sem boðið er upp á ýmsar skemmtanir árið um kring. Fjölbreyttar gönguleiðir eru í Varmahlíð og nágrenni. Á góðviðrisdegi er gaman að ganga um í skógræktinni á Reykjarhólnum, á göngustígum sem liggja m.a. upp að útsýnisskífu, þaðan sem útsýni er einstakt yfir miðhéraðið. Reykjafoss er staðsettur um 7 km frá Varmahlíð, en hann er einstök náttúruperla. Þá er einnig einstakt að ganga á Mælifellshnjúkinn, Glóðafeyki, Molduxa og Tindastól fyrir þá sem kjósa lengri og meira krefjandi gönguferðir. Gott framboð þjónustu er fyrir ferðamenn í sveitunum sunnan Varmahlíðar. Þar er fjölbreytt úrval gistingar, veitingaþjónustu og margir valkostir í afþreyingu, s.s. hestaferðir og hestasýningar, flúðasiglingar, gönguferðir, söfn og kirkjur. Þar eru merkir sögustaðir á annarri hverri þúfu og alls staðar stutt í fallega náttúru. Í Steinstaðabyggð er Aldamótarskógur sem gaman er að ganga um. Austurdalur er náttúru- og útivistarperla sem vert er að skoða nánar, en á leið þangað má fara yfir Jökulsá með kláfi (við Skatastaði), ganga um Merkigilið eða koma við í Ábæjarkirkju. Hægt er að komast inn á hálendið úr Skagafirði, bæði Kjalveg og Sprengisandsleið.
Þórshöfn
Hjarta Þórshafnar slær í takt við sjávarföllin, þar hefur útgerð og fiskvinnsla verið aðalatvinnuvegurinn í gegnum tíðina. Því er einstaklega gaman að rölta niður að höfn eða fara í sund í glæsilegri íþróttamiðstöð, þar sem upplýsingamiðstöðin er staðsett. Ekki má gleyma að Þórshöfn er anddyrið að ævintýraheimi Langaness. Þjónusta á Þórshöfn er mjög góð, þar er heilsugæsla, verslun, veitingastaður, íþróttahús, sundlaug, sparisjóður, bensínstöð, bílaverkstæði, gistihús o.fl. Einnig er þar tjaldsvæði með aðstöðu fyrir húsbíla. Samgöngur til Þórshafnar eru orðnar prýðilegar með nýjum vegi yfir Hófaskarð. Einnig er flogið til Þórshafnar alla virka daga.