Árskógssandur
- Einstök upplifun
Árskógssandur í Dalvíkurbyggð er þéttbýliskjarni sem stendur niður við sjó og tengir saman land og eyju en skipið Sævar siglir milli Árskógssandar og Hríseyjar.
Á Árskógssandi má finna Bruggsmiðjuna sem framleiðir bjórinn Kalda en þar er hægt að panta kynningu þar sem farið er yfir framleiðsluna og sögu fyrirtækisins. Bjórböðin er einnig að finna á Árskógssandi en þau eru einstök sinnar tegundar á Íslandi. Í Bjórböðunum er ýmist hægt að baða sig í bjór eða í útipottunum sem bjóða uppá stórfenglegt útsýni. Þar er einnig dýrindis veitingastaður þar sem hægt er að gæða sér á réttum af fjölbreyttum matseðli, en þar er sérstaklega vinsæll svokallaður Kaldaborgari.
Nálægð við náttúruna er mikil og mikið er um gönguleiðir við allra hæfi í nágrenninu.
Láttu sjá þig á Árskógssandi og njóttu alls þess dásamlega sem þorpið hefur upp á að bjóða. Upplifðu kyrrðina, öryggið og dásamlegt útsýnið.
Á Árskógssandi er nefnilega ánægjulegt allan ársins hring.