Ferðaþjónusta til fyrirmyndar
Markaðsstofa Norðurlands (MN) hefur síðan 2022 unnið að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að hvetja til aukinnar sjálfbærni í ferðaþjónustu. Sjálfbærnihugtakið er víðtækt eins og glögglega sést ef heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni eru skoðuð. Markmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og er þeim ætlað að mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.
Í kjölfar greiningarvinnu sem unnin var með aðkomu erlendra ráðgjafa (Kontiki) á árinu 2022, ákváðu forsvaraðilar MN að leggja höfuðáherslu á samfélags- og hagræna þætti í frekari eflingu sjálfbærni í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Dregnir voru út tveir megináhersluþættir (undirmarkmið):
Verkefnið framundan
MN vinnur nú að kynningarefni þar teknar verða saman frásagnir af ferðaþjónustufyrirtækjum á Norðurlandi sem tileinkað hafa sér gildi sjálfbærar þróunar. Þau fyrirtæki sem verða kynnt eiga það sameiginlegt að hafa innleitt áherslur og/eða verkefni sem eru til þess fallin að efla sjálfbærni, m.a. með bættan hag nærsamfélagsins að leiðarljósi. Tilgangur þessa kynningarefnisins er margþættur, m.a. er því ætlað að auka vitund forsvarsaðila annarra ferðaþjónustufyrirtækja um sjálfbærni og hvetja þá til góðra verka. Einnig mun efnið nýtast í kynningarstarfi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir þjónustu fyrirtækja sem hafa stigið skref í átt til aukinnar sjálfbærni.
Efnistök - Viðtalsrammi
Frásagnirnar verði að lágmarki fjórar til að byrja með og verða efnitök byggð á ákveðnum viðtalsramma.
- Stutt lýsing á fyrirtækinu og starfsemi þess.
- Hvað lagði grunn að viðkomandi verkefni/aðgerð, var verið að leysa einhvers konar vandamál eða bregðast við áskorun? Af hverju, hvert var markmiðið?
- Í hverju felst verkefnið/aðgerðin, lýsing. Hvað var gert? Hvernig tengist viðkomandi verkefni/aðgerð sjálfbærni? (vísun í valin markmið sjálfbærrar þróunar).
- Hver eru áhrif og ávinningur verkefnisins/aðgerðarinnar. Hverja snertir verkefnið (hagaðilar), hver er hagur nærsamfélagsins af verkefninu? Hver er lærdómurinn? Hefur verkefninu verið komið sérstaklega á farmfæri eða upplýsingum um það verið miðlað á beinan eða óbeinan hátt (t.d. í tengslum við markaðssetningu fyrirtækisins)?
Miðlun og ávinningur samstarfsfyrirtækja
Frásögnunum verður miðlað á vef Markaðsstofu Norðurlands og verða þær prýddar viðeigandi ljósmyndum. Efnið verður einnig nýtt í almennu markaðsefni MN s.s. á ferðakaupstefnum og vinnustofum innanlands og utan. Síðast en ekki síst yrðu sögurnar kynntar fyrir samstarfsfyrirtækjum MN í hvatningarskyni. Ávinningur fyrirtækjanna, sem sagt verður frá, er því umtalsverður út frá markaðslegu sjónarhorni þar sem hér skapast tækifæri til kynningar og færi gefst á auknum sýnileika.