Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Útilega

Tjaldsvæði

Það eru fjölmörg tjaldstæði um allt Norðurland, flest opin frá maí og fram í september. Hægt er að mæta með gamla góða tjaldið og upplifa alvöru útilegustemmningu. Aðrir kjósa að vera með fellihýsi, hjólhýsi eða húsbíl. Hvað sem verður fyrir valinu þá myndast alltaf skemmileg stemmning á tjaldsvæðum. Yfirleitt eru aðstæður skemmtilegar fyrir fjölskyldufólk og hreinlætisaðstæður góðar. Það er líka svo gaman að kynnast nýju fólki á ferð um fallega landið okkar og skiptast á sögum úr ferðalaginu. 

Heimilt er að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi. Landeigendur þurfa að gefa til kynna undantekningar á þeirri reglu með merkingum. Af tillitssemi við landið og eigendur þess ættu menn þó að nýta sér merkt tjaldsvæði verði því við komið og ekki tjalda nærri bæjum án leyfis. Hópum ber undantekningarlaust að ráðfæra sig við rétthafa lands ef þeir hyggjast slá upp tjaldbúð utan merktra tjaldsvæða.

Óheimilt er að tjalda innan þéttbýlis, utan tjaldsvæða.

Glamping lúxustjöld

Gisting fyrir þá sem vilja tvinna saman nútíma þægindi og gömlu góðu tjaldútileguna. Þú nýtur flestra þæginda sem finna má á hótelherbergi, en upplifir á sama tíma sjarmann af því að gista úti í guðs grænni náttúrunni. Skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnari gistingu.

Fjallaskálar

Fjallaskálar geta verið sérstaklega áhugaverðir og skemmtileg upplifun. Á hálendi Íslands eru fjallakofar og skálar helstu gistimöguleikarnir og eru þeir mismunandi eins og þeir eru margir. Yfirleitt er svefnpokagisting í boði í þessum skálum.  

Húsbílar og ferðabílar

Hægt er að leigja húsbíla hjá bílaleigum landsins. Vinsamlegast kynnið ykkur reglur um hvar má leggja svoleiðis bílum yfir nótt. 

Vetrarþjónusta við campera/húsbíla

Víða á Norðurlandi má nú finna þjónustu við húsbíla sem opin er allt árið. Það er því ekki bara yfir hásumarið sem hægt er að ferðast um Norðurland á húsbíl, heldur er líka hægt að upplifa vorkomuna, haustlitina og ótrúlegt úrval vetrarafþreyingar.

Svefnpokagisting

Mörg gistiheimili, einfaldari hótel, farfuglaheimili og aðilar sem reka bændagistingu, bjóða upp á svefnpokapláss, en það er ódýrara en uppábúið rúm.