Ferlið við vinnslu stefnunnar
„Við sækjum efnið í aðra stefnumótun í fyrirtækinu, svo sem umhverfisstefnuna okkar og ferlið allt miðar að því að hafa sem flesta okkar starfsmanna með í vinnunni. Við höldum árlega fundi þar sem allir lykilstarfsmenn, alls staðar af landinu, taka þátt. Þar eru t.d. unnar greiningar á stöðunni á hverjum tímapunkti og þannig fáum við inn fjölbreytt viðhorf og hugmyndir. Við nýtum okkur einnig kannanir sem við gerum meðal starfsmanna þar sem við spyrjum út í ýmis viðfangsefni, sem tengjast vinnuumhverfinu, samfélaginu og sjálfbærni í víðu samhengi.“
Til að vinna úr þessum upplýsingum nýtir fyrirtækið sér smærri stýrihópa til að draga niðurstöður saman. Að sögn Jóns Gests er það ákveðin áskorun að koma niðurstöðum slíkrar vinnu niður á blað á skýran hátt og það á líka við um ferlið sem til þarf til að tengja eldri grunngildi fyrirtækisins við stefnumótunarvinnuna í heild.
„Þetta er skemmtileg vinna og við tökum þetta skref fyrir skref. Við einbeittum okkur fyrst að þeim þáttum, sem við þekktum vel og vissum að væru í lagi hjá okkur og síðan endurskoðum við og bætum við á hverju ári“, bætir Jón Gestur við.
„Kannski mættum við vera duglegri að berja okkur á brjóst“
En hefur stefnumótun af þessu tagi einhvern markaðslegan ávinning? „Við vonum að okkar stefnumótun skapi gott umtal og hún á að tryggja aukin gæði, en beinn mælanlegur markaðslegur ávinningur er ekki mikill eða augljós. Við mættum sjálfsagt vera duglegri við að berja okkur á brjóst og láta vita af því sem vel er gert. Númer eitt er að ávinningurinn sé umhverfislegur og vonandi felur þetta í sér ávinning fyrir okkar samfélag í heild sinni.“
Jón Gestur tekur einnig fram að hann telji að með öflugri stefnumótun öðlist fyrirtækið ákveðið samkeppnisforskot, t.d. á formi jákvæðs umtals, en einnig hafi orðið vart við áhuga frá ýmsum aðilum, innanlands og erlendis frá. Þetta eigi sérstaklega við um stefnuþætti er varða orkuskipti, en á því sviði hefur fyrirtækið hlotið erlendar viðkenningar sem skilað hafa mikilvægri jákvæðri umfjöllun. Má hér nefna Sjálfbærni verðlaun Europcar Mobility Group á árinu 2022 (Green Sustainability Award).
Hver eru næstu skref hjá fyrirtækinu í átt að aukinni sjálfbærni?
„Við uppfærum okkar markmið á hverju ári og það er alltaf hægt að gera betur. Undanfarið ár höfum við lagt umtalsverða vinnu í að innleiða flokkunarreglugerð Evrópusambandsins. Kerfið er að mörgu leyti ekki tilbúið fyrir þessa innleiðingu hér á landi svo það er að mörgu að hyggja. Síðan erum við alltaf með minni verkefni í gagni, við erum stöðugt að horfa til orkuskiptanna og að reyna bæta okkur, t.d. hvað varðar meðhöndlun á úrgangi, frárennslismál, o.fl. Auðvitað viljum líka hugsa vel um starfsfólkið okkar, tryggja öryggi og góðan og heilbrigðan vinnustað. Við viljum vera með allt á hreinu.“