Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Bílaleiga Akureyrar – Höldur er rótgróið norðlenskt fyrirtæki. Upphafið má rekja aftur til ársins 1966, en fyrirtækið Höldur var stofnað þann 1. apríl 1974 og hefur gegnum tíðina stundað ýmiskonar þjónustustarfsemi, m.a. rekstur veitingastaða og verslana og bensínstöðva svo eitthvað sé nefnt. Starfsemin hefur þróast mikið gegnum tíðina, en síðan 2003 hefur bílaleiga og bílaþjónusta verið í forgrunni. Langstærsti hluti starfseminnar í dag snýst um bílaleigu, en einnig rekur fyrirtækið alhliða bílaverkstæði, dekkjaverkstæði, bílaþvottastöð og bílasölu á Akureyri. Bílafloti og starfsmannafjöldi hefur vaxið jafnt og þétt og í dag starfa rétt tæplega 300 starfsmenn hjá fyrirtækinu og flotinn telur um 8000 bifreiðar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri, en einnig eru reknar starfsstöðvar í Reykjavík og Keflavík, auk afgreiðsluútibúa vítt og breitt um land.

    Byggt á grunni rótgróinna gilda

    Mótun stefnu um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð snérist fyrst og fremst um að taka saman gögn um áherslur og verklag sem hafði lengi tíðkast hjá fyrirtækinu. Upplýsingar voru teknar saman á skipulagðan hátt og settar inn í viðeigandi ramma og tengdar við nýja hugtakanotkun. Stefnumótunin byggir því á traustum grunni og rótgrónum gildum sem höfðu lengi verið leiðarljós starfseminnar.

    „Við vorum í raun að vinna eftir ákveðinni stefnu og vorum að gera alla þessa hluti, en með því að tengja nýja hugtakanotkun inn í þetta, náum við að setja þetta fram á skýran hátt á formi yfirlýstrar stefnu. Við höfum í raun alltaf staðið fyrir að koma vel fram, hlíta öllum lögum og reglugerðum og vera ábyrgt fyrirtæki“, segir Jón Gestur.

    Innihald og áherslur

    Stefna fyrirtækisins um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð er víðtæk og tekur til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnunarhátta, með samþættingu við sex af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í stefnunni eru sett fram markmið sem m.a. varða ákveðnar aðgerðir í loftslagsmálum, um ábyrga neyslu og um heilsu, vellíðan og jafnrétti í starfsmannahópnum. Ennfremur hafa verið innleiddar sérstakar siðareglur um mannréttindi og viðskiptasiðferði og skilgreindar mótvægisaðgerðir m.a. á sviði skógræktar. Aðspurður um dæmi um verkefni sem unnin eru til að framfylgja stefnunni segir Jón Gestur:

    „Við setjum okkur árlega markmið varðandi ákveðna umhverfisþætti og félagslega þætti, t.d. varða starfsmannamál og samfélagstengsl. Einnig markmið, sem lúta að stjórnunarlegum þáttum, eins og t.d. innleiðingu Evrópsku flokkunarreglugerðarinnar (EU Taxonomy). Við höfum lengi verið með verkefni sem snúa að orkuskiptum og hlutfalli rafmagnsbíla í okkar bílaflota, en rétt um 10% af okkar bílum eru rafmagnsbílar, auk umtalsverðs fjölda tengiltvinnbíla. Við reynum líka að hafa áhrif útávið með því að taka þátt í virku samtali við hið opinbera, t.d. varðandi uppbyggingu hleðsluinnviða um landið. Við höfum einnig sjálf verið að byggja upp hleðsluinniviði á okkar starfstöðvum og erum í dag með um 60 hleðslustöðvar.“

    Ferlið við vinnslu stefnunnar

    „Við sækjum efnið í aðra stefnumótun í fyrirtækinu, svo sem umhverfisstefnuna okkar og ferlið allt miðar að því að hafa sem flesta okkar starfsmanna með í vinnunni. Við höldum árlega fundi þar sem allir lykilstarfsmenn, alls staðar af landinu, taka þátt. Þar eru t.d. unnar greiningar á stöðunni á hverjum tímapunkti og þannig fáum við inn fjölbreytt viðhorf og hugmyndir. Við nýtum okkur einnig kannanir sem við gerum meðal starfsmanna þar sem við spyrjum út í ýmis viðfangsefni, sem tengjast vinnuumhverfinu, samfélaginu og sjálfbærni í víðu samhengi.“

    Til að vinna úr þessum upplýsingum nýtir fyrirtækið sér smærri stýrihópa til að draga niðurstöður saman. Að sögn Jóns Gests er það ákveðin áskorun að koma niðurstöðum slíkrar vinnu niður á blað á skýran hátt og það á líka við um ferlið sem til þarf til að tengja eldri grunngildi fyrirtækisins við stefnumótunarvinnuna í heild.

    „Þetta er skemmtileg vinna og við tökum þetta skref fyrir skref. Við einbeittum okkur fyrst að þeim þáttum, sem við þekktum vel og vissum að væru í lagi hjá okkur og síðan endurskoðum við og bætum við á hverju ári“, bætir Jón Gestur við.

    „Kannski mættum við vera duglegri að berja okkur á brjóst“

    En hefur stefnumótun af þessu tagi einhvern markaðslegan ávinning? „Við vonum að okkar stefnumótun skapi gott umtal og hún á að tryggja aukin gæði, en beinn mælanlegur markaðslegur ávinningur er ekki mikill eða augljós. Við mættum sjálfsagt vera duglegri við að berja okkur á brjóst og láta vita af því sem vel er gert. Númer eitt er að ávinningurinn sé umhverfislegur og vonandi felur þetta í sér ávinning fyrir okkar samfélag í heild sinni.“

    Jón Gestur tekur einnig fram að hann telji að með öflugri stefnumótun öðlist fyrirtækið ákveðið samkeppnisforskot, t.d. á formi jákvæðs umtals, en einnig hafi orðið vart við áhuga frá ýmsum aðilum, innanlands og erlendis frá. Þetta eigi sérstaklega við um stefnuþætti er varða orkuskipti, en á því sviði hefur fyrirtækið hlotið erlendar viðkenningar sem skilað hafa mikilvægri jákvæðri umfjöllun. Má hér nefna Sjálfbærni verðlaun Europcar Mobility Group á árinu 2022 (Green Sustainability Award).

    Hver eru næstu skref hjá fyrirtækinu í átt að aukinni sjálfbærni?

    „Við uppfærum okkar markmið á hverju ári og það er alltaf hægt að gera betur. Undanfarið ár höfum við lagt umtalsverða vinnu í að innleiða flokkunarreglugerð Evrópusambandsins. Kerfið er að mörgu leyti ekki tilbúið fyrir þessa innleiðingu hér á landi svo það er að mörgu að hyggja. Síðan erum við alltaf með minni verkefni í gagni, við erum stöðugt að horfa til orkuskiptanna og að reyna bæta okkur, t.d. hvað varðar meðhöndlun á úrgangi, frárennslismál, o.fl. Auðvitað viljum líka hugsa vel um starfsfólkið okkar, tryggja öryggi og góðan og heilbrigðan vinnustað. Við viljum vera með allt á hreinu.“