Á Norðurlandi er hægt að ferðast um svæðið og kynna sér sögufræga staði, hvort sem það tengist landnámi, bardögum, skáldum eða lifnaðarháttum fyrri tíma.
Þrístapar
Þrístapar eru þrír hólar í vestandverðum Vatnsdalshólum skammt norðan við hringveginn. Þar fór fram síðasta opinbera aftakan á Íslandi þann 12. janúar 1830 en þá voru Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir hálshöggvin fyrir morðin á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni á Illugastöðum 1828. Böðullinn, Guðmundur Ketilsson, var bróðir Natans. Öxin og höggstokkurinn eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands en afsteypa af öxinni er til sýnis á Þrístöpum.
Til er frásögn af konu í Reykjavík sem árið 1932 kom á framfæri skilaboðum og óskum að handan sem leiddu til þess að höfuð Agnesar og Friðriks fundust og jarðneskar leifa þeirra voru jarðsettar að Tjörn á Vatnsnesi árið 1934.
Sögu Agnesar hefur verið gerð góð skil í sögulegu skáldsögunni Náðarstund eftir Hannah Kent sem kom út á íslensku 2014. Nú er í vinnslu kvikmynd þar sem Jennifer Lawrence fer með hlutverk Agnesar. Áður hafði María Ellingsen leikið Agnesi í samnefndri kvikmynd sem kom út árið 1995.
Aðrar bækur sem helgaðar eru þessum atburðum eru Yfirvaldið eftir Þorgeir þorgeirsson, Enginn má undan líta eftir Guðlaug Guðmundsson og Saga Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi.
Á Þrístöpum er sögu Agnesar og Friðriks gerð góð skil og vel þess virði að staldra þar við og taka göngutúr um svæðið. Sumarið 2024 verður sett upp hljóðleiðsögn um svæðið.
View
Innbærinn á Akureyri
Ein af höfuðprýðum Akureyrar er gömul hús. Í Innbænum og Fjörunni er að finna elstuhús bæjarins sem flest eru byggð á árunum 1800-1900. Mörg þeirra eru friðuðsamkvæmt lögum.Hin eiginlega Akureyri er eyri sem myndaðist af framburði lækjar sem rann niðurBúðargil. Þar risu fyrstu verslunarhúsin á 17. öld. Fyrsta íbúðarhúsið reisárið 1777-1778. Það stóð þar sem nú er Hafnarstræti 3 en brann árið 1901. Elstahús Akureyrar er Laxdalshús, reist 1795 og stendur það á miðri gömlu Akureyri.Með auknu frjálsræði í verslun á 19. öld og aukinni ásókn í byggð við ströndinajókst íbúabyggð á Akureyri og húsunum fjölgaði. Handverksfólk og tómthúsmennfluttu til bæjarins og unnu við verslunina. Þörf var á auknu rými fyrir ný húsog byggðin færðist suður fjöruna og upp Búðargilið.Tvær götur mynduðust sem nú eru Aðalstræti og Hafnarstræti og upp Búðargiliðkom Lækjargata. Þótt miklir brunar 1901 og 1912 hafi höggvið stórt skarð ígömlu byggðina mynda húsin við Aðalstræti, hluta Hafnarstrætis og Lækjargötuóvenju heillega byggð frá fyrstu tíð kaupstaðarins.
Í bæklingnum "Frá torgi tilfjöru" Söguganga um Akureyri (útgefinn 2011) márölta um þennan gamla bæjarhluta og fræðast um sögu valdra húsa á þessu svæðiauk þess að skoða söguvörðurnar - fræðsluskilti sem segja sögu húsa og byggðará svæðinu.https://www.visitakureyri.is/is/see-and-do/menning/skilti-baejarins
Íinnbænum eru líka mörg söfn og hús sem taka fyrir sögu bæjarins með mismunandihætti og sem skemmtilegt er að heimsækja.
View
Illugastaðir
Illugastaðir, er frægur selaskoðunar- og sögustaður. Á Illugastöðum á vestanverðu Vatnsnesi hefur verið byggður upp góður selaskoðunastaður. Gott bílaplan er á staðnum og þjónustuhús með salernisaðstöðu. Lagðar hafa verið lagðar gönguleiðir með sjónum. Á skerjum fyrir utan og syndandi í sjónum má flesta daga ársins sjá fjölmarga seli. Einnig hefur verið reist selaskoðunarhús út í tanga. Þar eru upplýsingar um selina og góð aðstaða til að fylgjast með selunum á sundi og liggjandi í skerjum. Athugið! Vegna mikils æðarvarps sem er á Illugastöðum þá er selaskoðunasvæðið lokað frá 30. apríl til 20. júní ár hvert[6].
Morðin á Illugastöðum. Agnes Magnúsdóttir (fædd 27. október 1795, dáin 12. janúar 1830) varð síðasta konan til að vera tekin af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða ásamt Friðriki Sigurðssyni fyrir morð á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Þau voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830.[7]
View
Landnemar
Hamarkotsklappir
Listamaðurinn Jónas S. Jakobsson starfaði á tímabili á Akureyri og árið 1956 gerði hann m.a. styttuna af Helga magra og Þórunni hyrnu sem voru fyrstu landnámsmennirnir í Eyjafirði. Göturnar Helgamagrastræti og Þórunnarstræti draga til dæmis nöfn sín af þeim auk þess sem heiti leikskólans Hólmasólar vísar til sögu þeirra. Þegar listamaðurinn var 18 áranam hann tvö ár hjá Ríkharði Jónssyni myndhöggvara í Reykjavík og svo næstu tvö árin þar á eftir hjá Einari Jónssyni myndhöggvara, áður en hann hélt í árs nám til Ríkislistaakademíunnar (Statens Kunstakademi) í Oslo.
Styttan Landnemarnir var fyrst gerð í steinsteypu en það var of viðkvæmt efni og eyðilagðist og var hún því endurgerð í brons.
Um Helga magra (heimild: Vísindavefurinn)
Í 2. kafla Íslendingabókar Ara fróða eru taldir upp fjórir landnámsmenn, einn í hverjum landsfjórðungi. Þeir eru Hrollaugur Rögnvaldsson, sagður hafa numið land austur á Síðu og verið ættfaðir Síðumanna, Ketilbjörn Ketilsson áMosfelli í Grímsnesi, ættfaðir Mosfellinga, Auður Ketilsdóttir djúpúðga, ættmóðir Breiðfirðinga og „Helgi hinn magri, norrænn, sonur Eyvindar austmanns“ sem „byggði norður í Eyjafirði; þaðan eru Eyfirðingar komnir.“ Ekki kemur framhvers vegna þessir fjórir landnámsmenn eru valdir úr rúmlega tíu sinnum stærri hóp samkvæmt Landnámabók,en í viðauka Íslendingabókar eru raktar ættir frá einmitt þessum mönnum til biskupa landsins og höfðingjalið landsins frá 10. öld til 12. aldar þannig tengt saman með ættarböndum. Frá Helga er rakin ætt til Ketils Þorsteinssonar semvar biskup á Hólum þegar Ari skrifaði bók sína.
Í Landnámabók er miklu fleira sagt frá Helga, þar sem hann er stundum kallaður Magur-Helgi. Þar segir frá Eyvindi Bjarnarsyni sem var kallaður austmaður, og er það skýrt þannig að hann hafi komið austan úr Svíaríki. Hann stundaði víking á Írlandi og giftist Raförtu, dóttur Kjarvals konungs í Dyflinni. Af ótilgreindum ástæðum komu hjónin Helga syni sínum fyrir í fóstri í Suðureyjum. En þegar þau vitjuðu hans, tveimur árum síðar, hafði hann verið sveltur svo að þau þekktu hann ekki. Þá höfðu þau piltinn í burt með sér og kölluðu hann Helga magra. Þegar hann fullorðnaðist gekk hann að eiga Þórunni hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, en hann var sonur Bjarnar bunu hersis í Noregi sem sagt er að nær allt stórmenni á Íslandi sé komið frá.
Ekki er skýrt í Landnámabók hvers vegna Helgi lagði leið sína til Íslands en þannig segir frá því í Sturlubókargerð hennar: "Helgi hinn magri fór til Íslands með konu sína og börn. Þar var og með honum Hámundur heljarskinn mágur [= tengdasonur] hans er átti Ingunni, dóttur Helga. Helgi var blandinn mjög í trú. Hann trúði á Krist en hét á Þór tilsjófara og harðræða. Þá er Helgi sá Ísland gekk hann til frétta við Þór hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norður um landið. Þá spurði Hrólfur son hans hvort Helgi mundi halda í Dumbshaf ef Þór vísaði honum þangað því aðskipverjum þótti mál úr hafi er áliðið var mjög sumarið. Helgi tók land fyrir utan Hrísey en fyrir innan Svarfaðardal. Hann var hinn fyrsta vetur á Hámundarstöðum. Þeir fengu vetur mikinn. Um vorið gekk Helgi upp á Sólarfjöll. Þá sá hann að svartara var miklu að sjá inn til fjarðarins er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim er þar lágu úti fyrir. Eftir það bar Helgi á skip sitt allt það er hann átti, en Hámundur bjó eftir. Helgi lenti þá við Galtarhamar. Þar skaut hann á land svínum tveimur, og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal; voru þá saman sjö tugir svína. Helgi kannaði um sumarið hérað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness og gerði eld mikinn við hvern vatnsós og helgaði sér svo allt hérað. Hann sat þann vetur að Bíldsá, en um vorið færði Helgi bú sitt í Kristsnes og bjó þar meðan hann lifði. Í búfærslunni varð Þórunn léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará. Þar fæddi hún Þorbjörgu hólmasól. Helgi trúði á Krist og kenndi því við hann bústað sinn. Eftir þetta tóku menn að byggja í landnámi Helga að hansráði."
Síðan segir frá því hvernig Helgi gaf mönnum af landnámi sínu. Aðrir námu land að ráði hans, án þess að tekið sé fram að þeir hafi beinlínis tekið við því að gjöf. Um enn aðra er sagt að þeir hafi numið land á tilteknum stað á svæðinu án þess að tekið sé fram að Helgi hafi leyft það. Alls er sagt frá um 30 mönnum sem byggðu í landnámi hans. Síðar í Landnámabók er Helgi talinn meðal átta manna sem eru sagðir hafa verið „ágætastir landnámsmenn“ í Norðlendingafjórðungi. Margt fólk í bókinni er líka ættfært með því að tengja það við Helga. Hann er sýnilega talinn meðal helstu höfðingja landnámskynslóðarinnar.
Í Íslendingasögum er Helgi nefndur nokkrum sinnum, oftast vegna ættartengsla við fólk sem þar kemur við sögur. Í Víga-Glúms sögu og Ljósvetninga sögu kemur einnig fram, það sem kemur ekki á óvart, að ætt Helga fór með goðorð í Eyjafirði. En vafasamt er hvort Helgi lifði svo lengi að hann næði að sitja á Alþingi sem goðorðsmaður. Í Svarfdæla sögu er tæpt á einkennilegri sögu þar sem birtist allt önnur mynd af Helga en ella. Þar er minnst á Þorkötlu nokkra, annars óþekkta persónu, og Kötlufjall sem er sagt kennt við hana „því að Helgi hinn magri deyddi hana þar og kól hana í hel svo að hann sat henni þar mat [= varnaði henni matar] þar til er hún dó.“ Er líkast því að þarna glytti í alþýðlega sögn sem hafi birt fjandsamlegri mynd af héraðshöfðingjanum en oftast er að finna í sögum.
Frásagnir af Helga magra eru allar skráðar tveimur öldum eftir að Helgi var uppi, eða þaðan af meira. Reynslan sýnir að ekki er hægt að treysta því að sögur sem hafa gengið svo lengi í munnmælum segi rétt eða nákvæmlega frá. Hér er þess hins vegar að gæta að Helgi var í vel þekktri fjölskyldu og kona hans jafnvel enn betur þekktri. Sögur af Helga og Þórunni konu hans hafa sjálfsagt verið margsagðar og oft í félagsskap þar sem nógir voru til að leiðrétta ef sagan vildi afbakast. Mestar líkur verða því að teljast á að þau hjón hafi verið til í raun og veru og frásagnir af þeim líklega í meginatriðum réttar.
Ef sleppt er efasemdum um sannleiksgildi má spyrja hvað Helga gekk til að nema svona gríðarlega stórt land, Eyjafjörð allan milli ystu útnesja. Mælt í fjölda bújarða á síðari öldum var landnám hans hið stærsta á öllu landinu, með um 480 býli á fyrri hluta 19. aldar. Næst kom landnám Ingólfs Arnarsonar með um 420 býli. Nærtækast er að hugsa sér að Helgi hafi ætlað sér og afkomendum sínum að gerast höfðingjar yfir öllu héraðinu. En það virðist ekki hafa gerst. Fræðimenn telja að goðorð Helga hafi skipst á milli sona hans og sonarsona, og eftir að samtímaheimildir koma til, á 12. öld, var ekkert héraðsríki í Eyjafirði. Það gerðist ekki fyrr en á öðrum áratug 13. aldar þegar aðkomumaðurinn Sighvatur Sturluson, sonur Sturlu Þórðarsonar í Hvammi í Dölum, settist að á Grund og safnaði undir sig öllum völdum á austanverðu Norðurlandi.
View
Þingeyrakirkja
Þingeyrar var fyrrum eitt kunnasta stórbýli í Húnaþingi og kirkjustaður. Frá Þingeyrakirkju er ein víðasta og fegursta útsýn í sýslunni. Talið er að enginn bær hafi verið eins stór og vel hýstur sem Þingeyrar enda sátu þar auðmenn og höfðingjar um aldir. Þingeyrarkirkja er byggð úr steini og var vígð árið 1877. Á Þingeyrum var fyrsta munkaklaustur Íslands stofnað árið 1133.
View
Heimskautsgerði
Heimskautsgerðið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessum vangaveltum kom hugmyndin að nota dvergatal Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi, gerði skissur og líkan sem stuðst er við.
Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál, 6 metra há hlið vísa til höfuðáttanna. Í miðju hringsins er 10 metra há súla á fjórum stöplum, sem áform eru uppi um að skarti kristaltoppi sem brýtur sólarljósið og varpar geislum sólar um allt Gerðið. Fjórir skúlptúrar eru inní Gerðinu hvert með sínu sniði. Pólstjörnubendir sem vísar á Pólstjörnuna. Hásæti sólar þar sem birtan í ákveðinni stöðu boðar sumarkomu. Geislakór er rými á milli hárra stöpla þar sem hægt verður að setjast niður, tæma hugann og endurnýja orku sína. Altari elds og vatns sem virkjar frumkraftana.
Inni Gerðinu verður árhringur dverga, steinar sem hver um sig tákna ákveðinn dverg. Þessir dvergar eru alls 72 talsins og er getið í íslenskum fornbókmenntum. Með þeim fjölda á hver dvergur sitt „vik“ í árinu, ef miðað er við 5 daga viku. Með því að tengja nöfn dverganna við árstíðir, eins og til dæmis nafnið Vetrarfaðir á fyrsta vetrardag þá ganga nöfnin upp eftir því hvar í árinu þeir lenda sem myndar 72 vikur. Árhringur dverga er þannig orðinn einskonar almanak, þar sem hver dvergur ræður 5 dögum. Til dæmis Várkaldur í viku vors, Bjartur í viku sumars þegar nætur eru bjartar og Dvalinn í haustviku þegar allt leggst í dvala fyrir veturinn. Enginn hefur getað útskýrt tilurð eða hlutverk dverganna í Völuspá nema þeirra Austra, Vestra, Norðra og Suðra, sem halda uppi himninum. Í hugmyndafræði Heimskautsgerðisins hefur öllum dvergum verið gefið hlutverk og þeir verið persónugerðir. Þannig er hægt að tengja dvergana við afmælisdaga og mynda tengsl við þá. Dvergarnir eru svo hluti af tímabilum goðanna sem eru gömlu mánuðirnir. Þegar á árið er litið sést að það eru 6 dvergar sem tilheyra hverjum (gamla) mánuði og hver mánuður tilheyrir ákveðnu goði. Hliðin, Austri, Vestri, Norðri og Suðri, á milli stöplanna vísa mót höfuðáttunum, þannig að miðnætursólin sést frá suðurhliði gegnum miðsúlu og norðurhlið, á sama hátt og sólarupprás sést frá vesturhliði í gegn um miðsúlu og austurhlið. Samspil ljóss og skugga sýnir eyktamörkin.Nánari upplýsingar um hugmyndafræði Heimskautsgerðisins er að finna á heimasíðunni www.heimskautsgerdi.is.
Heimskautsgerðið er 50 km frá Kópaskeri, 54 km frá Þórhöfn og 154 km frá Húsavík. Hér má sjá leiðina.
View
Kálfshamarsvík
Kálfshamarsvík er lítil vík á norðanverðum Skaga. Þar eru sjávarhamrar úr fallega formuðu stuðlabergi er myndaðist fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára, sérkennileg náttúrusmíð. Í byrjun 20.aldar var útgerð og um 100 manna byggð í Kálfshamarsvík en um 1940 var byggðin komin í eyði.
View
Hóladómkirkja
Hóladómkirkja er elsta steinkirkja á Íslandi. Kirkjan er byggð úr rauðum sandsteini úr fjallinu Hólabyrðu. Kirkjuna prýðir margt fallegra muna og reglulega er boðið upp á leiðsögn um hana.
Kirkjuturninn er 27 metra hár og stendur við hlið kirkjunnar. Hann var reistur á 400 ára dánarafmæli Jóns Arasonar, sem var hálshöggvinn ásamt sonum sínum árið 1550, en Jón var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi.
View
Hjörtun á Akureyri
Hjörtun í umferðaljósunum, hjartað sem sló og slær vonandi aftur von bráðar í Vaðlaheiðinni, og rauðu límhjörtun í mörgum gluggum húsanna, hafa sannarlega vakið athygli þeirra sem sækja Akureyri heim og hafa þau eignast fastan sess í hjörtum bæjarbúa.
Forsaga hjartanna nær til ársins 2008 en það sumar tók hátíðin Ein með öllu sem haldin er um verslunarmannahelgi miklum breytingum sem fjölskylduhátíð. Eitt af því sem gert var til að leggja áherslu á gildi hátíðarinnar var að setja rauð hjörtu í umferðaljósin og vöktu þau mikla lukku. Um haustið voru miklir erfiðleikar í samfélaginu sökum fjármálahruns og þótti þörf á að smita jákvæðni og bjartsýni til allra. Með það að leiðarljósi fóru Akureyrarstofa og fyrirtækið Ásprent-Stíll í samstarf um að dreifa þessum skilaboðum sem víðast og hvetja sem flesta til að leggja gjörva hönd á plóg. Átakið var kallað “Brostu með hjartanu” og er óhætt að segja að þátttakan hafi verið mikil.Hjörtun slógu í gegn og það sama gildir um tilvitnanir og málshætti sem hvöttu til bjartsýni og jákvæðni en fjöldi fyrirtækja og stofnanna skreyta veggi sína með slíkum hvatningum. Í lok nóvember sama ár birtist svo rautt risastórt sláandi hjarta í Vaðlaheiði. Hjartað var á stærð við fótboltavöll og áttu starfsmenn fyrirtækisins Rafeyrar heiðurinn að hugmyndinni og framkvæmd hennar en fyrirtækið fékk aðstoð frá m.a. Bechromal og RARIK og Norðurorku. Hjartað sló árlega frá lok nóvembermánaðar, þegar Aðventuævintýri hefst á Akureyri og fram í apríl. Það sló einnig á Akureyrarvöku síðustu helgina í ágúst, sem er afmæli Akureyrarbæjar.
Nú er unnið að því að gera hjartað aftur tilbúið til að slá og gera áætlanir ráð fyrir að það verði að veruleika 2020.
View
Hamarsrétt
Hamarsrétt, er með einstöka staðsetningu við sjóinn. Hamarsrétt er fjárrétt á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Réttin er í fjörunni rétt sunnan við ós Hamarsár á vestanverðu Vatnsnesi. Réttarstæði Hamarsréttar er talið eitt hið sérstæðasta á Íslandi.
View
Bænahúsið á Gröf
Gísli Þorláksson Hólabiskup (1657-1684) mun hafa látið reisa Grafarkirkju eða a.m.k. gera á henni endurbætur á síðasta fjórðungi 17. aldar en jörðin var þá í hans eigu. Ekkja hans, Ragnheiður Jónsdóttir (d. 1715) gerði staðinn að miklu miklu menningarsetri í sinni tíð. Grafarkirkju má telja til elstu húsa sem enn standa á Íslandi. Húsið er lokað almenningi.
Gröf er innsti bær á Höfðaströnd í Skagafirði, skammt sunnan Hofsóss. Þar var um skeið mikið menningarsetur. Kirkjan er að líkindum skreytt og e.t.v. einnig smíðuð af Guðmundi Guðmundssyni sem oft er kenndur við Bjarnastaðarhlíð. Hann smíðaði einnig hluta af Brynjólfskirkju í Skálholti og hjó út skírnarfontinn í Hóladómkirkju. Honum er ennfremur eignaður fjöldi fagurra smíðisgripa.
Að byggingarlagi er Grafarkirkja fornfálegust þeirra íslensku torfkirkna sem varðveist hafa og timburgrind hennar hefur sérstöðu meðal torfkirkna. Grindin er með stafverki og kirkjan er í raun eina varðveitta stafkirkja landsins. Hún var aflögð þegar á seinni hluta 18. aldar og hafði verið notuð sem skemma um langa hríð þegar Matthías Þórðarson þjóðminjavörður tók að beita sér fyrir varðveislu hennar árið 1939. Vegna fjárskorts hófust viðgerðir ekki fyrr en undir 1950 og voru þá svo viðamiklar að öllum gömlu viðunum var skipt út en nýir voru sniðnir nákvæmlega eftir þeim gömlu. Form kirkjunnar er því eftir sem áður fornt og upphaflegar vindskeiðar eru geymdar á Þjóðminjasafninu.
Kirkjan er sú eina á landinu sem er í hringlaga kirkjugarði. Garðurinn var endurhlaðinn um 1950 út frá sýnilegum veggleifum. Klukknaportið í garðinum er nýsmíði frá sömu viðgerð og er í stíl við kirkjuna.
View
Bjarg í Miðfirði
Bjarg í Miðfirði er fæðingarstaður Grettis sterka Ásmundarsonar en hann fæddist í lok 10. aldar og sagan segir að hann hafi manna lengst verið í útlegð á Íslandi eða í 19 ár alls. Grettissaga er ein af perlum íslenskra bókmennta og hefur lifað í gegnum aldirnar á skinnhandritum og í frásögnum sögumanna, þá hefur sagan verið uppspretta ótal hugmynda listamanna og rithöfunda. Sagan um Gretti sterka verður sýnileg við Grettisból á Laugarbakka, en þar er verið að byggja upp leikvang með áherslu á hreysti og hæfni, aflraunir með þátttöku gesta, allt í anda frægðarsagna íslenskra fornkappa. Frá árinu 1996 hafa verið haldnar árlega Grettishátíðir á slóðum Grettis með sérstakri menningardagskrá. Leiðsögn er um fæðingarstað Grettis að Bjargi og saga hans rakin. Einnig er keppt í aflraunum þar sem tekist er á við hin ýmsu "Grettistök". Nánari upplýsingar um Grettishátíðina.
View
Borgarvirki
Borgarvirki á Vatnsnesi er klettaborg úr 10-15 metra háu stuðlabergi. Virkið er gostappi og tilgáta er um að þar hafi verið héraðsvirki og barist til forna. Á Borgarvirki er útsýnisskífa og þar er mjög víðsýnt yfir stóran hluta héraðsins.
Einstakt náttúrufyrirbæri, endurbætt af mönnum fyrr á öldum.
Sagan segir að þar hafi Víga-Barði Guðmundsson í Ásbjarnarnesi verið á ferð. Hann deildi við Borgfirðinga eins og segir frá í Heiðarvíga sögu. Sagt er að óvinir hans hafi komið að sunnan með óvígan her en Barði barst af því njósnir og kom sér og sínum mönnum fyrir í Borgarvirki, þar sem ómögulegt reyndist að sækja að honum. Tóku Borgfirðingar á það ráð að ætla að svelta Barða og hans menn inni. Þegar matinn þraut tóku virkisbúar sig til og hentu síðasta mörsiðrinu (sláturkeppnum) út úr virkinu. Voru þá Borgfirðingar vissir um að Barði hefði nægar vistir og héldu heim á leið. Frábært útsýni er úr Borgarvirki og þar hefur verið sett upp útsýnisskífa.
View
Gásir í Eyjafirði
Gásir er einn af merkustu minjastöðum á Norðurlandi enda best varðveitti miðaldakaupstaður hér á landi. Gásir er einstakur sögustaður sem er víða getið í rituðum heimildum og er sú elsta frá 1162. Á Gásum var verslað, unnið var að handverki og iðnaði. Hugsanlegt er að verslun á Gásum hafi staðið allt þar til verslun hófst á Akureyri um 1550. Á Gásum fór fram fornleifa- og gróðurfarsrannsókn 2001-2006 undir stjórn Minjasafnins á Akureyri. Rústir hins forna kaupstaðar er friðlýstur og í umsjón Fornleifaverndar ríkisins. Svæðið hefur alþjóðlegt náttúruverndargildi vegna fuglalífs en þar eru einnig sjálfgæfar plöntutegundir. Nánari upplýsingar á www.gasir.is
View
Drangey
Drangey rís sæbrött fyrir miðjum Skagafirði. Frá henni er víðsýni mikið um byggðir fjarðarins. Hún er að mestu úr móbergi, hrikalegt hamravígi. Er hennar fyrst getið í Grettis sögu en þar hafðist útlaginn við seinustu ár sín ásamt bróður sínum Illuga og þrælnum Glaumi og þar var hann veginn, helsjúkur, í skála sínum af Þorbirni öngli og mönnum hans. Það mun hafa verið nær veturnóttum árið 1031.Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þótt mest beri þar á svartfuglategundum: stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því. Lundinn grefur sér aftur á móti holur á brúnunum. Auk þess verpa rita og fýll í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar einnig griðland.
Daglegar ferðir eru í Drangey frá Sauðárkróki, frá 20. maí til 20. ágúst, en þess utan eftir samkomulagi við Drangey Tours.
View
Orbis et Globus
Kúlan er 3 metrar í þvermál og er hugmynd listamannanna sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsíns þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.
Listaverkið hefur vakið mikla athygli, bæði á Íslandi og erlendis. Hér að neðanverðu má finna hlekki á umfjallanir um það frá íslenskum og erlendum fjölmiðlum.
View
Bæjardyrahúsið á Reynistað
Á Reynistað í Skagafirði er bæjardyrahús sem er það eina sem varðveist hefur af bæ þeim sem Þóra Björnsdóttir lét reisa eftir mikinn bruna sem þar varð árið 1758. Þóra var ekkja Halldórs Brynjólfssonar Hólabiskups og hélt hún Reynistaðarklaustursumboð að manni sínum látnum 1753 og til dauðadags 1767.
Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um.
Bæjardyraportið er með stafverksgrind af þeirri gerð sem víða tíðkaðist hér á landi á 18. öld þegar áhrifa bindingsverks var tekið að gæta. Öll smíði ber þess vitni að vel hafi verið til hússins vandað í sinni tíð og eru margir viðanna prýddir strikum.
Gömlu bæjarhúsin á Reynistað voru tekin niður skömmu eftir 1935 en þessu húsi var leyft að standa áfram. Um 1960 var það flutt til og byggð utan um það steinsteypt skemma. Í henni var portið fram til 1999 en þá voru viðirnir teknir niður og lagfærðir. Bæjardyraportið var síðan reist skammt frá upphaflegum stað og að því hlaðnir torfveggir og torf sett á þakið.
View
Möðrudalur
Möðrudalur liggur hæst bæja á Íslandi, 469 m.y.s. Ein landmesta jörð landsins. Þar hefur meira og minna verið í byggð frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Í Möðrudal er kirkja sem Jón Stefánsson (1880-1971) bóndi reisti á eigin kostnað til minningar um konu sína. Kirkjan var vígð árið 1949. Jón sá um alla smíði og málaði altaristöfluna er sýnir Krist halda Fjallræðuna. Taflan þykir mjög sérstæð.
View
Skálar á Langanesi
Skálar var þorp á Langanesi þar sem um tíma var blómlegt fiskimannasamfélag.
Í þorpinu á Skálum er að finna minjar um líf sem var. Hér stóð blómlegt þorp þar sem íbúarnir byggðu afkomu sína á útgerð. Þegar fjölmennast var á þriðja áratug 20. aldar bjuggu í þorpinu um 120 manns en helmingi fleiri á sumrin þegar vertíð stóð yfir.
Breyttar aðstæður í útgerð og samgöngum, tundurduflasprengingar og ýmislegt fleira varð til þess að á sjötta áratug síðustu aldar lagðist byggðin af.
Inn í sögu þorpsins fléttast áhrif hlunninda á búsetu, síðari heimsstyrjöldin, breytingar á samgöngum, örlög einstakra fjölskyldna og margt fleira.
Enn má sjá þar grunna margra húsanna, gamla bryggju og ýmsar aðrar minjar.
Upplýsingabæklingur um Skála fæst í íþróttamiðstöðinni á Þórshöfn og hjá ferðaþjónustuaðilum. Margar rústanna hafa verið merktar með númeri og nafni og má lesa um húsin í bæklingnum.
View