Upplýsingamiðlun skiptir máli
Þórhalla Bergey greinir frá því að forsvarsaðilar Vogafjóss verði mikið varir við að gestir séu forvitnir um hvernig þau fara að hlutunum. Gestirnir spyrji mikið um matinn sem er á boðstólnum og framleiðsluhættina. „Þegar við miðlum þessum upplýsingum þá verða gestirnir gjarnan hissa, því ferskar afurðir beint af býli eru óvíða í boði. Þegar menn átta sig á sérstöðu varanna okkar eru menn einnig oft á tíðum tilbúnir til að borga hærra verð. Það skiptir máli að útskýra þetta fyrir gestunum.“ Þórhalla Bergey bætir einnig við að öllum starfsmönnum í veitingasal sé uppálagt að miðla upplýsingum til gesta um starfsemina almennt á bænum og að boðið sé upp á veitingar beint frá býli.
Sterkari saman
Við hönnun matseðla í Vogafjósi eru matarhefðir í heiðri hafðar. „Við reynum að leggja áherslu á íslenska rétti á matseðlinum, t.d. heimabakað hverabrauð með smjöri og reyktum silungi, en sá réttur er mjög hefðbundinn í okkar heimabyggð.“
Þórhalla Bergey nefnir einnig að Vogafjós eigi gott samstarf við nágranna sína, sem sjá um að reykja silung svo hægt sé að bjóða upp á þennan klassíska rétt.
„Einnig er heilmikið samstarf milli ferðaþjónustufyrirtækja í sveitinni og við reynum að koma sterk þar inn, við erum í samskiptum við aðra og reynum að senda ferðamennina á milli fyrirtækja og kynna hvað aðrir eru að bjóða upp á svo gestir dvelji sem lengst á svæðinu.“