Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Á bænum Vogum I í Mývatnssveit er rekin fjölbreytt ferðaþjónustustarfsemi, auk hefðbundins búskapar. Veitingahúsið Vogafjós er vinsæll viðkomustaður innlendra sem erlendra ferðamanna, en í tengslum við veitingastaðinn er einnig rekin sveitaverslun sem selur gjafavöru, minjagripi og handverksvörur. Einnig er rekið gistihús á bænum. Sérstaða Vogafjóss, sem veitingastaðar, felst í nánum tengslum starfseminnar við búskapinn á bænum, en gestum gefst tækifæri til að kíkja í fjósið, klappa kálfum og jafnvel fá að smakka ferska mjólk úr spena.

    Fjölskyldufyrirtæki í sveit

    Sama fjölskylda hefur búið í Vogum í 120 ár. Lengst af hefur þar verið stundaður hefðbundinn búskapur í bland við aðrar náttúrunytjar. Ferðaþjónustustarfsemin hófst með opnun veitingastaðarins 1999 og gistihús með 24 herbergjum bættist við 2005. Í dag starfa 15-20 manns hjá fyrirtækinu árið um kring, en yfir sumartímann eru yfir 40 manns starfandi hjá fyrirtækinu. Í rekstri veitingahússins er lögð áhersla á eins stuttar aðfangakeðjur og framast er unnt og er stór hluti hráefnis framleiddur á býlinu. Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki, sem byggt hefur verið upp í samstarfi kynslóðanna og í nánum tengslum við samfélag í heimabyggð.

    Sjálfbær matvælaframleiðsla

    Á býlinu er framleitt bæði nauta- og kindakjöt, auk mjólkurframleiðslu. Afurðirnar eru nýttar beint til framleiðslu veitinga á veitingahúsinu. Að sögn Þórhöllu Bergeyjar Jónsdóttur rekstrarstjóra í Vogafjósi er leitast við að allt hráefni sé eins ferskt og hægt er. Reynt er að nálgast aðföng í heimabyggð, t.d. er grænmeti keypt af nágrönnum sem stunda garðyrkju og ylrækt. Hluti mjólkurframleiðslunnar er nýttur beint í ostagerð heima á bæ og má segja að ostarnir séu dæmi um afurð sem framleidd er á afar sjálfbæran hátt.

    „Við ölum kýrnar, heyjum ofan í þær á sumrin, kýrnar éta hey yfir veturinn. Þær framleiða fyrir okkur mjólkina, sem unnin er í ost hér heima og endar á diskunum hjá okkar gestum. Hér kemur nánast ekkert utanaðkomandi við sögu. Sjálfbærni er í raun gegnum gangandi í því sem við erum að gera hér í Vogafjósi. Við erum einnig mjög meðvituð um flokkun á sorpi og reynum að nýta allt lífrænt sorp eins vel og við getum. Stór hluti þess er losað í haughúsið í fjósinu og er því nýtt til áburðarframleiðslu fyrir túnræktina á bænum.“

    Upplýsingamiðlun skiptir máli

    Þórhalla Bergey greinir frá því að forsvarsaðilar Vogafjóss verði mikið varir við að gestir séu forvitnir um hvernig þau fara að hlutunum. Gestirnir spyrji mikið um matinn sem er á boðstólnum og framleiðsluhættina. „Þegar við miðlum þessum upplýsingum þá verða gestirnir gjarnan hissa, því ferskar afurðir beint af býli eru óvíða í boði. Þegar menn átta sig á sérstöðu varanna okkar eru menn einnig oft á tíðum tilbúnir til að borga hærra verð. Það skiptir máli að útskýra þetta fyrir gestunum.“ Þórhalla Bergey bætir einnig við að öllum starfsmönnum í veitingasal sé uppálagt að miðla upplýsingum til gesta um starfsemina almennt á bænum og að boðið sé upp á veitingar beint frá býli.

    Sterkari saman

    Við hönnun matseðla í Vogafjósi eru matarhefðir í heiðri hafðar. „Við reynum að leggja áherslu á íslenska rétti á matseðlinum, t.d. heimabakað hverabrauð með smjöri og reyktum silungi, en sá réttur er mjög hefðbundinn í okkar heimabyggð.“

    Þórhalla Bergey nefnir einnig að Vogafjós eigi gott samstarf við nágranna sína, sem sjá um að reykja silung svo hægt sé að bjóða upp á þennan klassíska rétt.

    Einnig er heilmikið samstarf milli ferðaþjónustufyrirtækja í sveitinni og við reynum að koma sterk þar inn, við erum í samskiptum við aðra og reynum að senda ferðamennina á milli fyrirtækja og kynna hvað aðrir eru að bjóða upp á svo gestir dvelji sem lengst á svæðinu.“