Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Geosea er baðstaður á heimsmælikvarða sem vakið hefur eftirtekt fyrir gæði og fallega hönnun. Sjóböðin á Húsavík, eins og þau eru nefnd á því ástkæra ylhýra, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 10-11 ársverk hjá fyrirtækinu og er starfsemin í gangi árið um kring. Vinsældir Sjóbaðanna hafa vaxið ár frá ári, en á árinu 2024 tók fyrirtækið á móti um 80 þúsund gestum. Erlendir og innlendir ferðamenn sækja böðin í ríku mæli, en einnig eru heimamenn duglegir að nýta sér aðstöðuna. Stofnun Sjóbaðanna á sínum tíma byggði á viðleitni heimamanna til að nýta vannýtta staðbundna auðlind á sjálfbæran hátt.

    Áralöng hefð fyrir heilsuböðum

    Hugmyndin að Sjóböðunum byggir á áralangri hefð meðal Húsvíkinga fyrir notkun á heitu vatn til heilsubótar. Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna, lýsir forsögunni á eftirfarandi hátt: „Upp úr 1960 lét Húsavíkurbær bora eftir heitu vatni skammt norðan við bæinn á svokölluðum Húsavíkurhöfða. Upphaflega var meiningin að nýta vatnið til húshitunar á svæðinu. Eftir mælingar var þó ákveðið að vatnið myndi ekki nýtast í þeim tilgangi, þar sem það var gríðarlega steinefnaríkt og salt og í raun nær því að vera heitur sjór og hentaði því ekki til húshitunar. Vatnið var lítið nýtt um árabil, en upp úr 1990 var komið upp frumstæðri baðaðstöðu á Höfðanum og Húsvíkingar hófu að nýta vatnið til baða. Fyrsta aðstaðan byggði á því að nýta gamalt ostakar sem mjólkurstöðin í bænum hafði aflagt. Enn í dag er sama borhola nýtt í Sjóböðunum, en einnig er notað vatn úr annarri borholu til íblöndunar.“

    Miðlun sögunnar til viðskiptavina

    Segja má að grundvöllur starfsemi Sjóbaðanna sé hagnýting vannýttar náttúruauðlindar til nýsköpunar og eflingar atvinnulífs norður við Skjálfandaflóa. En hversu meðvitaðir eru viðskiptavinir Sjóbaðanna um forsögu starfseminnar og þá sjálfbæru orkunýtingu sem í henni felst? „Við finnum í vaxandi mæli fyrir áhuga gesta okkar á þessum efnum og einnig höldum við því vel til haga að við notum engin íblöndunarefni í vatnið í böðunum og það er mikil ánægja með það. Við komum bakgrunni baðanna á framfæri á ýmsan hátt, t.d. í gegnum kynningarefni á vef, gegnum okkar starfsmannahandbækur og gegnum samtöl við viðskiptavini.“ Ármann nefnir einnig að forsvarsmenn baðanna vilji gjarnan vekja athygli á sögunni og því að heimamenn séu duglegir að nýta sér böðin enn þann dag í dag. „Það má því segja að við kynnum þetta sem ákveðna menningarlega upplifun líka.“

     

    „Við viljum leggja okkar að mörkum“

    Í Sjóböðunum er rekin heilsársstarfsemi sem styður við frekari uppbyggingu ferðaþjónustu á svæði sem glímir við talsverðar árstíðabundnar sveiflur í eftirspurn. Að sögn Ármanns hefur nærsamfélagið ótvíræðan hag af starfsemi Sjóbaðanna og tilkoma þeirra hefur bætt lífsgæði heimamanna. 

    Í tengslum við starfsemi okkar hafa orðið til afleidd störf, t.d. meðal iðnaðarmanna sem tóku þátt í uppbyggingunni og sem sinna breytingum og viðhaldi. Við reynum, eins og við getum, að versla í heimabyggð, hvort sem það er starfsmannafatnaður eða ýmis þjónusta. Við styðjum einnig við íþróttastarf á Húsavík, kaupum auglýsingar og merkingar á íþróttabúninga hjá yngri iðkendum, svo dæmi séu tekin. Við viljum leggja okkar af mörkum.“

    Samstarf innan ferðaþjónustunnar

    Ármann nefnir einnig að fyrirtækið taki virkan þátt í samstarfi ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Sem dæmi vinni fyrirtækið með hvalaskoðunarfyrirtækjunum í bænum með gagnkvæmum auglýsingum og tilvísunum. „Markmiðið með þessu er að stuðla að því að gestir dvelji lengur á Húsavík. Unnið hefur verið að þessu í langan tíma og nokkur árangur náðst. Hér þurfa allir að koma að borðinu, hvort sem það eru gististaðir, veitingastaðir, afþreyingarfyrirtækin, eða aðrir. Við viljum gera betur og stefnum að því. Við erum á uppleið og finnum fyrir miklum áhuga á því sem við erum að gera og erum spennt fyrir framhaldinu.“