Áralöng hefð fyrir heilsuböðum
Hugmyndin að Sjóböðunum byggir á áralangri hefð meðal Húsvíkinga fyrir notkun á heitu vatn til heilsubótar. Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna, lýsir forsögunni á eftirfarandi hátt: „Upp úr 1960 lét Húsavíkurbær bora eftir heitu vatni skammt norðan við bæinn á svokölluðum Húsavíkurhöfða. Upphaflega var meiningin að nýta vatnið til húshitunar á svæðinu. Eftir mælingar var þó ákveðið að vatnið myndi ekki nýtast í þeim tilgangi, þar sem það var gríðarlega steinefnaríkt og salt og í raun nær því að vera heitur sjór og hentaði því ekki til húshitunar. Vatnið var lítið nýtt um árabil, en upp úr 1990 var komið upp frumstæðri baðaðstöðu á Höfðanum og Húsvíkingar hófu að nýta vatnið til baða. Fyrsta aðstaðan byggði á því að nýta gamalt ostakar sem mjólkurstöðin í bænum hafði aflagt. Enn í dag er sama borhola nýtt í Sjóböðunum, en einnig er notað vatn úr annarri borholu til íblöndunar.“
Miðlun sögunnar til viðskiptavina
Segja má að grundvöllur starfsemi Sjóbaðanna sé hagnýting vannýttar náttúruauðlindar til nýsköpunar og eflingar atvinnulífs norður við Skjálfandaflóa. En hversu meðvitaðir eru viðskiptavinir Sjóbaðanna um forsögu starfseminnar og þá sjálfbæru orkunýtingu sem í henni felst? „Við finnum í vaxandi mæli fyrir áhuga gesta okkar á þessum efnum og einnig höldum við því vel til haga að við notum engin íblöndunarefni í vatnið í böðunum og það er mikil ánægja með það. Við komum bakgrunni baðanna á framfæri á ýmsan hátt, t.d. í gegnum kynningarefni á vef, gegnum okkar starfsmannahandbækur og gegnum samtöl við viðskiptavini.“ Ármann nefnir einnig að forsvarsmenn baðanna vilji gjarnan vekja athygli á sögunni og því að heimamenn séu duglegir að nýta sér böðin enn þann dag í dag. „Það má því segja að við kynnum þetta sem ákveðna menningarlega upplifun líka.“