Hólar
Hólar eru einn sögufrægasti staður Íslands og biskupssetur um aldir. Kirkja hefur staðið á Hólum frá 11. öld, en núverandi kirkja var reist 1763. Hún er byggð úr rauðum sandsteini úr fjallinu Hólabyrðu og er elsta steinkirkja á Íslandi.
Háskólinn á Hólum hefur stækkað ört á síðustu árum og hefur fjöldi nemendagarða verið byggður. Íbúar Hóla eru yfir tvö hundruð talsins að vetri til. Skólinn sérhæfir sig í ferðamálafræðum, hrossarækt og reiðmennsku, auk fiskeldis og fiskalíffræði.
Fornleifauppgröftur hefur farið fram á Hólum síðustu ár og hafa yfir 40 þúsund munir fundist. Úrval forngripa er til sýnis í gamla skólahúsinu. Um skóginn hlykkjast spennandi göngustígar sem leiða mann inn í undraheima lifandi náttúru þessa forna sögustaðar.
Á Hólahátíð, sem er jafnan um miðjan ágúst eru margskonar viðburðir á vegum kirkjunnar s.s. Pílagrímagöngur, helgihald og aðrir menningarviðburðir.
Laufskálarétt í Hjaltadal er ein vinsælasta stóðrétt landsins en þangað mæta árlega allt að þrjú þúsund gestir og er af mörgum talin drottning stóðréttanna.