Borðeyri
Borðeyri stendur við Hrútafjörð. Hún tilheyrði áður Bæjarhreppi en nú nýverið samþykktu íbúar hreppsins að sameinast sveitarfélaginu Húnaþingi vestra.
Borðeyri var forðum mikil verslunarhöfn og var gerð að löggiltum verslunarstað árið 1845. Meðal þekktra stórkaupmanna á Borðeyri má nefna Richard P. Riis en hann stofnaði útibú frá Borðeyrarversluninni bæði á Hólmavík og Hvammstanga og má segja að með því hafi hann lagt grundvöllinn að byggð á þeim stöðum. Undanfarin ár hefur verið unnið að endurbótum á Riis húsi á Borðeyri en það er eitt elsta hús við Húnaflóa.
Á 19. öldinni var Borðeyri ein stærsta útskipunarhöfn við norðanvert landið. Hún var miðstöð stórfellds útflutnings á lifandi sauðfé á seinni hluta aldarinnar en þaðan sigldu líka stórir hópar fólks sem leitaði betra lífs í Vesturheimi. Hvergi á landinu stigu eins margir Vesturfarar á skipsfjöl eins og á Borðeyri.
Borðeyri er í dag eitt allra fámennasta þorp landsins. Þaðan hafa þó eigi að síður komið landsþekktir menn svo sem Sigurður Eggerz, forsætisráðherra, sem og listmálararnir Karl Kvaran og Þorvaldur Skúlason.