Kolugljúfur
Þegar ekið er fram Víðidal kemur maður að Kolugili sem stendur við Víðidalsá. Rétt neðan við bæinn rennur áin friðsæl niður í stórbrotið gljúfur sem heitir Kolugljúfur og þar eru fossar sem kenndir eru við tröllkonuna Kolu og heita Kolufossar.
Það er afar áhrifamikið að ganga út á útsýnispallinn við gljúfrið og sjá hina friðsælu á steypast fram í svo mikilfenglegum fossum. Sýn sem lætur engan ósnortinn.
Góðar gönguleiðir eru meðfram gilinu sitthvoru megin, fara verður þó með varúð og hætta sér ekki of nærri gilinu. Þvergil lokar leið að vestanverðu svo ekki er hægt að ganga hringleið niður á Víðidalsbrúna.