Raufarhöfn
- Þorpið við heimskautsbaug
Á austurströnd Melrakkasléttu er Raufarhöfn, nyrsta alla þorpa á Íslandi. Hvergi á Íslandi verður vornóttin bjartari né vetrardagurinn myrkari. Heimskautsbaugur er rétt við ströndina og á ásnum fyrir ofan þorpið er Heimskautsgerðið, stærsta útilistaverk á Íslandi sem tvinnar saman íslenska menningu, bókmenntasögu og sígild vísindi við sérstæðar náttúruaðstæður.
Útgerð hefur ávallt verið undirstöðuatvinnuvegur á Raufarhöfn og á síldarárunum var hér ein mesta uppskipunarhöfn landsins og iðandi mannlíf. Nú ríkir meiri kyrrð yfir þorpinu og þar er gott að dvelja um hríð, fara í gönguferðir, veiði, siglingar og njóta miðnætursólarinnar.
Umgjörð kaupstaðarins er einstaklega falleg. Höfnin liggur í skjóli Raufarhafnarhöfða og yfir henni vakir falleg kirkja, byggð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar árið 1927 Melrakkaslétta er kunn fyrir hlunnindi, fiskveiðar, fjörubeit, æðarvarp, eggjatöku, og gjöful veiðivötn. Þarna er einstök náttúrufegurð á vorin og sumarkvöldum og fjölskrúðugt fuglalíf. Af Rauðanúp er stórkostlegt útsýni og návígi við fuglalífið í dröngunum Karli og Kerlingu.
Nyrst á sléttunni er Hraunhafnartangi, nyrsti hluti Íslands. Þar er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu
Á Raufarhöfn er öll grunnþjónusta heilsugæsla, apótek, matvöruverslun, banki, pósthús, sundlaug, heilsurækt, tjaldstæði, bifreiðaverkstæði, sjálfsali fyrir eldsneyti, hótel, gistiheimili, og kaffihús.
Á hverju ári eru haldnir menningardagar sem enda á Hrútadögum, fyrsta laugardag í október. Mikið er um að vera í þorpinu þessa daga og gaman að koma og upplifa menningu íbúa á þennan hátt.