Grímsey
Það er einstök tilfinning að ganga um grasi gróna eyjuna í norðri, horfa út yfir óravíddir Íslandshafsins í norðri og sjá bjarma fyrir hæstu tindum nyrstu stranda Íslands í suðri. Á fáum stöðum er eins auðvelt að finnast eins og maður sé einn í heiminum jafnvel þótt hér eigi um 70 manns lögheimili sitt. Fuglabjargið ómar, lundar stinga höfði upp úr holum sínum og ærnar eru á beit. Grímsey er engu lík.
Ferðalagið út í eyju er í sjálfu sér dálítið ævintýri. Annaðhvort er flogið í um 20 mínútur með Norlandair frá Akureyri eða siglt í um 3 klst. með ferjunni Sævari frá Dalvík. Sumir stansa hér aðeins dagpart en aðrir kjósa að láta líða almennilega úr sér, komast í tengsl við almættið og vinda ofan af allri streitu með lengri dvöl. Í Grímsey er að finna tvö gistiheimili sem eru opin allan ársins hring en vissara er að panta pláss með nokkrum fyrirvara, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Í þorpinu er einnig að finna litla verslun með allar helstu nauðsynjavörur.
Eitt helsta aðdráttarafl Grímseyjar er lundinn en hann sest upp í björgin um miðjan apríl og hverfur að jafnaði aftur til hafs í byrjun ágúst. Norðurheimskautsbaugurinn er ekki síður magnað aðdráttarafl og leggja margir leið sína til Grímseyjar með það fyrir augum að stíga norður fyrir hann. Árið 2017 var vígt nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey og vakti athygli víða um heim. Um er að ræða steinsteypta kúlu, Orbis et Globus, sem er um 3 metrar í þvermál, vegur nærri 7 tonn, og er færð úr stað á hverju ári svo hún fylgi hreyfingu heimskautsbaugsins fram og aftur um nyrsta hluta Grímseyjar.
Það er gaman að heimsækja Grímsey þegar sumarið er í blóma og lundinn fyllir björgin, en það er ekki síður einstakt að koma þangað yfir vetrartímann þegar myrkrið er algjört, einangrunin nánast áþreifanleg og norðurljósin dansa um dimman himininn.