Hofsós
Hofsós er lítið kauptún við austanverðan Skagafjörð. Saga Hofsóss, sem lengi var aðal verslunarstaður Skagfirðinga, spannar allt að 400 ár.
Gæsileg sundlaug er staðsett á Hofsósi en frá sundlauginni blasir við útsýni yfir Drangey og út fjörðinn. Í nágrenni sundlaugarinnar, í fjörunni neðan við bæinn er Staðarbjargarvík; gríðarfallegt stuðlaberg sem ekki má láta framhjá sér fara. Grafarósinn er einnig í göngufæri, en þar eru rústir af fornum verslunarstað og afar fallegt umhverfi.
Notaleg stemning er við Hofsána, þar sem gömlu húsin standa fallega uppgerð í brekkunni ofan við bryggjuna. Þar er Pakkhúsið (1772), eitt elsta bjálkahús landsins, sem og forvitnilegar og fróðlegar sýningar í húsum Vesturfarasetursins sem eru byggð í gamla stílnum. Gaman er að rölta niður í gamla bæjarhlutann og yfir göngubrúna á Hofsá.
Samgönguminjasafn Skagafjarðar er staðsett í Stóragerði, 12 km frá Hofsósi. Þar er ótrúlegt safn gamalla bíla og tækja sem vert er að skoða. Yfir 100 tæki eru til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, motorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 250-300 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða.
Ýmis afþreying og þjónusta er í boði fyrir ferðamenn á Hofsósi; verslun, veitingahús, gisting, tjaldstæði, verkstæði, sundlaug, sparkvöllur og ærslabelgur.