Hrafnagil
- Kyrrð við bæjardyrnar
Eyjafjarðarsveit er ein blómlegasta sveit Íslands og í næsta nágrenni við Akureyri. Um sveitina liðast hin stórbrotna Eyjafjarðará sem setur fallegan svip á umhverfið og ber mér sér næringu til jarðarinnar sem gerir sveitina svo öfluga til búskapar. Til sveita má sjá kýr, hesta og kindur ásamt fjölda annarra spendýra og við óshólma Eyjafjarðarár má bera augum fjölbreytta flóru fugla sem verpa þar og dafna á sumrin.
Fjölmargar gönguleiðir má finna í Eyjafjarðarsveit og má þar nefna útivistarstíginn milli Hrafnagils og Akureyrar þar sem áhugasamir geta hjólað, gengið eða hlaupið í stórbrotnu og rómantísku umhverfinu við Eyjafjarðará. Við Akureyrarflugvöll er einnig hægt að ganga um óshólma Eyjafjarðarár allan ársins hring. Framar í dalnum er hægt að ganga á fjöllin sem rísa tignarlega kringum dalinn og má þar helst nefna Kerlingu sem gnæfir yfir þeim öllum og er hæsta fjall Íslands beint úr byggð.
Í Eyjafjarðarsveit er þéttbýliskjarninn Hrafnagil með fjölskylduvænni sundlaug og leiktækjum sem umvefja umhverfi hennar ásamt glæsilegu og fullbúnu tjaldsvæði. Fjölbreytt úrval gistimöguleika, veitinga og afþreyingar er í Eyjafjarðarsveit og geta gestir svæðisins notið matar úr héraði, dægrastyttingar og gistingar í kyrrð og nálægt við náttúru og persónuleika sveitarinnar sem upplifa má á Handverkshátíð Eyjafjarðarsveitar, stærstu handverkshátíðar Íslands.