Siglufjörður
- Á milli fjalla
Siglufjörður býr að stórbrotinni náttúrufegurð, þar sem möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru hreint óþrjótandi. Náttúran er ávallt innan seilingar, hvort heldur haldið er í gönguferðir, skellt sér á skíði eða veitt í vötnum, ám eða sjó, ásamt fjölþættum gönguleiðum um fjöll og dali. Við slíkar aðstæður hefur nær ósnortið og friðsælt náttúrufar Héðinsfjarðarins notið mikillar hylli hjá ferðafólki.
Á Siglufirði er nægur snjór í fjöllunum og allsstaðar hægt að finna tækifæri og aðstöðu til útiveru. Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, fjallaskíði og gönguskíði eða þeytast um á snjósleða.
Skíðasvæðið í Skarðsdal má tvímælalaust telja með bestu skíðasvæðum landsins. Þar er oftast svo mikill snjór að hægt er að skíða langt fram á vor. Á svæðinu eru nú þrjár lyftur, tvær samfelldar: diskalyfta og T-lyfta, samtals um það bil 1.500 metrar að lengd. Þriðja og efsta lyftan er 530 metra löng með um 180 metra fallhæð. Efri endi lyftunnar er í rúmlega 650 metra hæð yfir sjó.
Á Siglufirði er blómlegt menningarlíf. Fjöldi veitingahúsa, með fjölbreytta matseðla er að finna og gistimöguleikar miklir. Einnig eru fjölmörg gallerí og vinnustofur, söfn og setur. En þar er helst að nefna Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar og Ljóðasetur Íslands.
Á Siglufirði er 25 metra innisundlaug og heitur pottur (úti). Á Siglufirði er 9 holu golfvöllur og nægt framboð af afþreyingu.
Fastar árlegar bæjarhátíðir eru Páskafjör á skíðasvæðinu, Þjóðlagahátíð, Trilludagar, Ljóðahátíð og Síldarævintýrið.