Hrísey
- Perla Eyjafjarðar
Náttúruperlan Hrísey liggur um miðbik Eyjafjarðar. Þar er lítið sjávarþorp sem býður upp á ýmislegt sem ferðafólki kemur til góða, t.d.sundlaug, lítið gistiheimili, veitingahús, tjaldsvæði, kaffihús og verslun.
Gönguleiðir liggja frá þorpinu víðs vegar um eyjuna sem þekkt er fyrir fjölbreytt fuglalíf.
Skemmtileg dagskrá fyrir ferðafólk gæti t.d. verið fólgin í að fara í skemmtilegar gönguferðir, skoða hús Hákarla Jörundar, fara í sund, kíkja í Hríseyjarbúðina, spila frisbígolf eða bara njóta friðsældarinnar og fuglalífsins á þessum einstaka stað.
Til að komast til Hríseyjar, er stefnan tekin á Dalvík og beygt við vegamótin að Árskógssandi, áður en til Dalvíkur er komið. Hríseyjarferjan heldur uppi áætlunarferðum frá Árskógssandi og tekur siglingin út í eyju um 15 mínútur.