Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þórðarstaðaskógur

Þórðarstaðaskógur

Þórðarstaðaskógur er í innanverðum Fnjóskadal austan ár. Eyðijarðirnar Belgsá og Bakkasel eru sunnan við Þórðarstaði og eru hlíðar þar einnig skógi vaxnar. Þessir skógar mynda ásamt Lundsskógi eitt mesta samfellda skóglendi á Íslandi. Fyrir nokkru var land einnig friðað á jörðinni Lundi sem tengir þetta skóglendi við Vaglaskóg. Því hillir undir að samfellt skóglendi verði í öllum austanverðum Fnjóskadal frá Hálsi í mynni Ljósavatnsskarðs um Vaglaskóg og inn úr.

Hægt er að komast akandi í Þórðarstaðaskóg að norðan frá Vaglaskógi og Lundi en þá er nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. Þetta er líka skemmtileg leið til göngu, hjólreiða eða á hestum. Það sama gildir þegar komið er að sunnan yfir brú á Fnjóská við Illugastaði. Þaðan er einnig hægt að fara til suðurs um Belgsá og Bakkasel og áfram inn í Timburvalladal, einn þriggja afdala Fnjóskadals.

Um Þórðarstaðaskóg liggja þjónustuslóðir eða skógarvegir sem hægt er að ganga um. Að öðru leyti hefur ekkert verið gert í þágu ferðalanga en áhugavert að skoða fjölbreytilegt skóglendið, náttúruskóg í bland við ræktaðan nytjaskóg. Töluvert er um sveppi í skógum Fnjóskadals og víða berjaspretta, ekki síst hrútaber.

Nánari upplýsingar: Þórðastaðaskógur