Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Náttúra

Ásbyrgi

Ásbyrgi í Kelduhverfi er fjölbreyttur skógur í ægifögru og stórgerðu skeifulaga jarðsigi. Svæðið tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Jarðsig þetta er eitt mesta náttúruundur landsins. Byrgið er skógi vaxið, einkum af birki og víði, auk reynis. Nokkur þúsund barrtré voru gróðursett í byrginu á sínum tíma og dafna vel. Í Ásbyrgi er góð aðstaða til útivistar. Gönguleiðir eru margar, tjaldsvæði góð og náttúrufegurð mikil.
Aðkoman að Ásbyrgi er frá þjóðvegi 85 innst í Kelduhverfi.

Í Ásbyrgi er góð aðstaða fyrir ferðalanga og áhugafólk um náttúru. Tjaldstæði á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs er rúmt og gott með fyrsta flokks aðbúnaði. Skammt frá tjaldstæðinu er golfvöllur og verslun sem selur allar helstu nauðsynjar. Inni í byrginu er gott bílastæði og stígakerfi. Þar er einnig grasflöt sem er nýtt ýmist sem íþróttavöllur eða tjaldsvæði.

Botnstjörn innst í Byrginu er í leifum fosshylsins sem myndaðist í hamfarahlaupunum þegar Ásbyrgi varð til. Hún er tær og einstaklega falleg. Þar verpa rauðhöfðaendur ár hvert. Vestan við tjörnina er útsýnisklettur þaðan sem sér yfir allan skóginn. Talsvert fýlavarp er í klettunum og nokkur gauragangur í þeim yfir sumarið.
Í Ásbyrgi er mikið af sveppum síðsumars, s.s. kúlalubba og berserkjasvepp.

Nánari upplýsingar: Ásbyrgi