Íslendingar byrjuðu snemma að nota plöntur sem þeir gátu tínt í náttúrunni. Á meðal þeirra eru jurtir eins og blóðberg, einiber, auk villtra lauka, graslauks og hvítlauks. Vinsælustu jurtirnar í te voru blóðberg, vallhumall, rjúpnalauf og ljónslappi.
Hvönn vex villt á Íslandi og er ein af fáum stórum plöntum sem er nógu harðger til að þrífast hér. Það er tiltölulega auðvelt að rækta hana, eins og er gert í Hrísey, til að nota í krydd, te og lækningablöndur. Fólk sauð ræturnar og stilkana af plöntunum, smurði þær svo með smjöri og borðaði sem grænmeti, oft með harðfiski. Laufin voru söxuð og notuð í súpur og kássur. Söl er salat sjávarins og er notað sem snakk og til að krydda fisk og kjöt. Það er uppspretta mikilvægra vítamína og steinefna í fæðu Íslendinga. Um tíma var eins og það hálfpartinn gleymdist og var notað í minna mæli, en hefur notið vaxandi vinsælda að undanförnu. Í óhefluðu landslagi Norðurlands vex mosi og var hann afskaplega mikilvægur í daglegri fæðu fólks fyrr á öldum. Var hann m.a. notaður í brauð, súpur, búðing, blóðmör og alls kyns aðra rétti, auk þess að vera notaður í te og mixtúrur sem var ætlað að lækna alls kyns sjúkdóma og krankleika.