Bygg er svo til eina korntegundin sem hefur verið ræktuð á Íslandi í gegnum tíðina, á meðan rúgur og hveiti hafa verið innflutt. Núorðið er bygg ræktað á örfáum hlýrri og skjólsælli stöðum. Það er notað sem meðlæti með kjöt- og fiskréttum, en einnig í brauðbakstur og bjórbruggun. Brauð spilar ekki stóra rullu í matarhefð Íslendinga, vegna erfiðleika við að rækta það hér á landi, en einnig sökum skorts á eldiviði og ofnum til að baka brauð í. Fólk átti það þó til að nota jarðhita í brauðbakstur og er það gert sums staðar enn í dag. Hægt er að kaupa rúgbrauð í Mývatnssveit og sjá hvernig það er bakað.
Á Íslandi var enginn bakari að atvinnu fyrr en um miðja 19. öld. Ofnar voru á þessum tíma farnir að koma í stað opinna eldstæða, sem leiddi til ákveðinnar byltingar í matarmenningu landans. Gestum var ekki lengur boðið upp á diska hlaðna reyktu lambakjöti og harðfiski, heldur fjöll af kökum og bakkelsi, en þetta var þó aðeins upphafið að íslenska kökuflóðinu.