Mannamót markaðsstofanna 2016
Landsbyggðin í sókn
Markaðsstofur landshlutanna standa fyrir ferðasýningunni Mannamót 2016 fimmtudaginn 21. janúar. Tilgangur Mannamóts er að auka dreifingu ferðamanna um landið allt með því að mynda og efla tengsl á milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi. Gestir munu sjá og fræðast um allt það sem er efst á baugi í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Það eru markaðsstofur landshlutanna sem setja upp viðburðinn fyrir samstarfsfyrirtæki sín en tilgangur Mannamóts er að kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni fyrir ferðaþjónustuaðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er m.a. að vinna að dreifingu ferðamanna um landið allt og efla uppbyggingu heilsársferðaþjónustu.
Þetta er gott tækifæri fyrir fyrirtæki, stór sem smá, til að kynna starfsemi sína og afla upplýsinga um það sem landshlutarnir hafa upp á að bjóða en sífellt meiri áhersla er lögð á, meðal annars í nýrri ferðamálastefnu sem ráðherra ferðamála kynnti sl. haust, að dreifa ferðamönnum betur um landið í þeim tilgangi að draga út árstíðarsveiflum sem einkenna þessa atvinnugrein einkum úti á landi.
Um 180 fyrirtæki eru skráð á Mannamót 2016 og hefur þátttakan aldrei verið meiri og greinilegt að það er hugur í ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni sem hyggjast taka fullan þátt í móttöku á þeim síaukna fjölda ferðamanna sem heimsækja Ísland ár hvert. Á Mannamót mæta framsæknustu og metnaðarfyllstu ferðaþjónustufyrirtæki landsbyggðarinnar og því óhætt að fullyrða að viðburðurinn sé óðum að festa sig í sessi sem ein helsta ferðasýning landsins.
Á Mannamóti 2016 mun ýmislegt bera fyrir augu gesta s.s. Norðurljósaböð á Norðurlandi, Óbyggðasetur Íslands í Fljótsdal, sýningin Eldheimar - gosminjasýning í Vestmannaeyjum, sem hlaut Hönnunarverðlaun Íslands í fyrra og ýmislegt fleira.
Reikna má með ríflega fimm hundruð gestum á viðburðinn sem haldinn verður í flugskýli flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) milli kl. 12 og 17, fimmtudaginn 21. janúar.
Ekkert skráningargjald er fyrir aðra gesti en þeir eru beðnir um að staðfesta þátttöku fyrir 20. janúar.
Nánari upplýsingar veitir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands // GSM: 864 6786 // Netfang: arnheidur@nordurland.is
Myndatexti: Frá Mannamóti 2015.
Sjá nánar á www.markadsstofur.is