Söguleg lending easyJet á Akureyrarflugvelli
Nýr kafli í sögu norðlenskrar ferðaþjónustu hófst í dag þegar fyrsta flugvél breska flugfélagsins easyJet lenti á Akureyrarflugvelli í dag. Vélin flutti breska ferðamenn frá London Gatwick flugvellinum og næstu fimm mánuði verður flogið á milli þessara áfangastaða tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum.
Norðlensk ferðaþjónusta í samstarfi við sveitarfélög og ríki hefur unnið ötullega að því á undanförnum áratug að fá reglubundið millilandaflug um Akureyrarflugvöll í gegnum Flugklasann Air 66N sem rekinn er af Markaðsstofu Norðurlands. Sérstök áhersla hefur verið lögð á vetrarmánuði í þessu samhengi og því er sérstaklega ánægjulegt að easyJet ríði á vaðið sem fyrsta erlenda flugfélagið sem heldur úti millilandaflugi um Akureyri. Breskir ferðamenn hafa í gegnum tíðina verið fjölmennasti hópurinn sem kemur til Íslands yfir vetrartímann og því ljóst að koma easyJet mun hafa gríðarleg áhrif.
Stuðningur frá ráðuneyti
Ráðherra ferðamála hefur stutt dyggilega við uppbyggingu flugs um Akureyrarflugvöll og stefnir að því að setja enn meiri kraft í verkefnið, meðal annars með stofnun starfshóps sem hefur það að markmiði að tryggja beint flug til framtíðar.
,,Það markar þáttaskil í flugsögu Íslands að easyJet hefji beint flug frá London til Akureyrar utan sumartíðar í ferðaþjónustu. Flug líkt og þetta eykur tækifæri á að nýta inniviði í ferðaþjónustu betur og lengur á ársgrundvelli og bætir búsetuskilyrði á Norðurlandi, enda er greiður aðgangur að alþjóðaflugi hluti af því að búa í nútímasamfélagi. Menningar- og viðskiptaráðuneytið mun halda áfram að styðja við uppbyggingu alþjóðaflugs til Akureyrar en á næstu misserum verða stigin skref til að auka enn frekar slagkraftinn í þeirri vinnu enda fjölmörg tækifæri í því fólgin. Ég óska Norðlendingum til hamingju með þennan áfanga og hlakka til að fylgja honum eftir í góðri samvinnu við heimamenn,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
easyJet ryðji brautina
Á vettvangi Flugklasans Air 66N hefur samtalið við easyJet staðið yfir í fjölda ára, en svona verkefni krefjast þolinmæði og þrautseigju. Frá fyrsta fundi Flugklasans með fulltrúum félagsins árið 2014 hafa þeir sýnt áhuga og hann hefur aukist jafnt og þétt, þrátt fyrir að heimsfaraldur Covid-19 hafi sett strik í reikninginn.
„Frá stofnun 2011 hefur markmið Flugklasans verið að ná inn beinu flugi frá Bretlandi tvisvar í viku allt árið. Nú erum við komin með veturinn og mikilvægt að tryggja það flug í sessi enda er aukin umferð í beinu flugi að vetri til forsenda þess að hægt verði að ná niður árstíðarsveiflunni og byggja upp heilsársferðaþjónustu á svæðinu. Mikil vinna hefur verið unnin með breskum ferðaskrifstofum og norðlenskum ferðaþjónustuaðilum til að þróa eftirspurn eftir vetrarvörum. Nú er markmiðið að flugi easyJet verði haldið áfram og að þetta flug ryðji brautina fyrir fleiri áfangastaði í beinu flugi um Akureyrarflugvöll,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Eina breska flugfélagið
„Við erum hæstánægð með að hefja flug á þessari nýju leið milli London og Akureyrar, og að vera eina breska flugfélagið sem flýgur til Norðurlands. Þessi einstaka leið skapar fleiri valmöguleika og fjölbreytni fyrir okkar viðskiptavini í vetur frá Bretlandi,“ segir Ali Gayward, svæðisstjóri easyJet í Bretlandi.
„Þessi nýja leið okkar býður upp á ýmsa nýja möguleika, með upplifunum á borð við heit náttúruböð, jeppaferðir, hvalaskoðun og norðurljósaskoðun. Við erum því viss um að þessi áfangastaður mun verða vinsæll og við hlökkum til að bjóða farþega velkomna um borð í flugvélarnar okkar á leið til Akureyrar,“ segir Gayward jafnframt.