Upptaka frá kynningu Chris Hagan á breskum markaði
Chris Hagan hélt kynningu á breskum ferðaþjónustu markaði fimmtudaginn 8. febrúar, en fundurinn var lokahnykkur í verkefninu Straumhvörf sem snerist um vöruþróun í ferðaþjónustu vegna millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði. Hér að neðan má sjá upptöku frá fundinum, sem haldinn var á Teams.
Chris hefur langa starfsreynslu í ferðaþjónustu í Bretlandi og var m.a. driffjöðurin í leiguflugum Super Break til Akureyrar á sínum tíma. Á fundinum fór Chris yfir hvernig ferðamenn eru líklegir til að heimsækja Norður- og Austurland, hverju þeir sækjast eftir og hvernig er best að ná til þeirra.
Vöruþróunarverkefnið Straumhvörf hefur fengið góðar viðtökur og afrakstur þegar farinn að sjást. Þann 17. janúar s.l. voru kynntar 8 nýjar vörur í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi fyrir ferðaskrifstofum á höfuðborgarsvæðinu. Kynningarnar voru hluti af Ferðaþjónustuvikunni, þar sem Mannamót voru stærsti viðburðurinn.
Straumhvarfa verkefnið var sett á laggirnar til að hvetja til vöruþróunar, ekki síst m.t.t. aukins millilandaflugs til Norður- og Austurlands. Eins og staðan er núna er easyJet með mestu umsvifin með flugi frá London til Akureyrar tvisvar í viku yfir veturinn. Stýrihópur verkefnisins ákvað því að bjóða upp á kynningarfund þar sem veitt er innsýn í hvernig ferðalangar eru mögulega að koma með flugum easyJet.