Viðurkenningar í ferðaþjónustu á Norðurlandi 2016
Markaðsstofa Norðurlands veitir árlega þrjár viðurkenningar til fyrirtækja og einstaklinga í ferðaþjónustu sem þykja hafa skarað fram úr á Norðurlandi. Viðurkenningarnar voru veittar á Uppskeruhátíð ferðþjónustunnar sem haldin var í Skagafirði 20. október 2016.
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi og í ár var það fyrirtækið Inspiration Iceland sem hefur skapað sér sérstöðu með vellíðunarferðum og hundasleðaferðum.
Inspiration Iceland fékk ferðaskipuleggjendaleyfi í maí 2010 og ferðaskrifstofuleyfi í mars 2011 og bauð þá uppá dagsferðir og jeppaferðir þar sem lögð var áhersla á wellbeing eða vellíðunarferðir. Áður hafði fyrirtækið rekið gistingu og verið með snjóþrúguferðir. Fyrirtækið er rekið af Andreas Baumgartner og Ulricu Seiler. Þau eru bæði vel menntuð í ýmsu sem kemur að vellíðunarferðaþjónustu, jóga og útivist auk þess sem þau byggja á mikilli reynslu á þessu sviði. Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á vellíðunarferðaþjónustu og sterk tengsl við náttúruna og hefur verið frumkvöðull í þróun ferða á þessu sviði. Sérstök áhersla er lögð á þróun í vetrarferðaþjónustu og hófu þau fyrst fyrirtækja að bjóða hundasleðaferðir á Norðurlandi. Þessi viðbót við vöruframboðið á Norðurlandi skiptir gríðarlega miklu málið, sérstaklega þegar kemur að samanburði við vetrarferðir til Skandinavíu. Nýjasta viðbótin er Knarrarberg Yoga and Spa sem opnaði í febrúar 2016. Öll þjónusta miðar að því að bjóða mikla upplifun fyrir líkama og sál auk þess sem hún byggir á því að njóta náttúrunnar á Norðurlandi. Inspiration Iceland hefur sýnt fram á metnaðarfulla og faglega uppbyggingu á fyrirtæki sem hefur alla burði til að vaxa og dafna um ókomin ár, og er þegar orðinn öflugur hluti af því að byggja upp öfluga ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Viðurkenningin fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði auk þess að vinna að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun. Það fyrirtæki sem fær viðurkenninguna í ár er Sel – Hótel Mývatn.
Árið 2000 var Sel – Hótel Mývatn tekið í notkun með 35 herbergjum en forsaga þess er sú að árið 1973 stofnuðu Sigrún Jóhannsdóttir og Kristján Yngvason verslunina og veitingastaðinn Sel að Skútustöðum. Núverandi rekstraraðilar þessa fjölskyldufyrirtækis eru Yngvi Ragnar Kristjánsson og Ásdís Erla Jóhannesdóttir. Þau hafa nýverið farið í mikla uppbyggingu á fyrirtækinu og luku vorið 2015 endurbótum á hótelinu en þá voru tekin í notkun 23 ný herbergi auk þess sem gestamóttakan, veitingasalir og fundasalir voru endurnýjaðir og stækkaðir. Hótelið er því vel búið til að taka á móti einstaklingum og hópum auk þess sem þar er boðið upp á afþreyingu á Mývatnssvæðinu undir merkjum Mývatn Winter Activity. Á hótelinu er áralöng reynsla í því að bjóða afþreyingu fyrir gesti og er áhersla lögð á jeppaferðir, snjósleðaferðir, skíðagöngu, go-kart, golf og krikket á ís auk þess sem viðburðurinn Horses on Ice er haldinn. Öll afþreying byggir á þeirri sérstöku náttúru sem er í kringum Mývatn og veitir gestum tækifæri til að upplifa bæði náttúruna, fuglalífið og ekki síður mannlífið.
Sel – Hótel Mývatn voru brautryðjendur í þróun á vetrarferðaþjónustu við Mývatn og hafa lagt áherslu á að halda hótelinu opnu allt árið og byggja þannig upp eftirspurn að vetri. Uppbyggingarstarfið hefur sent þau skilaboð út á markaðina að Norðurland sé sterkur og öflugur valkostur að vetri til og því haft mikil og jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu á svæðinu allt árið og aukið möguleika fyrirtækja á heilsársrekstri.
Viðurkenninguna fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Viðurkenninguna í ár fékk Magnús Sigmundsson eða Magnús í Hestasporti eins og hann er oft kallaður.
Það má rekja brennandi áhuga Magnúsar á ferðaþjónustu til þess að Sveinn Jóhannsson á Varmalæk fór fyrstur manna með erlenda gesti í lengri hestaferð yfir Kjöl árið 1974. Þessi ferð markaði upphaf lengri hestaferða á Íslandi eins og þær eru reknar í dag. Magnús og Björn sonur Sveins voru góðir félagar og stofnuðu ásamt Sveini og Sigríði dóttur Sveins árið 1986 fyrirtækið Hestasport. Hestasport kom á fót sýningunni "Til fundar við íslenska hestinn" þar sem erlendir ferðamenn á hringferð sinni komu við á Vindheimamelum þar sem þeim voru kynntar gangtegundir og þýðleiki íslenska hestsins. Þar með var Hestasport komið með sérstöðu sem voru hestasýningar í Skagafirði, vöggu íslenskar hestamennsku en í dag eru hestasýningar víða um land í þessari mynd.
Í framhaldi af þessu fór Magnús að leita að náttúrufarslegri sérstöðu svæðisins. Skagfirsku jökulsárnar heilluðu og á Hvítá voru menn farnir að reyna flúðasiglingar að erlendri fyrirmynd. Hann leitaði stuðnings hjá þeim frumkvöðlum sem þar voru á ferð og tilraunaferðir voru farnar á skagfirsku ánum árin 1992 til 1994. Í framhaldinu var leitað til erlendra leiðsögumanna og það er ekki síst þeim nepölsku leiðsögumönnum að þakka að hægt var að þróa ferðirnar enn frekar þannig að fyllsta öryggis væri gætt og þannig hægt að setja ferðirnar í sölu.
Árið 2002 ákveða Magnús og Björn síðan að skipta félaginu og tók Björn yfir sýningarnar "Til fundar við íslenska hestinn" en Magnús hélt nafni fyrirtækisins og hélt áfram með hestaferðir og flúðasiglingar. Á þessum tíma hóf Magnús einnig byggingu sumarhúsa sem hafa reynst góð viðbót við ferðaþjónustuna á svæðinu og dregið að aukinn fjölda gesta.
Magnús er frumkvöðull sem hefur ávallt haft hagsmuni Skagafjarðar og Norðurlands að leiðarljósi. Hann hefur í gegnum árin sýnt að hann hefur trú á uppbyggingu í ferðaþjónustu, vilja til að láta gott af sér leiða og baráttuþrek til að koma málum áfram. Þetta hefur hann gert annars vegar með því að byggja upp eigið fyrirtæki, skapa þannig störf, leggja áherslu á úrvalsþjónustu og búa til margumrædda segla. Hins vegar með því að vera ötull talsmaður Norðlendinga í málefnum ferðaþjónustunnar og annarri hagsmunagæslu.