Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Dimmuborgir með bestu göngustíga Íslands

Fyrr í sumar efndi Floridana til leiks á Facebook þar sem fólk var beðið um að koma með tillögur að bestu göngustígum Íslands. Miðað var við stíga sem tekur minna en þrjár stundir að ganga. Dimmuborgir í Mývatnssveit hlaut flestar tilnefningar.
Göngustígagerð, Dimmuborgir
Göngustígagerð, Dimmuborgir

Fyrr í sumar efndi Floridana til leiks á  Facebook  þar sem fólk var beðið um að koma með tillögur að bestu göngustígum Íslands. Miðað var við stíga sem tekur minna en þrjár stundir að ganga.  Dimmuborgir í Mývatnssveit hlaut flestar tilnefningar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Halldóru Tryggvadóttur, vörumerkjastjóra Floridana, með verðlaunaskjalið sem Landgræðslan fékk, en hjá henni standa Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, og Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslunnar. 

Tæplega 200 þúsund gestir koma árlega í Dimmuborgir. Nú er búið að malbika rösklega 600 metra af göngustígum í Dimmuborgum og ætlunin er að malbika um 800 metra til viðbótar á þessu ári. Auk þess er búið að lagfæra og merkja malarborna göngustíga. Alls eru göngustígar í Dimmuborgum um 6400 metrar.

Malbikun göngustíga í Dimmuborgum hófst á liðnu ári. Stígarnir voru farnir að láta á sjá vegna mikils fjölda ferðamanna. Stígunum þurfti oft að loka á vorin vegna aurbleytu.

Þrír landeigendur í Mývatnssveit afhentu Landgræðslunni Dimmuborgir til eignar og landgræðslu árið 1942. Allt frá þeim tíma hefur stofnunin unnið að heftingu sandfoks og verndun Borganna. Vandfundið er annað efni en malbik sem hentar og þolir þær þúsundir ferðamanna sem vilja njóta fegurðarinnar í Dimmuborgum. Auk þess gerir malbikið fötluðum kleift að fara um Dimmuborgir án vandkvæða.

Fyrir tilstuðlan Landgræðslunnar var byggt þjónustuhús ásamt salernum fyrir nokkrum árum við innganginn á Dimmuborgum. Ný salerni voru tekin í  notkun  á sl. ári.

Ferðamálastofa og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafa styrkt þessar framkvæmdir. Auk þessara aðila hafa ýmis félög, stofnanir, ríkissjóður og sveitarstjórn Skútustaðahrepps styrkt sandfoksvarnir og verndun Dimmuborga. Landgræðsla ríkisins og Umhverfisstofnun hafa með sér samstarfssamning um rekstur og verndun Dimmuborga.