Á Reykjum er stórt og opið tjaldsvæði með salernis- og eldunaraðstöðu og litlu leiksvæði fyrir börnin. Á svæðinu er einnig gistiheimili, lítið kaffihús og tvær heitar náttúrulaugar, Grettislaug og Jarlslaug.
Grettislaugin er þekkt úr Grettissögu því þar baðaði Grettir Ásmundarson sig árið 1030 þegar hann kom að landi eftir sund frá Drangey til að ná sér í eld. Jarlslaug er aftur á móti nefnd í höfuð Jóns Eiríkssonar Drangeyjarjarls sem byggði upp svæðið. Laugarnar eru ca 38-41 gráðu heitar, við þær er sturtuaðstaða. Stutt er í sjóinn fyrir þá sem stunda sjósund. Hægt er að ganga í Glerhallavík eða upp í dalinn, mikil náttúrufegurð er á Reykjum og fuglalíf.
Skemmtilegt svæði fyrir einstaklinga sem og hópa, tilvalið fyrir ættarmót.