Vel sóttur fundur með NV-þingmönnum og ferðamálaráðherra
Markaðsstofa Norðurlands og Samtök ferðaþjónustunnar stóðu fyrir fundi með ráðherra ferðamála, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, og þingmönnum Norðvesturkjördæmis á veitingastaðnum Teni Blönduósi þriðjudaginn 1. október. Fundurinn var opinn öllum en umræðuefnið var uppbygging, staðan og horfur í ferðaþjónustu í kjördæminu.
Fundurinn var vel sóttur af fólki úr ferðaþjónustu, fulltrúum sveitarstjórna á Norðurlandi vestra auk annarra úr stoðkerfi ferðaþjónustu. Lilja Dögg hélt fyrsta erindi fundarins þar sem hún fór yfir það starf sem hefur verið unnið í ráðuneytinu undanfarin misseri, til að mynda vinnu við ferðamálastefnu og þær áherslur sem hún hefur lagt áherslu á sem ráðherra málaflokksins. Næstur steig Pétur Óskarsson, formaður SAF, í pontu og fór yfir ýmsar tölur sem samtökin hafa tekið saman um ferðaþjónustu á landsvísu og í landshlutanum.
Að lokum fór Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN, yfir starfsemi Markaðsstofunnar og þá sérstaklega verkefni Flugklasans Air 66N. Þar kom í ljós að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu nýlegri könnun MN sögðust hafa fengið til sín gesti sem komu með beinu flugi til Akureyrar. Þau svör voru jöfn yfir allt Norðurland og því afar ánægjulegt að sjá áhrifin skila sér um allan landshlutann.
Að lokum var pallborð með nokkrum af þingmönnum kjördæmisins og gestir fundarins gátu borið fram spurningar um málefni tengd ferðaþjónustu. Í pallborðinu sátu auk Lilju Daggar, þeir Teitur Björn Einarsson, Stefán Vagn Stefánsson, Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson. Arnheiður og Pétur stýrðu pallborðinu og tóku við spurningum.
Spurningar úr sal snerust um ýmis málefni, svosem millilandaflug um Akureyrarflugvöll og þátttöku ríkis og sveitarfélaga í markaðssetningu flugvallarins. Auk þess voru tækifæri á svæðinu rædd, bæði í markaðssetningu til að sækja farþega frá Akureyri inn á svæðið og tækifæri til afþreyingar og náttúru- og menningarupplifunar sem svæðið býður upp á. Ljóst er að svæðið á mikið inni og mikill vilji er til þess að nýta tækifærin sem skapast með millilandaflugi um Akureyri. Einnig var rætt um vegasamgöngur og þörfina til að bæta þær verulega í kjördæminu.
Mikill samhljómur var meðal þingmanna og ráðherra um þessi tækifæri sem væru til staðar á Norðurlandi vestra. Þörf væri á enn frekari uppbyggingu á öllum sviðum ferðaþjónustu og minntist Lilja Dögg sérstaklega á þá áherslu á svæði sem hafa verið minna sótt, við úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannstaða.
Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum.