Húnabyggð
Verkefni 1: Kálfshamarsvík
Í Kálfshamarsvík á Skaga er heilmikil saga og sýnilegar minjar um þorp sem eitt sinn iðaði af lífi. Þar er viti sem er sterkt auðkenni fyrir svæðið og jafnframt sérstakar stuðlabergsmyndanir, sem trekkja að, auk óviðjafnanlegs útsýnis. Staðurinn er orðinn vinsæll viðkomustaður ferðamanna, en með uppbyggingu á svæðinu verður hægt að auka mikið aðdráttarafl hans. Einnig þarf að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru fyrir ágangi.
Helstu verkliðir: Leggja á stíga með aðgengi fyrir alla frá núverandi bílastæði að vitanum og styrkja þær gönguleiðir sem skilgreindar eru í deiliskipulagi. Í dag er víða ófullnægjandi aðgengi vegna bleytu, hliðarhalla og einnig má sjá rof eftir ferðamenn sem kalla á aðgerðir sem fyrst. Þá er einnig hugmyndin að hanna og koma upp útsýnispöllum, bryggju og öryggisgirðingum, hönnun og bygging nýs bílastæðis og koma upp þjónustuhúsi.
Verkefni 2: Þrístapar – lýsing fyrir gesti og ferðamenn
Þrístapar eru þrír samliggjandi smáhólar sem eru hluti af Vatnsdalshólum. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi 12. janúar 1830. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að byggja upp áfangastað fyrir ferðamenn á gömlum grunni að Þrístöpum. Komið hefur verið upp bílastæði, snyrtihúsi og sögustíg þar sem upplýsingum er miðlað á skiltum og með listaverkum. Þannig hefur áfangastaðurinn verið gerður aðgengilegur fyrir ferðamenn og sækja nú þegar fjöldi manns hann heim, enda í alfaraleið við þjóðveg 1. Til að bæta öryggi og gera staðinn aðgengilegan allan sólarhringinn, allan ársins hring er nauðsynlegt að lýsa vel upp bæði bílastæði sem og meðfram sögustígnum að Þrístöpunum sjálfum. Þannig má lengja ferðamannatímabilið á Þrístöpum og áfangastaðurinn yrði enn stærri þáttur í að laða ferðamenn á svæðið og hægja á þeim sem eiga leið í gegn.
Helstu verkliðir: Hönnun og uppsetning raflýsingar á bílastæði og meðfram sögustíg.
Verkefni 3: Gönguleiðir og göngubrú á bökkum Blöndu (Blönduós)
Verkefnið snýst um nýja ferðamannaleið sem byggir á eldri grunni. Þessi leið mun tengja saman Hrútey sem er friðlýst eyja í ánni Blöndu, gamlan bæjarkjarna með athyglisverðum menningarverðmætum, ströndina með óviðjafnanlegu sólarlagi og athyglisverða staði meðfram ánni. Þarna skapast möguleikar á samfelldum gönguleiðum langt upp með Blöndu beggja vegna árinnar. Einnig skapast möguleikar á leiðum meðfram sjávarsíðunni til norðurs og suðurs.
Helstu verkliðir: Öryggisúttekt á gönguleiðum við bakka Blöndu, hönnun, aðlögun og útfærsla göngustíga við Blöndu, hönnun göngubrúar við ósinn, gerð deiliskipulags fyrir Hrútey og göngubrú yfir á suðurbakkann, og gerð deiliskipulags fyrir brúarstæði og gönguleiðir við ósinn.